Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 326 . mál.


1100. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um sveigjanlegan vinnutíma í ráðuneytum og öðrum ríkisstofnunum.

    Leitað var til ráðuneytanna og barst svar frá þeim öllum ásamt upplýsingum frá 105 stofnunum. Menntamálaráðuneytið gerði ekki ítarlega úttekt á tilhögun vinnutíma starfsfólks í öllum þeim stofnunum er því tilheyra. Þar eru kennarar á grunn- og framhaldsskólastigi fjölmennasti hópurinn. Undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið heyra á annað hundrað stofnanir og var heldur ekki gerð úttekt á tilhögun vinnutíma í þeim.

    Hvernig hefur verið staðið að því í ráðuneytum og öðrum ríkisstofnunum að gefa starfsfólki möguleika á sveigjanlegum vinnutíma sem geri því kleift að samrýma atvinnuþátttöku sína og fjölskylduábyrgð, sbr. Framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til þess að ná fram jafnrétti kynjanna frá 7. maí 1993, lið A.5?
    Í ráðuneytum er alla jafna sveigjanlegur vinnutími þar sem því verður við komið. Fjölmargir nýta sér þennan möguleika og er ávallt reynt að verða við óskum starfsfólks eins og hægt er. Reglan er að fólk skili umsömdum fjölda vinnustunda, nýti það heimild til sveigjanlegs vinnutíma.
    Sama regla gildir í þeim ríkisstofnunum þar sem vinnuaðstæður leyfa. Vaktavinna, afgreiðsla á auglýstum tíma, hópvinna, kennsla og umönnun sjúkra og fatlaðra krefst yfirleitt mætingar á ákveðnum tíma. Að öðru leyti er komið til móts við óskir starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma.

    Hve margir starfsmenn hafa nýtt sér sveigjanlegan vinnutíma í einstökum ráðuneytum og ríkisstofnunum þar sem slíkt er í boði? Hvernig er skipting þessara starfsmanna eftir kynferði?
    Engin sérstök skráning er til um hve margir nýta sér þetta fyrirkomulag og í stöku tilvikum eru tímabundnar ástæður sem því valda. Konur eru í meiri hluta þeirra sem eru í hlutastarfi og nýta sér oftar sveigjanlegan vinnutíma. Ævinlega skilar starfsfólk umsömdum vinnustundafjölda.

    Hvaða áhrif hefur sveigjanlegur vinnutími á launagreiðslur, yfirvinnumöguleika og önnur kjaramál?
    Engin.