Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:43:45 (2850)

1997-01-29 15:43:45# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:43]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er allt í lagi að tala um heimskommúnisma og hv. þm. Ragnar Arnalds má gjarnan vera sósíalisti fyrir mér og Alþb. má gjarnan vera sósíalískur flokkur fyrir mér. Ég er bara ósammála þeirra skoðun og ég er ósammála því hvernig þeir vilja umgangast eignarréttinn. Auðvitað takmarkast eignarrétturinn af eignarrétti einhvers annars. En það sem um er að ræða í þessu frv. er að breyta þeim eignarrétti sem íslenskir bændur hafa haft á sínu landi í gegnum aldirnar og takmarka þær bætur, þær fullu bætur, sem á að veita þegar eign er tekin af eiganda sínum. Það er það sem er um að ræða. Og undir lok ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds kemur það auðvitað fram að hann bölsótast út í séreignarstefnuna sem allt er að kúga og það er í samræmi við hans sósíalísku hugsun og sósíalísku stefnu hans flokks og ekkert um það að segja annað en það að það er gott ef menn eru hreinskilnir og eru tilbúnir að standa á þeirri skoðun. Ég er bara ósammála þeirri skoðun.