Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 519 . mál.


1218. Breytingartillögur



við frv. til l. um eftirlit með fiskveiðum utan lögsögu Íslands.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Við 1. gr. bætist þrjár nýjar málsgreinar er orðist svo:
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð.
    Sé á grundvelli 1. mgr. ákveðið að tiltekin skip skuli búin staðsetningar- og sendingarbúnaði sem veitir sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu þeirra til stöðvar í landi skulu viðkomandi útgerðir greiða kostnað sem af slíku eftirliti hlýst, þar með talið hlutdeild í yfirstjórn.
    Þá skulu íslensk skip er stunda veiðar utan lögsögu Íslands fullnægja öllum sömu ákvæðum um skil á aflaskýrslum og gilda um veiðar innan lögsögunnar. Að auki skal ráðherra með reglugerð gera íslenskum skipum að fullnægja ákvæðum samninga sem Ísland er aðili að um tilkynningarskyldu og upplýsingagjöf til erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana.