Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:19:28 (2795)

1997-01-28 16:19:28# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:19]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans við spurningum mínum og hv. þm. fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Hún hefur að vissu leyti verið góð, að öðru leyti hefur hún valdið miklum vonbrigðum.

Ég rakti í upphafi umræðunnar mismunandi forsendur fyrir afstöðu manna til álvers á Grundartanga og til mengandi stóriðju yfirleitt hér á landi og umræðan hefur staðfest það yfirlit. Ég biðst undan því að menn rugli saman rökstuddum skoðunum við fordóma eins og mér fannst koma fram í máli hv. talsmanns Sjálfstfl.

Sumir hv. þingmenn, eins og t.d. hv. 2. þm. Vestf. sem talaði áðan, ræddu jafnvel um stóriðjumengun eins og um meinhollt fyrirbrigði væri að ræða. Ég verð að segja að ræða hans var satt að segja furðuleg. Ég vil líka lýsa undrun minni yfir athugasemdum a.m.k. tveggja ræðumanna þess efnis að þessi umræða sé ekki tímabær. Það er meira en ár síðan skýrsla Hönnunar hf. um umhverfismat kom fram og nokkrar vikur síðan tillaga Hollustuverndar að starfsleyfi kom fram og heitar umræður hafa staðið í margar vikur svo að þessi umræða var sannarlega tímabær.

Innlegg hæstv. iðnrh. kom ekki á óvart. Hann beitir óspart fyrir sig tölum um gróða og hagvöxt en lætur ógert að velta fyrir sér hver hagnaðurinn getur verið af því að beina áherslum að visthæfari leiðum. Hann sér hjálpræðið í stóriðjuverum og gaf jafnvel til kynna að þau drægju að sér ferðamenn og sumarbústaðaeigendur. Mér stendur reyndar hálfgerð ógn af þeirri hugsun og þeim viðhorfum sem fram koma í máli hans. Af einhverjum ástæðum kom mér í hug sagan um hestaeigandann sem vildi kanna hvað hann kæmist af með lítið fóður handa hestinum sínum. Tilraunin gekk vel þangað til hesturinn drapst. Við höfum ekki efni á tilraunastarfsemi í þessum efnum, herra forseti, því að tilraunin gæti endað með ósköpum.

Nokkrir þeirra sem hér töluðu bentu á að við ættum að treysta sérfræðingum okkar og það sagði m.a. hæstv. umhvrh. og það hefur hæstv. iðnrh. ítrekað sagt. En þeir treysta bara sumum sérfræðingum en ekki öðrum. Við eigum ekki bara sérfræðinga hjá Hönnun hf. sem vann umhverfismatið eða hjá Hollustuvernd ríkisins. Við eigum líka sérfræðinga í Náttúruverndarráði og við eigum sérfræðinga í ferðaþjónustu, í landbúnaði og þar á meðal í lífrænni ræktun og við eigum fjölda líffræðinga sem deila áhyggjum með þessum sérfræðingum og með fólkinu í nágrenni Grundartanga. Líffræðingafélag Íslands hélt t.d. ráðstefnu í nóvember sl. um kolefnisbúskap Íslendinga og þátt hans í vaxandi gróðurhúsaáhrifum sem eru af mörgum talin mesta umhverfisógnun sem mannkynið á við að glíma. Þetta er t.d. skoðun ráðamanna í Bandaríkjunum. Um það vitna m.a. orð hins nýja utanrrh. Bandaríkjanna, Madeleine Albright, sem rætt var við á CNN-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi. Sama er uppi á teningnum hjá vísindamönnum og ráðamönnum víða um heim og við getum ekki sagt pass í þeirri umræðu. Við eigum að sýna fordæmi.

Ráðstefna Líffræðingafélagsins ályktaði m.a. um nauðsyn þess og mikilvægi að stjórnvöld og almenningur vinni markvisst og á raunhæfan hátt að takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Áform stjórnvalda ganga því miður þvert á þau markmið og eru í andstöðu við þá ímynd sem við viljum að land okkar og þjóð hafi í augum umheimsins.

Herra forseti. Svör hæstv. umhvrh. ollu mér vonbrigðum. Ég hafði vonast til að hann nýtti þetta tækifæri til að sýna það og sanna til hvers umhvrn. var stofnað en svör hans eru í takt við stefnu stjórnvalda sem ég lýsti í upphafi máls míns. Hann er talsmaður hinnar hóflegu stóriðju, eins og ég sá einhvers staðar eftir honum haft, og aumt er það hlutskipti umhvrh. Það vekur athygli í allri þeirri umfjöllun sem verið hefur undanfarna daga þegar send er út fréttatilkynning frá Hollustuvernd ríkisins með upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi og hvernig hún skiptist milli greina. Þær upplýsingar eru reyndar ekki nýjar af nálinni en er greinilega ætlað að draga úr áhyggjum fólks vegna mengunar frá álvinnslu í anda þess fræga málsháttar að svo mál böl bæta að benda á annað verra.

Því miður hefur sú mengun sem sannarlega er gríðarleg frá umferð bíla, flugvéla og skipa ekki virst mikið áhyggjuefni stjórnvalda til þessa. En vissulega þurfum við að bregðast við þeirri mengun með öllum tiltækum ráðum og þar er mengun af völdum ferðaþjónustu ekkert undanskilin. En það veitir stjórnvöldum enga fjarvistarsönnun í álmálinu, alls enga.

Herra forseti. Þessu máli er ekki lokið. Athugasemdir vegna tillögu Hollustuverndar um starfsleyfi fyrir álver á Grundartanga eru enn til umfjöllunar. Hæstv. umhvrh. á eftir að segja sitt síðasta orð bæði í þessari umræðu og í umfjöllun sinni um tillögur Hollustuverndar. Hver sem niðurstaðan verður hefur öll þessi umfjöllun og umræða verið til góðs. Framtak og samstaða fjölmargra af íbúum í nágrenni Grundartanga er lofsverð. Hún hefur vakið marga til umhugsunar og vitundar um lýðræðislegan rétt og ábyrgð okkar allra á umhverfi okkar. Að því leyti a.m.k. hafa þeir haft erindi sem erfiði.