Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 483 . mál.


1049. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Ríkissjóður annast umfangsmikla innheimtustarfsemi fyrir aðra aðila. Þetta kemur glöggt fram í yfirliti úr ríkisreikningi 1994 á fskj. I þar sem sést að í heild nam þessi innheimta um 1 milljarði kr. á því ári. Þessi innheimta er af misjöfnum toga og einnig er ráðstöfun fjárins misjöfn í einstökum atriðum. Það þingmál, sem hér um ræðir, snertir einn þessara tekjuliða, iðnaðarmálagjald. Það skilar Samtökum iðnaðarins um 90 millj. kr. á ári og verður það að teljast allmikil upphæð. Það er þó ekki aðalatriðið heldur hitt að hér er um að ræða, að því er best verður séð, næsta einstæða innheimtu á félagsgjöldum fyrir annan aðila vinnumarkaðarins þar sem verkalýðshreyfingin fær ekkert. Vissulega fá aðrir aðilar greiðslur úr ríkissjóði, en ákvörðun um það er tekin hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga. Þar eru ekki á ferðinni sjálfvirkar skattaleiðslur um ríkissjóð svo að notuð sé skilgreining formanns Prestafélags Íslands á hliðstæðum greiðslum til kirkjunnar. Miklu eðlilegra er reyndar að forráðamenn fyrirtækjanna taki sjálfir ákvörðun um greiðslur til samtaka sinna þótt það gæti í sjálfu sér byggst á almennum lagaramma um slíka starfsemi. Þá kæmi vitaskuld einnig til greina að báðir aðilar vinnumarkaðarins fengju aðild að sjóðum af þessu tagi. Hins vegar er fráleitt að það sé einungis annar aðilinn. Fram kom í efnahags- og viðskiptanefnd að ekki virðist grundvöllur til þess að fella þetta kerfi niður þó að vissulega ætti það að koma til skoðunar. Skv. 3. gr. laga um iðnaðarmálagjald skal tekjum af þessu gjaldi varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu og er sjálfsagt að mati minni hlutans að samtök iðnverkafólks komi að því verki. Því er lagt til að helmingur þessarar innheimtu renni til Samtaka iðnverkafólks, en verði sú tillaga felld mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Kristín Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi á fundum nefndarinnar, er samþykk nefndaráliti þessu.
    Minni hlutinn gerir tillögu um eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Tekjur af iðnaðarmálagjaldi skulu á árinu 1997 skiptast að jöfnu milli Landssambands iðnverkafólks og Samtaka iðnaðarins, en að öðru leyti gilda ákvæði 3. gr. laganna eftir því sem við á.

Alþingi, 21. maí 1996.



Svavar Gestsson,

Guðmundur Árni Stefánsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.


frsm.




Fylgiskjal I.



(1 síða mynduð.)

Fylgiskjal II.


Ríkisbókhald,
tekjudeild:


Iðnaðarmálagjald.


(20. maí 1996.)



    Samkvæmt beiðni upplýsist það hér með að tekjur og innheimta á iðnaðarmálagjaldi fyrir árin 1994 og 1995 eru sem hér segir, í þús. kr.:

                   

Tekjur

Innheimta


                   1994

88.288

87.462


                   1995

79.703

87.327



    Óinnheimt vegna ársins 1995 og fyrri ára voru 24.027 þús. kr. í árslok 1995.
    Í dag er farið með iðnaðarmálagjald sem innheimtu fyrir aðra og er innheimta færð á viðskiptareikning Samtaka iðnaðarins og skilað til þeirra mánaðarlega. Óinnheimt iðnaðarmálagjald í árslok er fært upp sem krafa á óinnheimt innheimtufé fyrir aðra.
    Þess ber að geta að í 11. gr. í frumvarpi til laga um fjárreiður ríkisins, sem nú er til afgreiðslu hjá Alþingi, er lagt til að innheimtufé fyrir aðra, m.a. iðnaðarmálagjald, verði fært í tekjuhlið ríkisreiknings og sem framlag til Samtaka iðnaðarins í gjaldahlið.