Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 477 . mál.


821. Skýrsla



dóms- og kirkjumálaráðherra og utanríkisráðherra um Schengen-samstarfið.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



I. INNGANGUR
1. Almennt.
    Hinn 14. júní 1985 var undirritað í bænum Schengen í Lúxemborg samkomulag milli Belgíu, Frakklands, Hollands, Lúxemborgar og Þýskalands um að fella smám saman niður eftirlit á sameiginlegum landamærum þeirra. 19. júní 1990 var undirritaður á sama stað samningur milli sömu ríkja um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 1985. Þessi samningur er almennt kallaður Schengen-samningurinn og er það gert í skýrslu þessari.
    Schengen-samningurinn kom til framkvæmda milli framangreindra ríkja, auk Portúgals og Spánar sem höfðu gerst aðilar að honum, 26. mars 1995. Austurríki, Grikkland og Ítalía hafa einnig gerst aðilar að samningnum en samningurinn hefur ekki enn komið til framkvæmda hvað þessi ríki varðar.
    Danmörk sótti um aðild að Schengen-samstarfinu í maí 1994. Sama gerðu Finnland og Svíþjóð í júní 1995. Af hálfu þessara ríkja var í umsókn að samstarfinu gerður sá fyrirvari að unnt yrði að viðhalda norræna vegabréfasambandinu, þ.e. að fullnægjandi lausn fyndist fyrir þau Norðurlandanna, Ísland og Noreg, sem ekki geta orðið fullir aðilar að samstarfinu, sem tryggði áframhaldandi ferða- og vegabréfafrelsi innan Norðurlanda.
    Á fundi sínum 27. febrúar 1995 lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna því yfir að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að Norðurlöndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu.

2. Ísland og Schengen.
    Í júní 1995 hófust viðræður við formennskuríki Schengen-samstarfsins um þátttöku annarra Norðurlanda en Danmerkur í samstarfinu. Viðræður við Danmörku höfðu hafist fyrr. Þar sem einungis aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) geta orðið aðilar að Schengen-samningnum snerust viðræður í upphafi að meginhluta til um með hvaða hætti Ísland og Noregur gætu tekið þátt í samstarfinu. Upphafsviðræður leiddu til þess að í desember 1995 fékk formennskuríki Schengen-samstarfsins umboð til að hefja samningaviðræður um aðild Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar að samstarfinu og um samstarfssamning við Ísland og Noreg. Var sú ósk þá jafnframt sett fram að samningaviðræður yrðu það vel á veg komnar á fundi framkvæmdanefndar Schengen 18. apríl 1996 að unnt yrði að bjóða Norðurlöndunum öllum áheyrnaraðild frá og með 1. maí 1996.
    Samningaviðræður við Norðurlöndin hafa þróast þannig að samstaða er um meginþætti hugsanlegs samstarfssamnings Schengen-ríkjanna við Ísland og Noreg. Samstarfið mundi byggjast á því að bæði ríkin hefðu rétt til þátttöku í öllum fundum innan samstarfsins, hverju nafni sem þeir nefnast, með málfrelsi og tillögurétti. Ríkin hefðu þar hins vegar ekki atkvæðisrétt. Hins vegar mundu ríkin sjálfstætt taka ákvörðun um hvort þau samþykki ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli Schengen-samningsins. Er ríkin fallast á slíkar ákvarðanir gilda þær fyrir bæði ríkin. Fari hins vegar svo að ríkin tvö geta ekki fallist á slíkar ákvarðanir komi til sérstök málsmeðferð.
    Á þessum grundvelli hefur þeim ráðherrum Norðurlandanna, sem fara með málefni sem falla undir efni Schengen-samningsins, verið boðið til fundarins með framkvæmdanefnd Schengen 18. apríl 1996, og þá hyggst framkvæmdanefndin bjóða Norðurlöndunum fimm að taka þátt í Schengen-samstarfinu sem áheyrnaraðilar frá og með 1. maí 1996.
    Með áheyrnaraðild að Schengen er því lýst yfir að stefnt sé að fullri þátttöku í Schengen-samstarfinu. Áheyrnaraðild felur í sér rétt til þátttöku í öllum fundum innan samstarfsins með málfrelsi og tillögurétti. Áheyrnaraðild felur hins vegar ekki í sér að ákvæði samningsins komi til framkvæmda að einu eða öðru leyti.
    Í framhaldi af því að Norðurlöndin gerast áheyrnaraðilar að Schengen-samstarfinu er stefnt að gerð samnings um þátttöku þeirra í samstarfinu og er við það miðað að þeirri samningsgerð verði lokið fyrir næstu áramót. Í framhaldi af því þarf að fullgilda það samkomulag sem gert verður og undirbúa þátttöku í samstarfinu að öðru leyti. Í óformlegum viðræðum hefur komið fram að samningurinn gæti í fyrsta lagi komið til framkvæmda gagnvart Norðurlöndunum um mitt ár 1998, en þetta er eitt af þeim atriðum sem semja þarf um.
    Ríkisstjórnin hefur á fundi 9. apríl 1996 samþykkt að fallast á boð um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu með áheyrnaraðild og mun dómsmálaráðherra sækja fund framkvæmdanefndar Schengen-samstarfsins 18. apríl 1996.

II. SCHENGEN-SAMSTARFIÐ OG ÞÁTTTAKA ÍSLANDS Í ÞVÍ
1. Almennt.
    Meginatriði Schengen-samningsins er um frjálsa för fólks um innri landamæri aðildarríkjanna og afnám eftirlits með einstaklingum við innri landamæri. Önnur meginatriði samningsins fjalla um samræmt eftirlit á ytri landamærum samningssvæðisins, samvinnu um vegabréfsáritanir, þar á meðal er sameiginlegur lágmarkslisti um lönd þaðan sem krafist er vegabréfsáritunar, samræmda vegabréfsáritun sem gildir almennt til allra aðildarríkjanna, reglur um vissa þætti í málsmeðferð varðandi beiðni um hæli og flóttamenn, sameiginlegan upplýsingabanka um óæskilega útlendinga, eftirlýsta einstaklinga, eftirlýst ökutæki o.fl. Þá eru í samningnum ákvæði um lögreglusamvinnu, þar á meðal í fíkniefnamálum, og um gagnkvæma réttaraðstoð.
    Einn kafli samningsins fjallar um vöruflutninga. Ákvæðum þess kafla er ekki beitt í samskiptum Schengen-ríkjanna þar sem nýjar reglur ESB um frjálsa vöruflutninga, svo og um tollasamband og samstarf um skatta og önnur gjöld, hafa yfirtekið ákvæði kaflans með þeirri undantekningu að nokkur ákvæði hans er varða skotvopn og skotfæri eru enn í gildi. Í Schengen-samningnum segir ekki að ESB-reglur yfirtaki ákvæði samningsins. Hins vegar mega ákvæði hans ekki ganga gegn ESB-reglum. Í viðræðum hefur komið fram að ákvæði EES-samningsins um vöruflutninga munu gilda áfram í samskiptum Íslands og Noregs við önnur Schengen-ríki. Þetta þýðir að þótt Ísland taki þátt í Schengen-samstarfinu mun Ísland ekki taka þátt í tollasambandi ESB og áfram verður beitt óbreyttum ákvæðum um tolleftirlit.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum Schengen-samningsins sem koma til athugunar komi til þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

2. Flugvellir og hafnir.
A. Keflavíkurflugvöllur.
    Um 95% af farþegaflutningum milli Íslands og annarra landa fara um Keflavíkurflugvöll.
    Aðild Íslands að Schengen-samstarfinu mun hafa nokkur áhrif á rekstur og starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Flugstöðin verður sú ytri landamærastöð Schengen sem langflestir farþegar fara um til og frá landinu. Flugstöðin var hönnuð með það fyrir augum að þjóna árlega um einni milljón farþega. Á þessu ári mun farþegafjöldinn í fyrsta sinn fara yfir eina milljón og áætlanir gera ráð fyrir að sá fjöldi muni aukast um a.m.k. 50 þúsund farþega á ári. Flugstöðin er því orðin of lítil fyrir þá ört vaxandi umferð sem um Keflavíkurflugvöll fer. Nauðsynlegt er því að ráðast í byggingarframkvæmdir við flugstöðina, hvort sem Ísland gerist áheyrnaraðili að Schengen eða ekki. Ljóst er hins vegar að kostnaður fylgir því að gerast aðili og felst hann fyrst og fremst í breytingum á flugstöðinni, svo og auknum kostnaði við vegabréfaeftirlit.
    Utanríkisráðuneytið hefur látið gera athuganir á því hvaða breytingar þarf að gera á flugstöðinni til að uppfylla ákvæði Schengen-samningsins um nauðsynlegan aðskilnað farþega sem ferðast innan Schengen-svæðisins og þeirra sem eru á leið til og frá ríkjum utan Schengen. Þessar athuganir voru gerðar af þremur aðilum, unnar hver í sínu lagi og því ólíkar hver annarri. Athuganirnar voru unnar af embætti Húsameistara ríkisins, verkfræðistofunni Nýverk og Framkvæmdasýslu ríkisins. Grundvallarforsendur, sem allir þessir aðilar unnu út frá, voru að breytingar á flugstöðinni yrðu með þeim hætti að röskun verði ekki á núverandi fyrirkomulagi áætlunarflugs Flugleiða hf. sem síðan árið 1989 hafa notað flugstöðina sem flugskiptistöð fyrir farþega milli Evrópu og Norður-Ameríku. Vegabréfaeftirlit verður því skipulagt með þeim hætti að tafir verði ekki á áætlunum flugfélagsins.
    Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn athuganir þessara þriggja aðila. Framkvæmdasýslu ríkisins hefur verið falin nánari útfærsla á tillögu stofnunarinnar um að reist verði, við enda núverandi landgangs, ný bygging sem þjóni bæði þeim tilgangi að mæta stækkunarþörf með aukinni umferð og til að mæta kröfum samkvæmt ákvæðum Schengen-samkomulagsins um aðskilnað farþega. Vinna Framkvæmdasýslu ríkisins fer fram í nánu samstarfi við alla hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli við rekstur flugstöðvarinnar.
    Á því hefur borið að blandað hefur verið saman kostnaði við nauðsynlega stækkun og breytingar á flugstöðinni annars vegar og kostnaði við framkvæmdir vegna Schengen-samkomulagsins hins vegar. Fyrirsjáanlegt er að flugvélastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar verða fullnýtt og vandræðaástand mun innan skamms skapast vegna vöntunar á landgangi, landgöngubrúm og flughlöðum. Hins vegar vill svo til að ef af aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu verður mun hún taka gildi um svipað leyti og þörf verður fyrir þessi mannvirki. Framkvæmdakostnaður við Schengen-aðild Íslands verður af þessum sökum óverulegur miðað við það sem annars hefði orðið því að eingöngu þarf að laga mannvirkin að kröfum sem gerðar eru vegna aðildar Íslands að Schengen. Þessi kostnaður er áætlaður um 150 millj. kr. samkvæmt skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins frá því í mars 1996.

B. Aðrir flugvellir.
    Farþegaflutningar til og frá Íslandi um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll eru óverulegir. Schengen-reglur gera ekki ráð fyrir því að koma þurfi upp sérstakri aðstöðu fyrir innan- og utansvæðisfarþega í flugstöðvum á slíkum flugvöllum. Aftur á móti þarf persónueftirlit á slíkum flugvöllum með farþegum sem koma frá þriðja ríki (ríki utan Schengen) að vera í samræmi við Schengen-reglur.

C. Hafnir.
    Þar sem farþegaflutningar á sjó eru óverulegir er ekki talið að gera þurfi sérstakar ráðstafanir við hafnir, en þegar skip kemur frá þriðja ríki verður að sjálfsögðu að sinna persónueftirliti í samræmi við Schengen-reglur. Það eftirlit ætti ekki að þurfa að vera viðameira en nú gerist.

3. Vegabréfaeftirlit og áritunarreglur.
A. Vegabréfaeftirlit.
    Samkvæmt Schengen-reglum skal ekki vera persónueftirlit með farþegum sem koma frá öðru Schengen-ríki. Skiptir þar ekki máli hvort viðkomandi farþegi er ríkisborgari Schengen-ríkis eða þriðja ríkis.
    Allir farþegar, sem koma frá þriðja ríki, skulu við komu inn á svæðið sæta samræmdu persónueftirliti. Á flugstöðvum á að hafa sérstök hlið fyrir ESB-borgara en almennt eiga þeir ekki að sæta öðru eftirliti en að staðreynt verði hverjir þeir eru. Samkvæmt EES-samningnum eiga ríkisborgarar EES-ríkja að hafa sömu réttarstöðu að þessu leyti. Ríkisborgarar þriðju ríkja skulu sæta nánara eftirliti og þá sérstaklega þeir sem koma frá ríkjum þaðan sem krafist er vegabréfsáritunar.

B. Áritunarreglur.
    Schengen-ríkin hafa sammælst um lista yfir ríki þaðan sem ríkisborgarar, sem koma vilja inn á Schengen-svæðið, skuli háðir vegabréfsáritun. Innan ESB er til sams konar listi með heldur færri ríkjum. Í gildi eru samningar íslenskra stjórnvalda um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritunar við 19 ríki sem Schengen-ríkin krefjast vegabréfsáritunar frá. Árið 1994 komu hingað til lands 52 ríkisborgarar þessara ríkja og árið 1995 voru þeir 23.
    Af ríkjunum 19 eru 5 á lista ESB. Danir hafa þegar sagt upp samningum við öll ríkin á báðum skránum, en Finnar og Svíar hafa sagt upp samningum við ríkin á ESB-listanum. Slíkt er til athugunar hjá norskum stjórnvöldum. Óháð þátttöku í Schengen-samstarfinu þyrftu íslensk stjórnvöld að segja upp samningum við þessi ríki vegna aðildar að norræna vegabréfaeftirlitssamningnum.
    Schengen-ríkin hafa samræmdar reglur um veitingu vegabréfsáritunar. Efnislega eru þær reglur að mestu í samræmi við gildandi reglur hér á landi.
    Schengen-ríkin hafa samræmdan áritunarmiða og almennt gildir vegabréfsáritun til eins ríkis sem heimild til að ferðast til þeirra allra. Varðandi veitingu vegabréfsáritunar gildir sú meginregla að sækja skal um vegabréfsáritun hjá diplómatískum yfirvöldum þess ríkis sem stefnt er að því að heimsækja og ef heimsækja á fleiri en eitt ríki er miðað við að það ríki, sem fyrst er heimsótt, veiti áritun. Schengen-ríkin hafa samstarf sín á milli um veitingu vegabréfsáritunar í þeim ríkjum þar sem þau hafa ekki öll sendiráð eða útsenda ræðismenn. Það ríki, sem veitir vegabréfsáritun, ber ábyrgð á veitingu hennar.
    Það fyrirkomulag gildir hér á landi að vegabréfsáritun er ekki veitt af sendiráði án þess að umsókn hafi áður verið send útlendingaeftirliti til athugunar og það samþykkt að áritun verði veitt. Þátttaka í Schengen-samstarfinu útilokar ekki slíkt verklag.
    Samkvæmt Schengen-reglum mega kjörræðismenn ekki veita vegabréfsáritun. Íslensk stjórnvöld hafa veitt 18 kjörræðismönnum heimild til að veita vegabréfsáritun. Fella þarf þær heimildir úr gildi ef Ísland tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

C. Flóttamenn.
    Schengen-samstarfið felur ekki í sér sameiginlega stefnu varðandi veitingu hælis eða afstöðu til flóttamanna. Hvert aðildarríki veitir hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við eigin lög og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í Schengen-samningnum eru aftur á móti reglur um málsmeðferð varðandi það hvaða ríki hefur skyldu til að fjalla um beiðni um hæli. Samningurinn hefur ákvæði um það hvaða ríki skuli teljast fyrsta hælisríki, þannig að umsækjanda um hæli verður ekki vísað á milli margra ríkja sem ekki vilja bera ábyrgð á honum.

4. Lögreglusamvinna.
A. Almennt.
    Eins og áður hefur komið fram gengur Schengen-samningurinn út frá þeirri meginreglu að persónueftirlit skuli fellt niður vegna ferðalaga á milli ríkjanna. Afnám persónueftirlits getur haft í för með sér skert öryggi og því eru í samningnum fjölmörg svokölluð stuðningsákvæði til að efla samstarf aðildaríkjanna varðandi öryggis- og afbrotamálefni. Aukin lögreglusamvinna er eitt mikilvægasta stuðningsákvæðið. Þessi lögreglusamvinna varðar m.a.:
    gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa afbrot,
    miðlun upplýsinga í sérstökum tilvikum í þeim tilgangi að fyrirbyggja afbrot eða fyrirbyggja verknaði sem ógna almannaöryggi eða öryggi ríkisins,
    miðlun upplýsinga í þeim tilgangi að gera eftirlit á ytri landamærum markvissara,
    útsendingu lögreglumanna (sambandsmanna) til að auðvelda samband lögreglu í tveimur ríkjum,
    uppsetningu á sameiginlegu upplýsingakerfi.
Auk þessa er náin lögreglusamvinna við landamæri á landi, við gæslu landamæra og vegna eftirfarar yfir innri landamæri.

B. Sirene.
    Hvert aðildarríki Schengen-samstarfsins skal setja á fót SIRENE-skrifstofu (Supplément d'information requis à l'entrée nationale) til að miðla milli lögregluyfirvalda upplýsingum sem falla utan þess sem skráð er í upplýsingakerfi Schengen og til að svara fyrirspurnum varðandi upplýsingakerfið. Þá hefur skrifstofan umsjón með annarri lögreglusamvinnu sem fellur innan Schengen-samstarfsins. Hér á landi er gert ráð fyrir að þessi skrifstofa verði hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og í tengslum við Interpol-deildina þar.

C. Fíkniefni.
    Í Schengen-samningnum eru ákvæði um samstarf í baráttu gegn fíkniefnum. Grundvöllur þessa samstarfs eru samningar Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni frá 1961, 1972 og 1988. Ísland hefur fullgilt fyrri samningana tvo. Samkvæmt Schengen-samningnum skal setja á fót fastan vinnuhóp þar sem m.a. eru fulltrúar frá lögreglu og tollyfirvöldum til að rannsaka sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og til að gera tillögur um að bæta hagnýt og tæknileg viðhorf vegna samvinnu aðildarríkjanna á þessu sviði. Jafnframt skuldbinda aðildarríkin sig til í samræmi við áðurgreinda samninga Sameinuðu þjóðanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja og berjast gegn ólöglegum viðskiptum með ávana- og fíkniefni.

5. Upplýsingakerfi Schengen.
    Schengen-ríkin reka sameiginlegt upplýsingakerfi sem samanstendur af kerfi í hverju einstöku aðildarríki og miðlægu tæknilegu stuðningskerfi. Í kerfið er skráðar staðlaðar upplýsingar um einstaklinga og hluti vegna landamæraeftirlits, rannsókna lögreglu og tollyfirvalda og vegna meðferðar á beiðnum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og framkvæmdar á lögum um útlendinga sem liðar í framkvæmd samningsins.
    Hvert aðildarríki setur á stofn og rekur á eigin ábyrgð kerfið í sínu landi. Gagnaskrár skulu vera eins hjá öllum aðilum. Aðildarríkin geta ekki sótt upplýsingar í staðbundin kerfi hvers annars. Miðlæga stuðningskerfið sendir vélrænt upplýsingar til kerfanna í hverju einstöku aðildarríki.
    Í kerfið má skrá upplýsingar um einstaklinga sem óskað er eftir að verði handteknir í þeim tilgangi að þeir verði framseldir, um útlendinga sem óskað er eftir að neitað verði um sameiginlega Schengen-vegabréfsáritun, en slíkt er einungis heimilt vegna öryggis ríkisins og er þar miðað við að fyrir þurfi að liggja rökstuddar ástæður fyrir skráningu, t.d. að viðkomandi hafi verið dæmdur til a.m.k. eins árs fangelsis. Í kerfið á að skrá einstaklinga sem vegna fyrirbyggjandi aðgerða skulu teknir í gæslu lögreglu og á þetta sérstaklega við um ósjálfráða einstaklinga og þá sem ákveðið hefur verið að hneppa í nauðungarvist. Þá er heimilt að skrá upplýsingar í kerfið í þeim tilgangi að fá upplýsingar um dvalarstaði einstaklinga sem stefna á fyrir dóm í sakamáli eða til að birta þeim dóm eða ákvörðun um afplánun. Sama gildir um einstaklinga og ökutæki sem hafa á undir leynilegu eftirliti og loks er heimilt að skrá í kerfið hluti sem eftirlýstir eru í þeim tilgangi að leggja hald á þá. Þá eru í samningnum ítarleg ákvæði um vernd persónuupplýsinga, um aðgang að skráðum upplýsingum og um notkun þeirra.
    Ef Ísland tekur þátt í Schengen-samstarfinu þarf að setja upp staðbundið upplýsingakerfi hér á landi og er fyrirhugað að það verði staðsett í lögreglustöðinni í Reykjavík á sama stað og tölvukerfi lögreglunnar og að umsjón með skráningu í það verði hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.

6. Kostnaður.
    Hvert aðildarríki Schengen-samstarfsins greiðir sjálft þann kostnað sem leiðir af þátttöku í samstarfinu innan lands, þar með talinn stofnkostnað vegna nauðsynlegra breytinga á flugstöðvum vegna kröfu um aðskilnað farþega. Sameiginlegum kostnaði er skipt á milli aðildarríkjanna. Ósamið er um hvernig þeirri skiptingu verði háttað varðandi þátttöku Norðurlandanna í samstarfinu.
    Innlendum kostnaði við þátttöku í Schengen-samstarfinu má skipta í tvennt, þ.e. stofnkostnað og aukinn reksturskostnað. Hér verður gerð grein fyrir þeim atriðum sem hafa aukinn kostnað í för með sér, en að svo stöddu er ekki unnt að tilgreina fjárhæðir þar sem unnið er að athugun á því hvernig halda megi kostnaði í lágmarki og er þeirri athugun ekki lokið.
    Eftirfarandi atriði munu hafa stofnkostnað í för með sér:
     Keflavíkurflugvöllur. – Vegna kröfu um fullkominn aðskilnað farþega sem ferðast innan Schengen-svæðisins og þeirra sem koma inn á það og fara út af því þarf að gera breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
     Upplýsingakerfi. – Setja þarf upp tölvukerfi sem tengt verði Schengen-upplýsingakerfinu. Kostnaður felst í kaupum á vélbúnaði, forritun, pófunum á kerfinu o.fl.
     Miðlægt upplýsingakerfi. – Miðlægt upplýsingakerfi Schengen hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi. Kerfinu þarf að breyta vegna væntanlegrar þátttöku Norðurlandanna í Schengen-samstarfinu. Norðurlöndin þurfa að greiða hlutdeild í kostnaði af kerfinu.
     Tölvur. – Í flugstöðvum, þar sem er alþjóðleg flugumferð, þurfa að vera tölvur sem tengdar eru upplýsingakerfi Schengen. Slíkt er ekki til staðar í flugstöðvum nú.
     Þjálfun. – Kynna þarf þeim sem sinna vegabréfaeftirliti og öðrum lögreglumönnum Schengen-reglur og framkvæmd þeirra.
    Helstu atriði sem hafa reksturskostnað í för með sér eru:
     Vegabréfaeftirlit. – Aukinn mannskap þarf til að sinna vegabréfaeftirliti, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli kvölds og morgna þegar álag er mest þar.
     Tölvukerfi. – Kostnaður vegna reksturs upplýsingakerfis Schengen er tvíþættur, þ.e. kostnaður vegna tæknimanna sem sjá til þess að kerfið sé ávallt virkt og kostnaður vegna reksturs, þróunar og endurnýjunar á vélbúnaði kerfisins.
     SIRENE. – Hugsanlegt er að bæta þurfi við starfsmönnum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins vegna reksturs SIRENE-skrifstofunnar og alþjóðlegs samstarfs.
     Útlendingaeftirlit. – Hugsanlegt er að bæta þurfi við starfsmanni hjá útlendingaeftirlitinu vegna aukinna verkefna við vegabréfsáritanir og önnur málefni sem tengjast útlendingaeftirliti.
     Sameiginlegur reksturskostnaður. – Með sameiginlegum reksturskostnaði er átt við hlutdeild í kostnaði af rekstri Schengen-skrifstofunnar í Brussel og kostnaði af rekstri upplýsingakerfis Schengen í Strassborg.
     Þátttaka. – Með þátttöku er átt við þátttöku í fundum um Schengen-samstarfið. Gert er ráð fyrir að fulltrúi dómsmálaráðuneytisins verði í sendiráði Íslands í Brussel og sinni hann flestum fundunum, en auk þess þarf að senda fulltrúa héðan á ýmsa fundi.

7. Lagabreytingar.
    Þátttaka í Schengen-samstarfinu kallar á ýmsar lagabreytingar. Þær helstu eru:
    Lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Þörf er á heildarendurskoðun laganna og á reglugerðum samkvæmt þeim.
    Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Breyta þarf nokkrum ákvæðum laganna.
    Lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993. Gera þarf lítils háttar breytingu á lögunum.
    Setja þarf lög eða reglugerðir um lögregluskrár og eftirlit með þeim. Nefnd, sem nýlega hefur verið skipuð til að endurskoða lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, hefur verið falið þetta verkefni.
    Setja þarf lög um alþjóðlega réttaraðstoð í sakamálum. Slík lagasetning er æskileg án tillits til þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Fullgilda þarf samning Sameinuðu þjóðanna frá 1988 um ávana- og fíkniefni og í tengslum við það þarf að breyta almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og e.t.v. fleiri lögum. Fullgilda þarf þennan samning óháð þátttöku í Schengen-samstarfinu. Hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til að undirbúa fullgildingu hans.


Fylgiskjal.


SCHENGEN-SAMNINGURINN



    Schengen-samningurinn skiptist upp í átta hluta. Hér verður gerð grein fyrir helstu efnisatriðum samningsins. Í I. hluta samningsins eru skilgreiningar á hugtökum og í V. hluta eru ákvæði um vöruflutninga sem ekki er beitt þar sem ESB-reglur gilda um þau atriði milli samningsaðila. Ákvæði þessara kafla verða ekki rakin hér.

1. Afnám eftirlits á innri landamærum og ferðalög.
A. Umferð yfir innri landamæri.
    Mönnum er heimilt að fara yfir innri landamæri aðildarríkjanna hvar sem er og án þess að þeir sæti nokkru persónueftirliti. Þrátt fyrir afnám landamæraeftirlits er heimilt, að höfðu samráði við önnur aðildarríki, að koma á tímabundinni landamæravörslu á innri landamærum vegna allsherjarreglu og þjóðaröryggis. Afnám landamæraeftirlits takmarkar ekki heimildir aðildarríkjanna til að framkvæma löggæslu innan landamæranna lögum samkvæmt.

B. Umferð um ytri landamæri.
    Umferð yfir ytri landamæri skal almennt einungis fara um landamærastöðvar.
    Við komu í flughöfn skal hafa eftirlit með farþegum sem koma frá þriðja ríki og handfarangri þeirra haldi þeir áfram flugi innan svæðisins. Farþegar sem koma með flugi innan svæðisins skulu, áður en þeir halda áfram með flugi til þriðja ríkis, háðir eftirliti og sama gildir um handfarangur þeirra. Þessi ákvæði gilda ekki um innritaðan farangur sem annaðhvort er háður eftirliti á upphaflegum brottfararstað eða áfangastað.
    Heimilt er að veita útlendingi leyfi til komu inn á Schengen-svæðið og til dvalar þar í allt að þrjá mánuði ef hann hefur skilríki sem framkvæmdanefndin hefur ákveðið að teljist fullnægjandi til að koma inn á svæðið. Þau eru að hann hafi gilda áritun þegar þess er krafist, að hann geti lagt fram sannanir fyrir tilgangi og skilyrðum dvalar og hafi efni á framfærslu meðan á dvöl stendur og til heimferðar eða ferðar til þriðja ríkis þar sem honum er tryggð koma eða hann geti á lögmætan hátt framfleytt sér, að hann hafi ekki verið lýstur óæskilegur í landinu og ekki megi ætla að hann muni spilla allsherjarreglu eða öryggi ríkisins í aðildarríki eða alþjóðlegum tengslum þeirra. Neita skal útlendingi, sem ekki uppfyllir öll skilyrði til aðgangs að svæðinu, um að koma inn á svæðið nema nauðsynlegt sé að víkja frá þeirri reglu af mannúðarástæðum, m.a. samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Þegar þannig stendur á gildir heimild til komu inn á svæðið aðeins fyrir það ríki sem slíka ákvörðun tekur og skal hún tilkynnt öðrum aðildarríkjum. Útlendingi, sem hefur dvalarleyfi eða áritun til endurkomu til einhvers aðildarríkis, skal veita leyfi til ferðar gegnum ríki þar sem hann kemur inn á svæðið, nema viðkomandi ríki hafi lýst hann óæskilegan útlending.
    Eftirlit á ytri landamærum aðildarríkjanna skal framkvæmt af þar til bærum yfirvöldum samkvæmt samræmdum reglum á svæðinu og að lögum viðkomandi ríkis að teknu tilliti til sameiginlegra hagsmuna aðildarríkjanna. Samræmdu reglurnar eru að eftirlit með einstaklingum tekur ekki einungis til þess að staðreyna ferðaskilríki og önnur skilyrði fyrir komu inn á svæðið, dvöl þar, vinnu og brottför af svæðinu, heldur einnig rannsókna á og varna gegn hótunum gegn öryggi ríkisins og allsherjarreglu á Schengen-svæðinu.

C. Vegabréfsáritanir vegna stuttrar dvalar.
    Aðildarríkin skulu framfylgja sameiginlegum viðmiðunum varðandi ferðalög, sérstaklega varðandi reglur um vegabréfsáritanir. Ríkin skuldbinda sig til að framfylgja samræmdum reglum um útgáfu á áritunum, sem óheimilt er að víkja frá nema með samþykki þegar sérstakar aðstæður krefjast.
    Taka skal upp sameiginlega vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu og getur hún gilt fyrir dvöl sem stendur allt að þremur mánuðum.
    Áritun getur gilt fyrir eina eða fleiri komur inn á svæðið og einnig má gefa út áritun vegna ferðar í gegnum svæðið, en slík áritun má þó ekki gilda nema að hámarki fimm daga.
    Áritun skal gefin út af stjórnarerindrekum aðildarríkjanna eða ræðismönnum. Meginreglan er að áritun skal gefin út af fulltrúum þess ríkis sem ferðinni er heitið til. Sé slíkt ekki unnt skal áritun almennt gefin út af fulltrúum fyrsta komuríkis inn á svæðið.
    Ekki má veita áritun á útrunnin ferðaskilríki. Ferðaskilríkin skulu hafa lengri gildistíma en áritunin. Ferðaskilríkin skulu hafa nægilega langan gildistíma til að útlendingurinn geti ferðast til baka til heimaríkis eða þriðja ríkis. Áritun má almennt því aðeins veita að útlendingur uppfylli öll skilyrði fyrir komu inn á svæðið. Telji aðili ástæðu til að veita undanþágu frá skilyrðum um aðgang að svæðinu má það veita útlendingi áritun sem takmarkast við landsvæði viðkomandi ríkis.

D. Vegabréfsáritanir til lengri dvalar.
    Hvert ríki gefur út vegabréfsáritun til lengri dvalar en þrjá mánuði í samræmi við eigin lög.

E. Skilyrði fyrir komu og dvöl útlendings.
    Útlendingur frá þriðja ríki með sameiginlega áritun getur ferðast frjálst innan svæðisins meðan áritunin er í gildi.
    Útlendingur, sem er undanþeginn skyldu til vegabréfsáritunar, getur ferðast frjálst innan svæðisins í allt að þrjá mánuði.
    Útlendingur með gilt dvalarleyfi ásamt gildu ferðaskilríki má ferðast frjálst um svæðið í allt að þrjá mánuði.
    Útlendingi, sem löglega kemur til lands á Schengen-svæðinu, er skylt að tilkynna sig til viðkomandi yfirvalda í því landi samkvæmt skilyrðum sem viðkomandi ríki setur. Slíkrar tilkynningar er hægt að krefjast við komu eða í síðasta lagi innan þriggja virkra daga eftir komu. Útlendingi með búsetu í einu aðildarríki sem ferðast til annars aðildarríkis er með sama hætti skylt að tilkynna sig. Undantekningar frá þessum reglum ákveður hvert aðildarríki.
    Útlendingur, sem ekki uppfyllir lengur skilyrði fyrir leyfi til skammrar dvalar, skal að meginreglu þegar yfirgefa Schengen-svæðið. Hafi útlendingur gilt dvalarleyfi eða bráðabirgðadvalarleyfi í einu aðildarríki skal hann þegar fara til þess ríkis. Yfirgefi útlendingur ekki viðkomandi svæði telst hann ekki vilja yfirgefa það og teljist það nauðsynlegt vegna öryggi ríkisins eða allsherjarreglu skal honum vísað úr landi. Þessi ákvæði hindra ekki beitingu ákvæða í lögum aðildarríkjanna um hæli og Genfarsamningsins um réttarstöðu flóttamanna.

F. Dvalarleyfi og einstaklingar sem eru skráðir sem óæskilegir útlendingar.
    Hyggist aðildarríki veita útlendingi, sem er á skrá yfir óæskilega útlendinga og vísa ber frá svæðinu, dvalarleyfi skal það hafa samráð við önnur aðildarríki og taka tillit til hagsmuna þeirra. Dvalarleyfi skal því aðeins veitt að gildar ástæður mæli með því, svo sem mannúðarástæður eða alþjóðlegar skyldur.

G. Viðbótarráðstafanir.
    Með undantekningu, sem leiðir af skyldum samkvæmt Genfarsamningnum um réttarstöðu flóttamanna, skuldbinda aðildarríkin sig til að lögfesta reglur um að flutningsaðila verði gert að flytja viðkomandi útlending til baka þegar honum er neitað um aðgang að Schengen-svæðinu. Flutningsaðila er skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kanna hvort útlendingur sem fluttur er flug- eða sjóleiðis hafi gild ferðaskilríki til að geta fengið aðgang að svæðinu.

H. Ábyrgð á meðferð beiðna um hæli.
    Aðildarríkin staðfesta skyldur sínar samkvæmt Genfarsamningnum um réttarstöðu flóttamanna.
    Aðildarríkin skuldbinda sig til að fjalla um sérhverja beiðni um hæli frá útlendingi á landsvæði einhvers aðildarríkis. Slík skylda felur ekki í sér skyldu ríkis í öllum tilvikum til að veita umsækjanda rétt til komu eða dvalar á landsvæði þess. Sérhvert aðildarríki áskilur sér rétt til að láta eigin reglur gilda um endursendingu og brottvísun umsækjanda um hæli til þriðja ríkis.
    Óháð því í hvaða aðildarríki útlendingur leggur fram beiðni um hæli skal aðeins eitt ríki bera ábyrgð á meðferð beiðninnar. Þótt meðferð beiðni sé hjá öðru ríki getur sérhver samningsaðili, í sérstökum tilvikum, fjallað á sama tíma um beiðni um hæli.
    Komi beiðni um hæli til ríkis sem ekki fjallar um málið getur það ríki óskað eftir því að umsækjandinn verði fluttur til þess ríkis þar sem málið er til meðferðar. Skylt er að verða við slíkum tilmælum ef beiðni þar að lútandi berst innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var móttekin.
    Meðferð á beiðni um hæli fer samkvæmt reglum þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð hennar.
    Dvelji umsækjandi um hæli ólöglega í öðru aðildarríki en því sem hefur beiðni hans til meðferðar er ríkinu sem fer með málið skylt að taka við honum á ný. Ríki sem hafnar endanlega beiðni um hæli er skylt að taka við umsækjanda hafi hann farið til annars aðildarríkis án þess að hafa dvalarleyfi þar.
    Aðildarríki sem hefur veitt útlendingi stöðu flóttamanns og veitt honum dvalarleyfi er skylt að fjalla um beiðni um hæli frá fjölskyldumeðlimi hans.
    Hver samningsaðili veitir samkvæmt beiðni öðrum samningsaðila þær upplýsingar, sem hann hefur um umsækjanda um hæli og sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar á því hvaða samningsaðili skuli fjalla um beiðni, til meðferðar á beiðni um hæli og til að uppfylla skyldur samkvæmt þessum kafla samningsins. Þessar upplýsingar mega einungis vera persónuupplýsingar um umsækjanda og hugsanlega um fjölskyldumeðlimi hans. Samningsaðili getur auk þess beðið annan samningsaðila um að fá upplýst hvaða ástæður umsækjandi um hæli færði fyrir umsókn sinni og rökstuðning þeirrar ákvörðunar sem kann að hafa verið tekin. Samningsaðili sem fær slíka beiðni metur hvort unnt sé að verða við henni. Slíkar upplýsingar má einungis veita með samþykki umsækjanda. Þessi upplýsingaskipti gerast samkvæmt beiðni samningsaðila og mega einungis eiga sér stað milli þeirra stjórnvalda sem hver samningsaðili hefur tilnefnt. Upplýsingarnar má einungis veita í þeim tilgangi er greinir í upphafi þessarar málsgreinar. Þær má einungis framsenda þeim stjórnvöldum og dómstólum sem hafa það hlutverk að ákveða hvaða samningsaðili skuli fjalla um umsóknina. Umsækjandi um hæli hefur samkvæmt beiðni heimild til að fá upplýst hvaða upplýsingar voru veittar um hann, svo fremi sem slíkt er unnt. Komist hann að því að þessar upplýsingar eru rangar eða að ekki hafi átt að veita þær hefur hann rétt til að krefjast leiðréttinga á þeim eða að þeim verði eytt. Hverjum samningsaðila er skylt að skrá hvaða upplýsingar hann hefur veitt og móttekið. Upplýsingarnar skulu einungis varðveittar svo lengi sem nauðsynlegt er vegna tilgangs þeirra. Veittar upplýsingar skulu a.m.k. njóta sömu verndar og gilda samkvæmt lögum viðtökulandsins um sambærilegar upplýsingar. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja virkt eftirlit.

2. Lögregla og öryggi.
A. Lögreglusamvinna.
    Lögregluyfirvöld í aðildarríkjunum skulu veita gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa refsiverða verknaði, í öðrum tilvikum en þegar atbeina dómstóla þarf til að biðja um og veita umbeðnar upplýsingar, og unnt sé að verða við beiðni án þess að þvingunarráðstöfunum verði beitt. Skriflegar upplýsingar má aðeins nota sem sönnunargögn að skriflegt samþykki liggi fyrir frá viðkomandi yfirvöldum þess ríkis sem veitti upplýsingarnar.
    Hafi lögregla mann undir eftirliti vegna rannsóknar máls sem leitt getur til framsals getur hún haldið eftirliti áfram í öðru ríki að fengnu leyfi þess á grundvelli réttarbeiðni. Skilyrða má slíkt leyfi. Samkvæmt beiðni skal eftirlit flutt til lögreglu þess ríkis þar sem það er framkvæmt. Þegar ríki á landamæri á landi að öðru ríki má í áríðandi tilvikum vegna rannsóknar á nánar tilgreindum afbrotum halda eftirliti áfram í öðru ríki án fyrir fram samþykkis samkvæmt nánari ákvæðum samningsins.
    Hafi lögregla í ríki staðið mann að verki við nánar tilgreind afbrot er heimilt að elta hann inn í annað ríki sem á landamæri á landi að ríkinu án sérstaks leyfis, enda hafi ekki gefist tími til að upplýsa viðkomandi ríki um málið eða yfirvöld þess höfðu ekki möguleika á að taka við eftirförinni. Sama gildir þegar strokufangar eru eltir.
    Skylt er að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hótelhaldarar og aðrir er hýsa fólk sjái til þess að erlendir gestir, þar með taldir borgarar aðildarríkjanna, að undanskildum mökum, börnum og þátttakendum í hópferðum, fylli persónulega út og undirriti skráningarkort og að þeir sanni á sér deili með gildum skilríkjum. Þessi gögn skulu vera aðgengileg fyrir yfirvöld vegna öryggis, málsmeðferðar, eftirlýstra manna eða vegna slysa. Sama gildir um aðra næturstaði sem í atvinnuskyni eru til boða, svo sem tjaldsvæði, hjólhýsasvæði og báta.
    Aðildarríkin geta gert tímabundið eða ótímabundið samkomulag um staðsetningu sambandsmanna í þeim tilgangi að auðvelda samskipti milli ríkjanna varðandi skipti á upplýsingum til að fyrirbyggja eða upplýsa refsiverða verknaði, auðvelda gagnkvæma réttaraðstoð milli lögreglu og réttarkerfis landanna og veita þeim aðstoð sem gæta ytri landamæra. Sambandsmennirnir skulu veita ráðgjöf og aðstoð en hafa ekki heimild til að starfa sem lögreglumenn. Aðildarríkjum skulu veittar upplýsingar um staðsetningu sambandsmanna í þriðja ríki og er heimilt að þeir veiti þriðja ríki upplýsingar og aðstoð.

B. Gagnkvæm aðstoð í sakamálum.
    Ákvæði samningsins um þessi atriði eru til viðbótar við Evrópusamning um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Veita skal gagnkvæma réttaraðstoð við rekstur máls vegna verknaðar sem í öðru eða báðum aðildarríkunum sætir stjórnsýslumeðferð, enda sé hægt að bera málið undir dómstóla, vegna bótakröfu fyrir ólögmæta málsmeðferð eða sakfellingu, varðandi meðferð beiðni um náðun, varðandi einkaréttarkröfur í tengslum við sakamál, enda sé refsiþáttur málsins enn til meðferðar, við birtingu gagna í tengslum við fullnustu refsingar, þar með talda innheimtu sekta eða sakarkostnaðar, eða annarra viðurlaga, og varðandi ráðstafanir í tengslum við skilorðsbindingu á ákvörðun eða fullnustu refsingar, reynslulausn, frestun á fullnustu refsingar o.fl.
    Skylt er að veita aðstoð í málum vegna brota á lögum og reglum varðandi ýmsa tolla og skatta. Óheimilt er að synja um aðstoð á þeirri forsendu að viðkomandi gjöld séu ekki innheimt í því ríki þar sem beðið er um aðstoð. Upplýsingar sem veittar eru vegna meðferðar slíkra mála má ekki nota vegna meðferðar annarra mála án samþykkis.
    Ekki má setja önnur skilyrði fyrir því að verða við beiðni um rannsókn eða haldlagningu en að verknaður varði a.m.k. sex mánaða refsivist samkvæmt lögum beggja aðildarríkjanna eða hann varði slíkri refsingu samkvæmt lögum annars aðildarríkisins en geti sætt stjórnsýslumeðferð í hinu ríkinu, enda sé unnt að bera málið undir dómstól, eða að beiðnin, verði orðið við henni, sé í andstöðu við lög þess ríkis þar sem beðið er um aðstoð.
    Heimilt er að senda dómskjöl og kvaðningar í pósti til aðila í öðru aðildarríki. Sé ástæða til að ætla að móttakandi skilji ekki það tungumál sem skjölin eru á skal þýða þau eða úrdrátt úr þeim á tungumál þess ríkis sem sent er til. Viti sendandi að móttakandi skjala skilur aðeins eitthvert annað tungumál skal þýða skjöl eða úrdrátt úr þeim á það tungumál. Vitni eða sérfróða aðila, sem ekki sinna stefnu sem send hefur verið með pósti, má ekki beita neinum viðurlögum eða þvingunarráðstöfunum, þrátt fyrir aðvörun í stefnu þar um, þótt þeir mæti ekki, nema þeir fari síðar af sjálfsdáðum til landsvæðis þess aðila sem stefndi þeim og þeim sé þar stefnt á ný. Þegar verknaður, sem leiðir til réttarbeiðni, sætir samkvæmt lögum beggja samningsaðila málsmeðferð fyrir stjórnvöldum, sem unnt er að bera undir dómstól, skal almennt senda skjöl um það mál með pósti.
    Almennt skal senda beiðnir um réttaraðstoð og svör beint á milli viðkomandi dómsmálayfirvalda en þó er einnig heimilt að beiðnir og svör fari í gegnum dómsmálaráðuneyti aðildarríkjanna eða Interpol. Beiðnir um tímabundinn flutning eða gegnumflutning á frjálsræðissviptum manni og beiðnir um upplýsingar um sakaferil eða upplýsingar úr sakaskrá skal senda um viðkomandi dómsmálaráðuneyti.

C. Áhrif „ne bis in idem“ reglunnar.
    „Ne bis in idem“ reglan fjallar um það að hvaða leyti refsidómur sem kveðinn er upp í einu ríki skuli koma í veg fyrir að dæmt verði í sama máli í öðru ríki, sbr. m.a. 8. gr. a og b almennra hegningarlaga.
    Hafi maður verið dæmdur með endanlegum dómi í einu aðildarríki er óheimilt að reka mál fyrir sama verknað í öðru aðildarríki þegar refsingunni hefur verið fullnægt, verið er að fullnusta hana eða ekki er unnt að fullnusta henni vegna löggjafar í dómsríkinu.
    Aðildarríki getur við fullgildingu eða aðild að samningnum lýst því yfir að það sé í einu eða fleiri af eftirfarandi tilvikum ekki bundið af framangreindri reglu: Ef verknaður sem lá til grundvallar hinum erlenda dómi var framinn að hluta eða öllu leyti á landsvæði þess. Þetta gildir þó ekki ef verknaðurinn var að hluta framinn á landsvæði dómsríkisins. Það sama gildir ef verknaður braut gegn öryggi ríkisins eða öðrum álíka mikilvægum hagsmunum eða ef hann var framinn af manni í þjónustu ríkisins sem með verknaðinum braut þar með opinberar skyldur sínar.
    Sé á ný höfðað mál gegn manni fyrir verknað sem hann hefur þegar hlotið dóm fyrir í öðru ríki skal draga frá viðurlögunum sérhverja frjálsræðissviptingu sem hann hefur afplánað í öðru aðildarríki vegna verknaðarins. Sama gildir um aðra frjálsræðissviptingu sem hann hefur sætt vegna verknaðarins. Sé mál sem dæmt hefur verið í einu ríki á ný til meðferðar í öðru ríki skal það ríki, ef það telur slíkt nauðsynlegt, biðja ríkið sem þegar hefur dæmt í málinu um allar mikilvægar upplýsingar um málið.

D. Framsal.
    Ákvæði samningsins um framsal eru til viðbótar við Evrópusamning um framsal sakamanna. Hafi aðildarríki ekki fullgilt þann samning gilda þó ákvæði hans í samskiptum aðildarríkjanna. Schengen-samningurinn hindrar ekki beitingu víðtækari ákvæða í gagnkvæmum samningi aðildarríkjanna.
    Varðandi fyrningu gilda einungis lög þess ríkis sem biður um framsal. Náðun eða sakaruppgjöf kemur ekki í veg fyrir framsal nema hinn refsiverði verknaður falli undir refsilögsögu þess ríkis sem slíkt veitti. Krefjist lög þess ríkis sem beðið er um framsal að fyrir liggi formleg kæra eða opinber heimild til málshöfðunar hefur það ekki áhrif á skyldu til framsals að slíkt skjal liggi ekki fyrir.
    Skylt er að framselja menn vegna brota á lögum um tolla og skatta, bæði vegna málsmeðferðar og fullnustu dóma. Skilyrði Evrópusamningsins um framsal gilda í þessum tilvikum.
    Sé framsal ekki beinlínis óheimilt skal aðildarríki heimila framsal án formlegrar málsmeðferðar ef sá aðili sem óskast framseldur gefur formlegt samþykki fyrir því hjá dómara eða öðru þar til bæru yfirvaldi, eftir að honum hefur verið kynntur réttur til málsmeðferðar. Þegar yfirlýsing er gefin skal viðkomandi geta notið aðstoðar lögmanns. Við framkvæmd framsals samkvæmt eigin samþykki getur viðkomandi ekki afturkallað yfirlýsingu sína eftir að hafa afsalað sér þeirri vernd sem felst í sérreglunni. (Sú regla fjallar um það að ekki megi höfða mál á hendur framseldum manni, dæma hann eða fullnusta dóm á hendur honum vegna annars afbrots, sem framið var fyrir framsal, nema að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.)

E. Flutningur á fullnustu refsiákvarðana.
    Ákvæði samningsins eru til viðbótar við Evrópusamning um flutning dæmdra manna.
    Nú er ríkisborgari eins aðildarríkis dæmdur í öðru aðildarríki til refsivistar og hann kemur sér undan fullnustu refsingarinnar með því að fara til þess ríkis þar sem hann er ríkisborgari og er þá unnt að biðja það ríki um að fullnægja refsingunni. Flutningur á fullnustu refsingar er ekki háður samþykki dómþola.

F. Fíkniefni.
    Setja skal á fót fastan vinnuhóp, m.a. með fulltrúum lögreglu og tollyfirvalda, til að rannsaka sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og hugsanlega að gera tillögur um að bæta hagnýt og tæknileg viðhorf vegna samvinnu aðildarríkjanna á þessu sviði.
    Varðandi beina eða óbeina verslun með hvers konar ávana- og fíkniefni skuldbinda aðildarríkin sig, í samræmi við samninga Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði, að grípa til sérhverra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að fyrirbyggja og berjast gegn ólöglegri verslun með ávana- og fíkniefni. Aðildarríkin skuldbinda sig til að fyrirbyggja ólöglegan útflutning á ávana- og fíkniefnum með stjórnvalds- og refsiréttarlegum úrræðum. Í þeim tilgangi að berjast gegn ólöglegum innflutningi ávana- og fíkniefna skerpa aðildarríkin eftirlit á ytri landamærum með einstaklingum, vörum og flutningatækjum, m.a. með notkun nýjustu tækni við leit að fíkniefnum og með fíkniefnahundum. Sérstök gát skal höfð með stöðum þar sem verslun með fíkniefni fer venjulega fram. Til að berjast gegn ólöglegri eftirspurn eftir ávana- og fíkniefnum grípur hvert aðildaríki til aðgerða til að fyrirbyggja og berjast gegn neikvæðum áhrifum eftirspurnarinnar. Hvert aðildarríki ákveður hvaða aðgerðum það beitir í þessum tilgangi.
    Aðildarríki skulu tryggja að fullnægjandi lagaheimildir séu til að leggja hald á og gera upptækar eignir sem stafa af verslun með ávana- og fíkniefni.
    Aðildarríkin skulu vegna ólöglegrar verslunar með ávana- og fíkniefni hafa möguleika á afhendingu undir eftirliti.
    Eftirlit með löglegri verslun ávana- og fíkniefna í samræmi við samninga Sameinuðu þjóðanna skal fara fram innan lands. Þeir sem ferðast til eða innan aðildarríkjanna mega flytja þau ávana- og fíkniefni sem þeim eru nauðsynleg vegna læknismeðferðar, enda geti þeir við eftirlit framvísað vottorði gefnu út eða staðfestu af viðkomandi yfirvaldi í búsetulandi.

G. Skotvopn og skotfæri.
    Aðildarríkin skuldbinda sig til að löggjöf þeirra og reglur um kaup, vörslu, sölu og afhendingu á skotvopnum og skotfærum verði í samræmi við ákvæði samningsins. Skotvopn samkvæmt samningnum eru bönnuð vopn, vopn sem háð eru leyfum og vopn sem háð eru tilkynningu. Lásar, magasín og hlaup skotvopna eru háð sömu reglum og þau skopvopn sem þau eru hluti af. Stutt skotvopn eru skotvopn með allt að 30 cm hlaupi eða þegar samanlögð lengd fer ekki yfir 60 cm. Önnur skotvopn teljast löng skotvopn.
    Í samningnum er gerð nánari grein fyrir mismunandi flokkum skotvopna. Ákvæði hans gilda ekki um skotvopn sem eru framleidd fyrir 1870 eða eftir fyrirmynd frá því fyrir 1870 nema í sérstökum undantekningartilvikum, enda sé ekki hægt að skjóta úr þessum vopnum með skotfærum fyrir bönnuð vopn eða vopn sem háð eru sérstöku leyfi. Sama gildir um eftirlíkingar af þessum vopnum, enda sé ekki hægt að nota málmskothylki í þær, og skotvopn sem tæknilega eru gerð ónothæf til að skjóta hvers konar skotfærum og bera því til staðfestingar opinberan stimpil eða eru viðurkennd af slíku yfirvaldi.
    Leyfi til kaupa og varðveislu skotvopna má einungis veita þeim sem eru 18 ára, í undantekningartilvikum má þó víkja frá þessu skilyrði vegna veiði eða íþróttaiðkana, þeim sem vegna geðrænna sjúkdóma eða af öðrum líkamlegum eða andlegum annmörkum eru ekki óhæfir til að kaupa eða varðveita skotvopn, þeim sem ekki hafa verið sakfelldir fyrir refsiverðan verknað eða ekki má telja að á annan hátt skapi hættu fyrir opinbert öryggi eða allsherjarreglu og þeim sem geta fært fram gild rök fyrir kaupum og varðveislu á skotvopni.
    Halda skal skrá um tilkynningarskyld skotvopn samkvæmt nánari reglum sem tilgreindar eru. Jafnframt skal skylt að krefjast löggildingar til að framleiða og versla með skotvopn, sem eru leyfis- eða tilkynningarskyld. Þá skal raunhæft eftirlit haft með þessum aðilum. Skotvopn skulu vera með óafmáanlegu raðnúmeri og merki framleiðanda og vopnaframleiðendur og söluaðilar skulu halda skrár yfir öll leyfis- og tilkynningarskyld vopn sem þeir framleiða og hafa til sölu og skotvopnaleyfi skulu bera númer og nafn framleiðanda þess vopns sem leyft er.
    Þeim sem löglega hefur vopn sem er leyfis- eða tilkynningarskylt er óheimilt að afhenda það öðrum sem ekki hefur leyfi eða tilkynningarvottorð. Skylt er að hafa í lögum ákvæði um að leyfi sé hægt að afturkalla uppfylli viðkomandi ekki lengur skilyrði til að eiga vopn og gera skal nauðsynlegar ráðstafanir ef gildandi lög og reglur um skotvopn eru brotin, sem m.a. feli í sér heimild til haldlagningar og upptöku á skotvopni, afturköllun á leyfi og beitingu viðurlaga.
    Þá eru í samningnum ákvæði um að unnt sé að breyta ákæðum hans um það hvaða vopn séu leyfis- eða tilkynningarskyld, að heimilt sé að hafa strangari ákvæði en samningurinn gerir ráð fyrir og um skipti á upplýsingum í nánar tilgreindum tilvikum.

3. Upplýsingakerfi Schengen.
A. Stofnun upplýsingakerfisins.
    Samningsaðilar stofna og reka sameiginlegt upplýsingakerfi sem samanstendur af kerfi í hverju einstöku aðildarríki og miðlægu tæknilegu stuðningskerfi. Kerfið veitir tilnefndum aðilum aðgang að stöðluðum upplýsingum um einstaklinga og hluti vegna landamæraeftirlits, rannsókna lögreglu og tollyfirvalda og vegna annarra rannsókna innan lands, vegna meðferðar á beiðnum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og framkvæmdar á lögum um útlendinga sem liðar í framkvæmd samningsins.
    Hver samningsaðili setur á stofn og rekur á eigin ábyrgð kerfið í sínu landi. Gagnaskrár skulu vera eins hjá öllum aðilum.
    Miðlæga stuðningskerfið sendir vélrænt upplýsingar til kerfanna í hverju einstöku aðildarríki. Í gagnasafni miðlæga kerfisins eru upplýsingar um einstaklinga og hluti sem hafa þýðingu fyrir alla samningsaðila.

B. Rekstur og notkun upplýsingakerfisins.
    Markmiðið með rekstri upplýsingakerfisins er að veita upplýsingar í þeim tilgangi að viðhalda allsherjarreglu og öryggi, þar með talið öryggi ríkisins, og auðvelda framkvæmd samningsins um ferðalög á landsvæðum samningsaðila.
    Upplýsingar í kerfinu eru um einstaklinga og hluti. Um einstaklinga má skrá upplýsingar um nafn, sérstök óbreytanleg líkamleg einkenni, fyrsta bókstaf í öðru eiginnafni, fæðingardag og fæðingarstað, kyn, ríkisfang, hvort viðkomandi er vopnaður, hvort hann er talinn ofbeldissinnaður, ástæðu fyrir skráningu og til hvaða ráðstafana óskað er eftir að gripið verði. Telji samningsaðili að skýrsla sem fylgir með beiðni um aðgerðir sé í andstöðu við lög þess ríkis, alþjóðlegar skuldbindingar eða mikilvæga hagsmuni ríkisins getur það skráð athugasemd í sinn hluta kerfisins um að beiðnin verði ekki framkvæmd á landsvæði hans.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um einstaklinga sem óskað er eftir að handteknir verði í þeim tilgangi að verða framseldir. Samhliða skráningu skal senda þeim aðildarríkjum sem skráningu er beint til upplýsingar um hver gaf út handtökubeiðni, hvort fyrir liggi handtökuskipun eða sambærileg ákvörðun, um hvaða refsiverðan verknað er að ræða og lagalega skilgreiningu hans, lýsingu á við hvaða aðstæður afbrot var framið, m.a. um stað og tíma, og að hve miklu leyti sá sem óskast framseldur tók þátt í því og, að svo miklu leyti sem unnt er, hvaða afleiðingar hinn refsiverði verknaður hafði. Geti samningsaðili ekki orðið við beiðni um handtöku vegna þess að hann hefur ekki viðurkennt hana eða neitar að framkvæma hana skal litið á beiðnina sem beiðni um að fá upplýsingar um dvalarstað viðkomandi. Aðildarríki er ekki skylt að verða við beiðnum er varða ríkisborgara þess.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um útlendinga sem óskað er eftir að verði neitað um aðgang að Schengen-svæðinu. Slíkar upplýsingar eru skráðar að beiðni einstakra ríkja og vegna ákvörðunar sem tekin er af þar til bæru stjórnvaldi eða dómstóli í samræmi við reglur viðkomandi ríkis um málsmeðferð. Þessar ákvarðanir geta verið rökstuddar með því að dvöl viðkomandi útlendings geti skapað hættu fyrir opinbert öryggi eða allsherjarreglu eða vegna öryggis ríkisins. Þetta gildir sérstaklega um útlendinga sem dæmdir hafa verið fyrir afbrot sem varðar a.m.k. eins árs refsivist og útlendinga sem rökstuddur grunur leikur á að hafi framið alvarlegt afbrot eða fyrir liggja ákveðnar vísbendingar um að ætli að fremja slíka verknaði á svæðinu. Slíkar ákvarðanir geta einnig verið rökstuddar með því að viðkomandi útlendingi hafi áður verið vísað úr landi eða hann endursendur með banni um endurkomu og dvöl í landinu, enda hafi slík ákvörðun ekki verið ógilt eða felld úr gildi.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um horfna menn eða einstaklinga sem vegna eigin öryggis eða fyrirbyggjandi aðgerða, að beiðni viðkomandi yfirvalds, skulu þegar teknir í gæslu þannig að lögregla geti tilkynnt þeim yfirvöldum sem báðu um aðgerðir um dvalarstað viðkomandi eða hindrað frekari ferð þeirra, enda sé slíkt heimilt að lögum. Þetta ákvæði á sérstaklega við ósjálfráða einstaklinga og þá sem ákveðið hefur verið að nauðungarvista.
    Í þeim tilgangi að fá upplýsingar um dvalarstað eða búsetu vitna eða einstaklinga sem stefna á fyrir dóm í sakamáli eða til að birta dóm eða ákvörðun um afplánun er heimilt að skrá upplýsingar um þá í kerfið.
    Í kerfið skal skrá upplýsingar um einstaklinga og ökutæki í þeim tilgangi að hafa þá (þau) undir leynilegu eftirliti eða til að taka þá (þau) til sérstakrar athugunar. Slík skráning skal gerð vegna reksturs sakamáls og til að fyrirbyggja að hótanir er beinast að allsherjarreglu verði framkvæmdar, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að viðkomandi ætli, eða hafi í huga, að fremja fleiri sérstaklega alvarleg afbrot eða með hliðsjón af heildarmati á viðkomandi, að teknu tilliti til fyrri afbrota, eða ætla má að hann í framtíðinni fremji sérstaklega alvarlegt afbrot. Að beiðni þeirra sem bera ábyrgð á öryggi ríkisins er heimilt að skrá í kerfið upplýsingar þegar fyrir liggja ákveðnar ástæður til að ætla að slíkt sé nauðsynlegt til að fyrirbyggja alvarlegar hótanir frá viðkomandi eða aðrar alvarlegar hótanir gegn innra eða ytra öryggi ríkisins. Vegna leynilegrar eftirfarar eru í samningnum ákvæði um atriði sem heimilt er að safna og veita upplýsingar um til viðkomandi ríkis. Í þeim tilgangi sem hér er fjallað um er heimilt að framkvæma rannsókn á einstaklingum og farartækjum og farangri.
    Í kerfið skal skrá upplýsingar um hluti sem eftirlýstir eru í þeim tilgangi að leggja hald á þá eða eru sönnunargögn í sakamáli. Upplýsingar um eftirtalda flokka hluta skulu skráðar: Stolin eða á annan hátt horfin ökutæki með sprengirými yfir 50 cm 3 , stolna eða á annan hátt horfna eftirvagna og hjólhýsi sem eru yfir 750 kg, stolin eða á annan hátt horfin skotvopn, stolin eða á annan hátt horfin eyðuskjöl, stolin eða á annan hátt horfin persónuskilríki og peningaseðla.
    Aðgang að upplýsingum úr kerfinu skulu þeir einir hafa sem ábyrgð bera á landamæraeftirliti og önnur lögreglu- og tollyfirvöld sem ábyrgð bera á rannsóknum innan lands eða samræmingu á þeim. Sama gildir um yfirvöld sem ábyrgð bera á útgáfu á vegabréfsáritunum, miðlæg yfirvöld sem ábyrgð bera á rannsóknum á beiðnum um vegabréfsáritun og yfirvöld sem ábyrgð bera á útgáfu dvalarleyfa og yfirvöld sem framkvæma útlendingalöggjöfina að svo miklu leyti sem þeim er það nauðsynlegt vegna sinna starfa vegna framkvæmdar á ákvæðum samningsins um ferðalög. Notendur mega einungis sækja upplýsingar sem þeim eru nauðsynlegar vegna starfa sinna.

C. Vernd og öryggi persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu.
    Samningsaðilar mega einungis nota upplýsingar í upplýsingakerfi Schengen í þeim tilgangi sem þar er tilgreindur.
    Aðili má ekki afrita upplýsingar frá öðrum aðila til nota í öðrum gagnasöfnum innan lands. Aðili má einungis fara frá einum skráningarflokki til annars í kerfinu þegar slíkt er nauðsynlegt til að fyrirbyggja yfirvofandi hættu gegn allsherjarreglu og öryggi, vegna alvarlegrar hótunar gegn öryggi ríkisins eða vegna alvarlegs afbrots, enda sé áður fengin heimild frá skráningaraðila.
    Í samningnum eru ákvæði um innra eftirlit með kerfinu í hverju einstöku ríki og að skráningar í kerfið og framkvæmd beiðna í kerfinu fari að landslögum nema samningurinn innihaldi strangari eða að öðru leyti önnur ákvæði og að viðkomandi ríki beri ábyrgð á upplýsingum sem það setur í kerfið og að þær séu settar í það með lögmætum hætti. Einungis sá sem skráir upplýsingar má breyta þeim, bæta við þær eða afmá þær. Þar sem í samningnum eru ákvæði um framkvæmd beiðna fer það að lögum þess ríkis sem beiðni er beint til hver ber ábyrgð á framkvæmdinni. Þegar ekki er unnt að verða við beiðni skal þegar tilkynna það þeim aðila sem bað um aðgerðir.
    Sérhver samningsaðili tilnefnir miðstjórnarvald sem fer með ábyrgð á kerfinu í viðkomandi landi og skulu skráningar í kerfið fara í gegnum þann aðila. Hann ber ábyrgð á rekstri kerfisins í viðkomandi landi og gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningsákvæðin séu haldin.
    Réttur einstaklinga til að fá aðgang að upplýsingum um hann sjálfan í upplýsingakerfinu fer eftir lögum þess ríkis þar sem slíkra upplýsinga er krafist. Sé slíkur aðgangur heimill ákveður eftirlitsaðili viðkomandi ríkis hvort og með hvaða hætti heimilt sé að veita upplýsingar. Ekki má veita upplýsingar um skráningu frá öðru aðildarríki án þess að áður hafi verið fengin umsögn hans um málið. Neita skal um aðgang að upplýsingum ef það getur skaðað framkvæmd þeirra ráðstafana sem um er beðið eða til að vernda réttindi annarra. Sérhver hefur rétt til að fá afmáðar upplýsingar um hann sjálfan séu þær efnislega eða lagalega rangar.
    Sérhver skráður aðili getur á landsvæði hvers samningsaðila skilað inn kæru til þar til bærra dómstóla eða stjórnvalda og gert kröfu um leiðréttingu eða að skráðar upplýsingar verði afmáðar, hann fái aðgang að þeim eða skaðabætur. Samningsaðilar skuldbinda sig til að framkvæma gagnkvæmt þær ákvarðanir sem teknar eru í þessu sambandi.
    Persónuupplýsingar, sem skráðar eru í kerfið þegar lýst er eftir manni, skulu aðeins varðveittar í þann tíma sem nauðsynlegur er til að þjóna tilgangi sínum. Í síðasta lagi þremur árum eftir skráningu skal skráningaraðili taka afstöðu til hvort nauðsynlegt er að varðveita upplýsingarnar. Í nánar tilgreindum tilvikum eru þessi tímamörk eitt ár. Samningsaðili getur í samræmi við eigin löggjöf haft þessi tímamörk styttri.
    Í samningnum eru ákvæði um hve lengi aðrar upplýsingar eru varðveittar í kerfinu.
    Hver samningsaðili tilnefnir eftirlitsaðila sem samkvæmt lögum viðkomandi ríkis skal sjálfstætt hafa eftirlit með gagnasafni viðkomandi ríkis í upplýsingakerfinu og með því að ekki sé brotið gegn réttindum skráðs aðila við meðferð og notkun upplýsinganna. Eftirlitsaðilanum skal tryggður aðgangur að gagnasafni viðkomandi ríkis í upplýsingakerfinu. Sérhver skráður aðili hefur rétt til að biðja eftirlitsaðilann að framkvæma eftirlit með upplýsingum um hann ásamt því hvernig þær hafa verið notaðar. Slíkt eftirlit fer fram eftir lögum viðkomandi ríkis. Séu upplýsingarnar skráðar af öðrum samningsaðila skal eftirlitið fara fram í nánu samráði við eftirlitsaðila viðkomandi ríkis.
    Setja skal á fót sameiginlegan eftirlitsaðila sem skal hafa eftirlit með miðlægum hluta gagnasafnsins. Þessi eftirlitsaðili hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með því að ákvæðum samningsins sé rétt beitt. Skal honum tryggður aðgangur að miðlæga upplýsingakerfinu. Eftirlitsaðilinn getur einnig rannsakað þau vandamál sem komið geta upp í tengslum við rekstur upplýsingakerfisins, með tilliti til beitingar og túlkunar á ákvæðum samningsins og þau vandamál sem komið geta upp vegna eftirlits í einstökum ríkjum.
    Hver samningsaðili skuldbindur sig, vegna eigin hluta upplýsingakerfisins, til að gera ráðstafanir sem skulu tryggja að aðrir en þeir sem til þess hafa heimild geti fengið aðgang að búnaði sem notaður er til meðferðar á persónuupplýsingum kerfisins, að ekki sé unnt að lesa, afrita, breyta eða fjarlæga upplýsingar úr gagnamiðlinum af hálfu annarra en þeirra sem til þess hafa heimild, að aðrir en þeir sem til þess hafa heimild geti ekki fengið aðgang að upplýsingum í gagnasafninu og að aðrir en til þess hafa heimild öðlist ekki þekkingu til að breyta eða afmá skráðar upplýsingar, að tölvukerfið verði ekki notað af öðrum en þeim sem til þess hafa heimild, að þeir sem hafa heimild til að nota skráðar upplýsingar fái aðeins aðgang að þeim upplýsingum sem varða starfssvið þeirra, að unnt verði að kanna og staðfesta til hvaða yfirvalda persónuupplýsingar hafa verið gefnar með vélrænum hætti, að unnt verði að kanna og staðfesta hvaða persónuupplýsingar voru færðar í annað tölvukerfi, hvenær það var gert og hver gerði það og að ekki verði unnt að lesa, afrita, breyta eða afmá persónuupplýsingar við framsendingu þeirra af öðrum en þeim sem til þess hefur heimild. Hver samningsaðili skal aðeins tilnefna sérstaklega hæfan aðila sem sætt hefur öryggisskoðun til að fara með upplýsingar í upplýsingakerfinu í eigin landi.

D. Skipting kostnaðar.
    Kostnaður við uppsetningu og rekstur miðlæga upplýsingakerfisins og tengingar þess við upplýsingakerfin í einstökum aðildarríkjum skal borinn sameiginlega af samningsaðilum samkvæmt reglum sem nánar er vísað til í samningnum. Aðildarríki ber sjálft kostnað af uppsetningu og rekstri þess hluta upplýsingakerfisins sem það hefur.

4. Vernd persónuupplýsinga.
    Með tilliti til vélrænnar meðferðar persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt samningnum skal hver samningsaðili í síðasta lagi við aðild að samningnum hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að eigin lög hans veiti persónuupplýsingum a.m.k. þá vernd er greinir í Evrópusamningnum um vernd persónuupplýsinga.
    Við vélræna meðferð persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt samningnum gildir það að sá sem fær upplýsingar má aðeins nota þær í þeim tilgangi sem þær voru veittar. Önnur notkun upplýsinganna er háð fyrir fram leyfi þess ríkis sem veitti þær og að slík notkun sé í samræmi við lög þess ríkis sem fékk upplýsingarnar. Einungis má veita slíkt leyfi að það sé ekki í andstöðu við lög ríkisins sem veitti upplýsingarnar. Upplýsingarnar má einungis nota af þeim dómsmálayfirvöldum og aðilum sem hafa skyldum eða hlutverki að gegna vegna þess markmiðs sem að framan greinir. Sá aðili, sem veitir upplýsingar, hefur skyldur til að sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar. Komist hann sjálfur að því eða samkvæmt beiðni frá viðkomandi einstaklingi að upplýsingarnar eru ekki réttar eða ekki átti að veita þær skal hann tilkynna það þeim aðila sem fékk þær. Sá aðili hefur skyldu til að leiðrétta upplýsingarnar eða eyða þeim eða skrá athugasemd við þær um að þær séu ekki réttar eða ekki hafi átt að veita þær. Samningsaðili getur ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð sem hann ber að eigin lögum gagnvart einstaklingi sem orðið hefur fyrir tjóni, með vísun til þess að annar samningsaðili hafi veitt rangar upplýsingar. Bæti aðili tjón vegna notkunar rangra upplýsinga sem hann hefur fengið frá öðrum aðila skal sá aðili sem veitti upplýsingarnar endurgreiða viðkomandi ríki að fullu þær bætur sem það greiddi. Skrá skal upplýsingar sem veittar eru og mótteknar í gagnagrunna aðila sem veitti og fékk upplýsingarnar.
    Um persónuupplýsingar sem veittar eru samkvæmt samningnum gilda ákvæði næstu málsgreinar hér á undan þegar þær eru veittar úr gagnasafni og teknar í gagnasafn sem ekki er vélrænt. Framangreind ákvæði gilda um þessar upplýsingar að öðru leyti en því að ekki þarf að skrá í gagnasafn aðilanna upplýsingar um að þær hafi verið veittar eða mótteknar. Að öðru leyti gildir eftirfarandi um þessar upplýsingar: Veiting og móttaka á upplýsingum skal skráð skriflega. Þetta gildir þó ekki þegar ekki er nauðsynlegt að skrá upplýsingarnar til að nota þær, sérstaklega þegar þær eru ekki notaðar eða einungis notaðar í mjög stuttan tíma. Með tilliti til notkunar upplýsinganna skal móttakandi þeirra tryggja vernd þeirra með sama hætti og sambærilegra upplýsinga samkvæmt hans eigin lögum. Lög þess ríkis sem beiðni er beint til gilda um aðgang viðkomandi að þessum upplýsingum og um skilyrði fyrir aðgangi að þeim.
    Veiting persónuupplýsinga samkvæmt samningnum má þá fyrst eiga sér stað þegar sá samningsaðili, sem á að fá upplýsingarnar, hefur tilnefnt eftirlitsaðila til að framkvæma óháð eftirlit með því að ákvæði samningsins um meðferð þessara upplýsinga séu virt. Sé sérstökum aðila samkvæmt lögum falið að hafa eftirlit með vernd persónuupplýsinga sem ekki eru í gagnasafni skal sama aðila falið að hafa eftirlit samkvæmt samningnum.
    Með tilliti til verndar persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt ákvæðum samningsins um lögreglusamvinnu skuldbinda aðildarríkin sig til að vernd þeirra persónuupplýsinga sé í samræmi við ályktun Evrópuráðsins um notkun lögreglu á persónuupplýsingum. Að því er varðar veitingu upplýsinga um þá sem eiga leyfis- eða tilkynningarskyld skotvopn gildir það að viðtakandi slíkra upplýsinga má einungis nota þær í þeim tilgangi sem slíkar upplýsingar voru veittar til og samkvæmt skilyrðum sem sá aðili setti sem veitti upplýsingarnar. Upplýsingarnar má einungis veita lögreglu. Án fyrir fram leyfis frá þeim aðila sem veitti upplýsingarnar má ekki veita öðrum aðilum aðgang að þeim. Samkvæmt beiðni þess aðila sem veitti upplýsingarnar skal sá sem fékk þær upplýsa fyrrgreinda aðilann um til hvers upplýsingarnar hafi verið notaðar og um árangur.
    Fái sambandsmaður þær upplýsingar sem fjallað er um í þessum kafla gilda ákvæði hans einungis eftir að hann hefur framsent upplýsingarnar til þess aðila sem sendi hann til annars ríkis.
    Í samningnum eru ákvæði um undantekningar frá þeim atriðum er tilgreind eru að framan.

5. Framkvæmdanefndin.
    Setja skal á stofn framkvæmdanefnd vegna samningsins. Auk þeirra sérstöku verkefna sem henni eru falin í samningnum er það hlutverk nefndarinnar að tryggja rétta beitingu hans.
    Í framkvæmdanefndinni er einn fulltrúi frá hverju aðildarríki. Aðildarríkin hafa í nefndinni einn ráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmd samningsins og getur hann að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er notið aðstoðar sérfræðings sem getur tekið þátt í umræðum. Framkvæmdanefndin tekur ákvarðanir samhljóða. Hún setur sér sjálf vinnureglur og getur í því sambandi ákveðið að ákvarðanir verði teknar skriflega. Samkvæmt beiðni fulltrúa eins aðildarríkis getur endanlegri ákvörðun, sem framkvæmdanefndin hefur tekið afstöðu til, verið frestað í allt að tvo mánuði eftir að málið var borið upp.

6. Lokaákvæði.
    Beiting ákvæða samningsins skal vera samrýmanleg rétti Evrópusambandsins. Beita skal ákvæðum samningsins með fyrirvara varðandi ákvæði Genfarsamningsins um stöðu flóttamanna svo sem honum hefur verið breytt.
    Samningsaðili, sem hyggst taka upp viðræður við þriðja ríki um landamæraeftirlit, skal upplýsa önnur samningsríki um það. Ekkert samningsríki má gera samning um einföldun eða afnám landamæraeftirlits við eitt eða fleiri þriðju ríki án fyrir fram samþykkis annarra samningsaðila. Þetta takmarkar þó ekki rétt aðildarríkja Evrópusambandsins til að gera sín á milli slíka samninga. Ekki er hægt að gera aðra fyrirvara við samninginn en við 60. gr. hans um framsal sem nánar er tilgreint í þeirri grein.
    Geri aðildarríki Evrópusambandsins samninga í því skyni að koma á svæði án innri landamæra ákveða samningsaðilar með hvaða hætti ákvæði slíkra samninga koma í stað eða breyta ákvæðum Schengen-samningsins. Ákvæði sem eru í andstöðu við ákvæði sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa komið sér saman um skulu aðlöguð.