Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 540 . mál.


1154. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965, með síðari breytingum.

Flm.: Ragnar Arnalds, Sturla Böðvarsson,


Guðni Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
    Á eftir 2. málsl. greinarinnar kemur nýr málsliður er orðast svo: Á sama hátt greiðir forseti Alþingis í sjóðinn 4% af forsetalaunum eins og þau eru ákveðin á hverjum tíma og miðast mótframlag úr ríkissjóði við þau laun.
    Við greinina bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Með „alþingismanni“ er í lögum þessum átt við þann sem tekið hefur fast sæti á Alþingi. Sömu reglur skulu einnig gilda um ráðherra sem ekki er jafnframt alþingismaður.
                  Varaþingmaður skal einnig greiða í sjóðinn af þingfararkaupi sínu og eiga rétt til eftirlauna skv. 2.–3. gr.
                  Þegar réttindi alþingismanna samkvæmt lögunum eru reiknuð út skal telja með þann tíma sem þeir greiddu í sjóðinn sem varaþingmenn.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, 5. mgr., er orðast svo:
    Þeir sem gegnt hafa embætti forseta Alþingis eftir gildistöku laga nr. 88/1995 skulu, auk réttar skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, eiga rétt til viðbótargreiðslna úr sjóðnum eftir sömu reglum og gilda um eftirlaun ráðherra, sbr. lög nr. 47/1965, með síðari breytingum, fyrir þann tíma er þeir voru í embætti. Greiðslur samkvæmt þessari málsgrein og greiðslur úr eftirlaunadeild ráðherra, sem fyrrverandi forseti kann að eiga rétt á, mega þó aldrei nema samtals hærri fjárhæð en 50% af ráðherralaunum og skerðast greiðslur samkvæmt þessari málsgrein sem því nemur.

3. gr.

    4. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 73/1982, orðast svo:
    Eftirlifandi maki alþingismanns, fyrrverandi alþingismanns eða varaþingmanns á rétt á eftirlaunum að honum látnum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Eftirlaunaréttur maka alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns skal vera 20% af þingfararkaupi að viðbættum helmingnum af þeim hundraðshluta sem hinn látni alþingismaður hafði áunnið sér skv. 1.–2. mgr. 3. gr. Sé makalífeyrir samkvæmt þessari málsgrein hærri hundraðshluti en sá sem hinn látni alþingismaður hafði áunnið sér skal það sem umfram er falla niður eftir þrjú ár eða þegar yngsta barn hans verður 18 ára ef síðar er.
    Eftirlifandi maki varaþingmanns skal eiga rétt á eftirlaunum er nema helmingnum af þeim hundraðshluta sem hinn látni varaþingmaður hafði áunnið sér skv. 1.–2. mgr. 3. gr. Hafi samanlögð þingseta varamanns numið tveimur árum á eftirlifandi maki þó sama rétt og eftirlifandi makar alþingismanna og fyrrverandi alþingismanna skv. 2. mgr. þessarar greinar.
    Eftirlifandi maki fyrrverandi forseta Alþingis á rétt á viðbótargreiðslu sem nemur helmingi þess réttindahlutfalls af ráðherralaunum sem forsetinn hafði aflað sér skv. 5. mgr. 3. gr. laganna, auk 20% nema makinn eigi jafnframt rétt í ráðherradeild sjóðsins.
    Eftirlaun maka fylgja þingfararkaupi alþingismanna eins og það er á hverjum tíma og er sá hundraðshluti þess sem eftirlaunaréttur skv. 2.–4. mgr. þessarar greinar segir til um.
    Reglur 4.–7. mgr. 14. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins skulu gilda um makalífeyri alþingismanna eftir því sem við á.

4. gr.


     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., er orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um börn eða kjörbörn varaþingmanna nema þingseta varaþingmanns hafi varað a.m.k. tvö ár samanlagt.

5. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 1. gr. gilda frá 1. júlí 1995.
    Ný ákvæði 4. og 5. gr. laganna skerða ekki rétt þeirra er við gildistöku þessara laga taka maka- eða barnalífeyri úr sjóðnum eða hafa þá öðlast rétt til slíkrar greiðslu.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu eru aðallega tvö efnisatriði. Hið fyrra lýtur að starfskjörum forseta Alþingis. Með 2. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, var stefnt að því að forseti Alþingis nyti sömu launa- og starfskjara og ráðherra. Með starfskjörum er m.a. átt við eftirlaunarétt. Eftirlaunum ráðherra er skipað með lögum nr. 47/1965, með síðari breytingum, og er eftirlaunasjóður ráðherra sérstök deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar þykir ekki eðlilegt að forsetar Alþingis greiði í þann sjóð eins og ráðherrar. Til þess að lögfesta fyrri ákvarðanir Alþingis um stöðu þingforseta að þessu leyti er í frumvarpinu lagt til að hann greiði af öllum launum sínum fyrir forsetastarfið í eftirlaunadeild alþingismanna og öðlist þar viðbótarrétt sem sé hliðstæður eftirlaunarétti ráðherra. Réttur ráðherra til eftirlauna er 6% fyrir hvert ár í embætti, þó aldrei meira en 50% af ráðherralaunum, þ.e. þeim launum sem ráðherrar hafa fyrir starfa sinn umfram þingfararkaup.
    Síðara efnisatriði frumvarpsins miðar að því að þrengja rétt til makalífeyris. Samkvæmt túlkun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á 4. gr. laga nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna, eins og henni var breytt með lögum nr. 73/1982, hefur eftirlifandi mökum varaþingmanna verið greitt úr sjóðnum að lágmarki 20% af þingfararkaupi auk helmings af réttindum varaþingmannsins. Varaþingmenn sitja alla jafna stuttan tíma á Alþingi, sumir aðeins í tvær vikur og öðlast við það rétt til lífeyris sem nemur 0,08% af þingfararkaupi, nú um 150 kr. á mánuði. Makinn fær hins vegar við andlát varaþingmannsins samkvæmt þessari túlkun lagagreinarinnar tæplega 40 þús. kr. á mánuði í makalífeyri. Með frumvarpi þessu er hins vegar afnuminn réttur eftirlifandi maka varaþingmanns til eftirlauna sem eru hærri en eftirlaun varaþingmannsins voru. Jafnframt er 4. gr. laganna breytt þannig að lífeyrir eftirlifandi maka alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns geti aldrei orðið hærri en eftirlaun þingmannsins, nema um mjög skamman tíma. Við þetta skerðast eftirlaun eftirlifandi maka alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns ef hinn látni hafði setið á Alþingi skemur en 12 ár, en sá þingsetutími veitir rétt til 40% eftirlauna.
    Það skal áréttað sérstaklega að með frumvarpi þessu er einvörðungu verið að sníða vankanta af lögunum og samræma þau fyrri ákvörðun Alþingis um launa- og starfskjör forseta þingsins. Frumvarpið felur því ekki í sér almenna endurskoðun laganna um eftirlaun alþingismanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og rakið er í inngangi greinargerðarinnar er ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins í samræmi við 2. gr. þingfararkaupslaganna nýju sem tóku gildi 1. júlí 1995, þ.e. að forseti Alþingis njóti í öllu tilliti sömu launa og starfskjara og ráðherrar. Óvissa hefur ríkt um greiðslu lífeyrisiðgjalds af launum forseta. Samkvæmt bréfi stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá 9. október 1995 miðast greiðsla enn við þingfararkaup en ekki full laun forsetans eins og þau eru ákvörðuð af Kjaradómi. Hlýtur það að teljast óeðlileg skipan og ekki í samræmi við þau markmið sem stefnt var að með breytingum á launa- og starfskjörum forseta Alþingis.
    Í b-lið greinarinnar er tekin í lögin skilgreining á því hvað átt er við með orðinu „alþingismaður“. Alþingismaður er samkvæmt því hver sá sem tekið hefur fast sæti á Alþingi, þ.e. verið kjörinn á þing eða hlotið fast sæti við afsögn aðalmanns eða andlát. Ráðherrar, sem ekki eru jafnframt kjörnir alþingismenn, utanþingsráðherrar, eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, sbr. 51. gr. stjórnarskrárinnar, og því þykir eðlilegt að þeir hafi sama rétt samkvæmt lögunum og alþingismenn, enda er það í samræmi við venju.
    Þá eru enn fremur í b-lið greinarinnar tekin af tvímæli um rétt varaþingmanna en engin ákvæði hafa verið um þá í lögum um eftirlaun þingmanna. Þeir hafa greitt til lífeyrissjóðsins af launum sínum um nokkurn tíma og verið úrskurðaður lífeyrir á grundvelli lögfræðiálits sem stjórn lífeyrissjóðsins hefur aflað sér. Stjórn sjóðsins hefur í framhaldi af því talið varaþingmenn njóta allra sömu réttinda og alþingismenn samkvæmt lögunum og að makar þeirra eigi rétt til lífeyris. Samkvæmt þessu frumvarpi eiga varaþingmenn rétt til lífeyris skv. 2.–3. gr. laganna, en jafnframt er kveðið sérstaklega á um eftirlaunarétt eftirlifandi maka varaþingmann í 4. gr. laganna, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins. Þykir eðlilegt að fylgja þeirri meginreglu að greitt sé lífeyrissjóðsiðgjald af launum varaþingmanna eins og öðrum launagreiðslum og að þeir eignist rétt til eftirlauna samkvæmt því þótt lítil séu. Réttur maka þeirra til eftirlauna, sem geta verið mörghundruð sinnum hærri, er hins vegar skertur.
    Loks er í greininni lögfest sú venja að tíminn, sem alþingismenn hafa setið á þingi sem varamenn, teljist með þeim tíma sem þeir hafa setið sem aðalmenn þegar reiknað er út lífeyrishlutfall þeirra og önnur réttindi samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að í eftirlaunadeild alþingismanna myndist viðbótarréttur fyrir fyrrverandi forseta Alþingis, sem kosnir eru eftir 1995, eftir sömu reglum og gilda um ráðherra í eftirlaunadeild þeirra. Samkvæmt reglum í 3. gr. laga nr. 47/1965, um eftirlaun ráðherra, með síðari breytingum, eiga þeir sem gegnt hafa ráðherraembætti í a.m.k. eitt ár rétt á eftirlaunum sem nema 6% fyrir hvert ár og samsvarandi hlutfallslega fyrir hvern byrjaðan mánuð.
    Þar sem ætlunin er að gera forseta Alþingis að þessu leyti jafnsettan ráðherra er eðlilegt að viðbótarréttur hans í lífeyrissjóði alþingismanna og hugsanlegur réttur hans í lífeyrissjóði ráðherra séu samanlagt háðir sömu takmörkunum og gilda um ráðherra, þ.e. að eftirlaunahlutfallið fari ekki yfir 50% af ráðherralaunum. Með ráðherralaunum er í þessu sambandi átt við þau föstu laun sem ráðherra hefur umfram þingfararkaup. Fyrrverandi forseti Alþingis, sem gegnt hefði ráðherraembætti í rúm átta ár, og þar með öðlast hámarkslífeyri í ráðherrasjóðnum, nyti því ekki góðs af þessum viðbótarrétti í lífeyrissjóði alþingismanna. Skerðing vegna 50%-hámarksins verður því á greiðslum úr alþingismannadeildinni en ekki ráðherradeildinni.
    Rétt er að benda á að fyrrverandi forseti, sem starfað hefði skemur en eitt ár og ætti ekki rétt í eftirlaunasjóði ráðherra, nyti ekki viðbótargreiðslna fremur en ráðherra sem setið hefur skemur en eitt ár. Loks er þess að geta að um viðbótargreiðslur þessar gilda ákvæði 2. gr. laga nr. 47/1965, sbr. 7. gr. laga nr. 73/1982, þ.e. að þær hefjast ekki fyrr en við 65 ára aldur jafnvel þótt taka lífeyris samkvæmt lögum um eftirlaun alþingismanna sé hafin áður.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. felst annað meginefnisatriði þessa frumvarps og eru ástæður greinarinnar raktar í inngangi greinargerðar. Ákvæðið felur í sér þá reglu að makalífeyrir verði ekki hærri en eftirlaun fyrrverandi alþingismanns, nema um skamman tíma. Réttur maka látinna varaþingmanna til eftirlauna verður ekki lengur jafn rétti eftirlifandi maka alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns nema varaþingmaðurinn hafi átt setu á Alþingi í samtals tvö ár. Með ákvæði þessu, sbr. einnig 1. gr. frumvarpsins, er létt af sjóðnum lífeyrisskuldbindingum sem í árslok 1992 voru taldar nema um 365 millj. kr. Eftirlifandi makar varaþingmanna, sem fá nú greiðslu úr sjóðnum, eru þó tiltölulega fáir. Það skýrist m.a. af því að einungis 20 varaþingmenn tóku sæti á Alþingi fram til ársins 1959, enda víða um land fram að þeim tíma einmenningskjördæmi þar sem engir varaþingmenn voru kjörnir. Varaþingmönnum, sem tekið hafa sæti á Alþingi síðan 1959, hefur hins vegar fjölgað mjög, voru orðnir 254 um sl. áramót.
    Í 4. mgr. er sett inn ákvæði um rétt maka forseta þingsins til viðbótarlífeyris þannig að honum séu tryggð sambærileg réttindi og ef þingforseti hefði greitt í ráðherradeildina. Maki fyrrverandi forseta á þá, auk hins almenna makalífeyrisréttar samkvæmt lögunum, rétt til greiðslu sem nemur 20% af ráðherralaunum auk helmings af því réttindahlutfalli sem forsetinn hafði aflað sér skv. 5. mgr. 3. gr. laganna (2. gr. frumvarpsins), þ.e. þeim launum þingforseta sem eru umfram þingfararkaup, en þau eru jafnhá ráðherralaunum. Ef forsetinn hafði einnig áunnið sér eftirlaunarétt sem ráðherra falla 20% niður því að makinn ætti þá slíkan rétt í þeirri deild. Miðar sú skerðing að því að gera maka forseta að þessu leyti jafnsettan maka ráðherra. Makalífeyrir samkvæmt þessari málsgrein getur aldrei orðið hærri en 45% af ráðherralaunum.
    Þá er felld inn í greinina tilvísun til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og kveðið á um að reglur 4.–7. mgr. 14. gr. laganna skuli gilda um makalífeyri alþingismanna úr sjóðnum eftir því sem við eigi. Fjalla þær um skiptingu makalífeyris ef alþingismaður hefur verið tvígiftur, um hvernig með skuli fara ef eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, um greiðslu til sambúðarmanns eða sambúðarkonu og fleiri áþekk atriði sem gilda um makalífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Um 4. gr.


    Ákvæði þetta er sett til samræmis við þá meginstefnu sem fram kemur í 1. og 3. gr. frumvarpsins um eftirlaunarétt maka varaþingmanna. Þykir eðlilegt, líkt og gildir um eftirlifandi maka varaþingmanna, að börn eða kjörbörn varaþingmanna njóti ekki til fulls jafns réttar á við börn eða kjörbörn alþingismanna eða fyrrverandi alþingismanna nema varaþingmaðurinn hafi átt setu á Alþingi í samtals tvö ár.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að 6. gr. laganna, sem fjallar um makalífeyri, falli brott því að greinin hefur ekki lengur sjálfstætt gildi eftir breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum. Ákvæði um makalífeyri eru nú í 4. gr. laganna.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. er auk gildistökuákvæðis tekið sérstaklega fram að ákvæði a-liðar 1. gr., sem fjallar um iðgjaldagreiðslur þingforseta, skuli gilda frá 1. júlí 1995 þegar lög nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, tóku gildi, en frumvarp þetta er að hluta flutt í framhaldi af þeirri lagasetningu til að tryggja samræmi eftirlaunalaganna við 2. gr. þingfararkaupslaganna.
    Þá er í greininni kveðið á um að ákvæði 4. og 5. gr. frumvarpsins um maka- eða barnalífeyri skerði ekki rétt þeirra er við gildistöku þessara laga taka maka- eða barnalífeyri úr sjóðnum eða hafa öðlast rétt til greiðslu slíks lífeyris á þeim tíma. Hvað makalífeyri varðar gildir þetta fyrst og fremst um maka varaþingmanna, en einnig um maka alþingismanna sem hafa ekki náð 40% réttindahlutfalli, þ.e. setið skemur en 12 ár á Alþingi. Með ákvæði þessu fellur því niður núverandi réttur maka varaþingmanna til jafns lífeyrisréttar á við maka alþingismanna og fyrrverandi alþingismanna við greiðslu úr lífeyrissjóðnum ef varaþingmaðurinn er á lífi við gildistöku laganna.