Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 537 . mál.


1219. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um leyfi til malarnáms.

    Er það meginregla í samningum landbúnaðarráðuneytis um leyfi til efnistöku (malarnáms) að greiðslustaður efnistökugjalds sé hjá ráðuneytinu? Hver er meginreglan almennt um þetta í stjórnsýslunni?
    Samningar á vegum ráðuneytisins um töku jarðefna eru ekki það margir að hægt sé að tala um meginreglu. Í þeim er kveðið á um að greiðsla efnistökugjalds sé hjá ráðuneytinu sjálfu og í sumum tilvikum hjá ríkisféhirði. Hér er bæði átt við samninga um malartöku og samninga ráðuneytisins um töku á vikri. Þegar hins vegar er um að ræða leigugjald, sem tekur mið af skráðum verðmætum eigna ríkissjóðs, eins og fasteignamati lands, ræktunar og húsa, eins og almennt er um jarðeignir ríkisins, er gert ráð fyrir að innheimtumenn ríkissjóðs innheimti álagt leigugjald, enda eru viðkomandi leigusamningar þá skráðir og tengdir innheimtukerfi ríkisins. Ráðuneytið getur ekki veitt svör við meginreglum í stjórnsýslunni um þetta efni.

    Hver fer með vörslu þess sjóðs sem hefur myndast og hvernig hefur honum verið ráðstafað undanfarin fimm ár?
    Ætla mætti af spurningunni að tekjur af efnistökugjaldi séu sérgreindar og renni í sjálfstæðan sjóð, en svo er ekki. Hvers konar tekjur af jarðeignum ríkisins, sem eru á forræði ráðuneytisins, þar með talin jarðefnasala, renna til Jarðeigna ríkisins og Jarðasjóðs og eru varðveittar í ríkissjóði og koma til ráðstöfunar á fjárlögum.

    Hversu háar fjárhæðir voru greiddar ráðuneytinu samkvæmt samningum um efnistökugjald á árunum 1990–95?
    4.100 þús. kr.

    Hverjar voru greiðslur Vatnsskarðs hf. til ráðuneytisins á árunum 1989–95 og hversu háa fjárhæð greiddi fyrirtækið við lokauppgjör síðsumars 1995?
    1.500 þús. kr. Við lokauppgjör á síðasta ári ábyrgðist fyrirtækið Alexander Ólafsson hf. greiðslur til ráðuneytisins á ógreiddum efnisgjöldum.

    Við hvaða lagaheimild er stuðst þegar gefin eru út malartökuleyfi eins og í fyrrgreindu tilviki?
    Samningur Vatnsskarðs hf. heimilaði malartöku í svonefndum Vatnsskarðsnámum í landi Krýsuvíkur. Jörðin Krýsuvík er að langstærstum hluta í eigu ríkissjóðs og fer ráðuneytið (Jarðeignir ríkisins) með forræði hennar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 96/1969. Samningar ráðuneytisins fela í sér heimild landeiganda til hagnýtingar og ráðstöfunar á tilteknum jarðefnum, en eru ekki leyfi stjórnvalds sem byggist á sérstökum lagagrundvelli.

Prentað upp.

    Ráðuneytið hefur ekki á hendi framkvæmd námulaga, nr. 24/1973, og veitir því ekki leyfi sem þau lög áskilja. Leyfi af því tagi, sem hér er væntanlega átt við, eru ekki gefin út af ráðuneytinu, enda ekki gert ráð fyrir því að lögum.