Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 533 . mál.


1071. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., skal lagt vörugjald í eftirfarandi þremur gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentimetrum:

Sprengirými aflvélar

    
Flokkur

Bensínvélar

Dísilvélar

Gjald í %

         


I     
0–1.600
0–2.100 30
II     
1.601–2.500
2.101–3.000 40
III     
Yfir 2.500
Yfir 3.000 65


2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1996.
    

Greinargerð.


    Bifreiðar eru meðal mikilvægustu tækja nútímasamfélags. Stefna stjórnvalda hlýtur því að miða að því að gjaldtaka af þeim hindri ekki notendur, einstaklinga, fjölskyldur eða fyrirtæki, í að fjárfesta í því tæki sem best þjónar flutningsþörfinni.
    Ýmis samtök, svo sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Bílgreinasambandið og Umferðarráð, hafa beint þeirri áskorun til stjórnvalda að álögur á bifreiðar verði jafnaðar eins og kostur er með umferðaröryggi að leiðarljósi.
    Frumvarpinu er ætlað að stuðla að meira umferðaröryggi með hærra hlutfalli stærri og öruggari bifreiða og barnmörgum fjölskyldum er gert auðveldara að eignast bifreið í samræmi við þarfir. Einnig er stigið skref í þá átt að draga úr neyslustýringu með fækkun gjaldflokka, en frá árinu 1993 hefur þeim fækkað úr sjö í fjóra og nú með þessum breytingum í þrjá.
    Í núgildandi lögum eru gjaldflokkarnir fjórir miðaðir við sprengirými aflvélar, mælt í cm 3 . Þá eru viðmiðunarmörkin mismunandi eftir því hvort um er að ræða bensínknúnar eða dísilknúnar bifreiðar eins og sést í eftirfarandi töflu:

Sprengirými vélar

    

Bensín,

Dísilolía,

Gjaldhlutfall,


Gjaldflokkur

cm 3

cm 3

%



I     
0–1.400
0–1.900 30
II     
1.401–2.000
1.901–2.500 40
III     
2.001–2.500
2.501–3.000 60
IV     
yfir 2.500
yfir 3.000 75

    Í frumvarpinu er lagt til að IV. gjaldflokkur, þ.e. 75%, falli brott. Jafnframt verði viðmiðunarmörk þeirra gjaldflokka sem eftir standa hækkuð, sbr. eftirfarandi töflu:

Sprengirými vélar

    

Bensín,

Dísilolía,

Gjaldhlutfall,


Gjaldflokkur

cm 3

cm 3

%



I     
0–1.600
0–2.100 30
II     
1.601–2.500
2.101–3.000 40
III     
yfir 2.500
yfir 3.000 65

    Lagt er til að vörugjald af þeim fólksbifreiðum sem hafa minnstar vélar verði áfram 30%. Viðmiðunarmörkin eru hins vegar hækkuð úr 1.400 cm 3 í 1.600 cm 3 fyrir bensínknúnar bifreiðar og úr 1.900 cm 3 í 2.100 cm 3 fyrir dísilknúnar bifreiðar. Þetta hefur í för með sér að gjaldið af mörgum meðalstórum fólksbifreiðum lækkar úr 40% í 30%. Sama er að segja um breytingar á gjaldflokkum II og III.
     Tekjuáhrif. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 1996 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi á fólksbifreiðar verði 2,2 milljarðar kr. Verði fyrrgreindar breytingar á vörugjaldi fólksbifreiða samþykktar má vænta tilfærslu frá minni bifreiðum yfir í stærri. Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif tilfærslunnar, en þau vega á móti tekjutapi ríkissjóðs af lækkun gjaldhlutfallsins og hærri viðmiðunarmörkum. Sama má raunar segja um auknar tekjur af margvíslegum notkunarsköttum. Þegar allt er lagt saman má þó vænta þess að ríkissjóður verði af einhverjum tekjum vegna þessara breytinga, eða 50–100 millj. kr.
     Verðlagsáhrif. Nú kostar meðalstór fólksbifreið nálægt 1,5–2 millj. kr. Við breytinguna gæti slík bifreið lækkað um 100–125 þús. kr., eða um 6%. Þá má búast við lítils háttar lækkun á vísitölu framfærslukostnaðar.
     Samantekt. Með þessari einföldun á núverandi vörugjaldskerfi er komið verulega til móts við ólíkar þarfir einstaklinga. Þannig verður fjölskyldufólki og landsbyggðarfólki gert auðveldara að kaupa stærri eða kraftmeiri bifreiðar í samræmi við þarfir sínar. Fækkun flokka mun einnig draga úr óæskilegri þrepaskiptingu við gjaldtökuna, sem hefur haft þær afleiðingar að minni bifreiðar með afllitlum vélum hafa verið fluttar til landsins. Í ályktun sem Umferðarráð sendi ríkisstjórn og Alþingi 8. febrúar 1996 er m.a. skorað á stjórnvöld að draga úr þessari þrepaskiptingu í því skyni að gera landsmönnum kleift að kaupa sterkbyggðari bifreiðar og bifreiðar sem búnar eru betri öryggisbúnaði. Í stuttu máli er frumvarpinu ætlað að stuðla að auknu öryggi í umferðinni, bæta hag stórra fjölskyldna, auka hagkvæmni í rekstri bifreiða og koma til móts við þarfir þeirra sem búa í dreifbýli.