Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:45:04 (2851)

1997-01-29 15:45:04# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Af því að mér hefur nú um langan aldur verið mjög hlýtt til hv. þm. Árna M. Mathiesens þá finnst mér frekar dapurlegt að sjá hann í því hlutverki sem hann lék hérna áðan. Þessi vaski víkingur Sjálfstfl. sem áður var aldrei hræddur hjörs í þrá er skyndilega farinn að skjálfa í hnjáliðunum. Hvað er það sem vekur ótta hans? Jú, ótti hans stafar af því að hann sér að fram undan kunni að vera samruni jafnaðarmanna á Íslandi og það kynni að leiða til þess að sá flokkur sem hann hefur leynt og ljóst reynt að leiða í Reykn. verði ekki forustuflokkur í kjördæminu ef tekst að ná jafnaðarmönnum saman innan þeirra flokka sem er að finna á Íslandi í dag og líka utan þeirra. Hv. þm. talar mjög um að í frv. sem liggur fyrir frá Ragnari Arnalds og fleiri hv. þm. sé mjög mengandi sósíalismi. Í frv. er ýmislegt að finna sem ég er ekki alveg sammála en þar er líka að finna það grundvallaratriði sem ég hygg að gangi mjög í sameiningarátt með jafnaðarmönnum allra flokka. Ég held að þau grundvallaratriði sem er að finna í 1. mgr. hnígi mjög að því sem Alþfl. hefur talað um á þessu þingi og á undangengnum þingum og lagt fram frv. í þá veru sem þingflokkur jafnaðarmanna hefur lýst fylgi við.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen verður tíðrætt --- það má gefa honum það að hann reynir mjög oft að halda sig við grundvallaratriðin í stjórnmálum --- um einkaeignarréttinn og sameignarréttinn. En meira að segja hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur sjálfur stutt frv. til laga sem gerðu ráð fyrir breytingum á stjórnarskipunarlögum þar sem var verið að herða sameignarrétt á auðlindum. Ég vek eftirtekt hv. þm. á því að við studdum sömu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, sem lagði fram frv. tveimur dögum áður en þingi lauk árið 1995 þar sem gert er ráð fyrir að ótvírætt ákvæði væri sett inn í stjórnarskrána um að nytjastofnar á hafsvæðinu sem fullveldisrétturinn næði til væri sameign íslensku þjóðarinnar. Þar með var hv. þm. Árni M. Mathiesen í rauninni að lýsa því yfir í verki að sameignarrétturinn er stundum farsælli en séreignarrétturinn.

Um þetta frv., herra forseti, er það að segja að margt í því er gott og margt í því getum við jafnaðarmenn stutt. Eins og kemur fram í máli hv. flm. ber frv. það með sér að vera ekki samið í gær og hefur sennilega verið flutt fyrst fyrir einum eða tveimur áratugum. Þessa roskna yfirbragðs gætti líka í framsögu hv. þm. Ragnars Arnalds. Ég hjó eftir því að þegar hann sagði að ef til vill þyrfti að skilgreina hugtök í þessu frv., þá þyrfti ef til vill að skilgreina líka svolítið betur sum hugtök sem hv. þm. notaði. Ég velti því fyrir mér hvort það væri vegna fortíðar hans eða vegna þess að hann hefur ef til vill mælt nokkrum sinnum fyrir þessu ágæta frv. að hann notaði hugtök eins og ,,hin kapítalísku lönd`` í framsöguræðu sinni. Miðað við þær breytingar sem hafa nú orðið á alþjóðavettvangi þætti mér vænt um að á síðari stigum þessarar umræðu lýsti hv. þm. því frekar fyrir mér hver hin kapítalísku lönd eru og hver eru ekki hin kapítalísku lönd. Þýddi það öll lönd í heiminum nema Kúbu? (RA: Eru þau horfin, kapítalísku löndin?) Nei, en ég held að þörf sé á því að hv. þm. skýri þetta betur og það má gagnálykta sem svo út frá þessu frammíkalli og umorða spurninguna: Eru hin sósíalísku lönd horfin nema ef til vill Kúba?

Það er rétt hjá hv. þm. Árna M. Mathiesen að verið er að fjalla um grundvallaratriði. Honum tókst að vísu að teygja umræðuna út í allt aðra bithaga en þá sem hægt er að segja að falli undir grundvallaratriði. Þetta er innlegg, eins og hv. flm. sagði, í þá umræðu sem er í gangi og mun fara í gang miklu harðar á næstu missirum um hvernig eignarhald á auðlindum á að vera á Íslandi. Ég get sagt það alveg tvímælalaust að þau viðhorf sem er að finna í 1. mgr. frv. eru mér mjög að skapi. Þau falla mjög nálægt því sem þingmenn Alþfl. á undangengnum árum hafa verið að flytja. Að því er varðar eignarhald á auðlindum í jörðu, á yfirborði jarðar og í hafinu þá renna viðhorf jafnaðarmanna innan Alþfl., Þjóðvaka og Alþb. í mjög samliggjandi farvegum, ef ekki hinum eina og sama farvegi. Ég hins vegar segi að ýmislegt er í þessari 1. mgr. sem ég er ekki að öllu leyti sammála. Það er til að mynda talað um að sameign þjóðarinnar eigi að ná til orku og rennandi vatns og jarðhita neðan við 100 metra dýpi. Hér kom fram í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur áðan að áður hefur verið reifað og rökstutt af málflytjendum Alþfl. að kannski er erfitt að sjá hin sérstöku rök sem styðja nákvæmlega þessi mörk. Hvers vegna 100 metra en ekki 150 metra eða 50 metra? Ég tel að farsælla sé að fara þá leið sem hefur verið lögð til í frv. sem Alþfl. hefur flutt á síðustu þingum og m.a. á síðasta þingi. Gjörvallur þingflokkur Alþfl. flutti frv. til laga um virkjunarrétt vatnsfalla og líka um eignarhald á auðlindum í jörðu. Þar er t.d. hitaorku í jörðu skipt í tvennt. Annars vegar lághitasvæðin, sem taka þá til orkulinda sem eru á innan við 1.000 metra dýpi og undir 200° hita. Háhitasvæðin eru hins vegar þau sem eru fyrir ofan 200° hita. Við teljum að réttara sé að fara þá leið að lághitasvæðin fylgi landareigninni, þau fylgi sem sagt séreignarréttinum og þar með grunnvatnið líka. Við teljum hins vegar fortakslaust að háhitasvæðin eigi að tilheyra ríkinu og ekki sé heimilt að nýta orku háhitasvæða nema með heimild ríkisins.

Það má segja að þarna séum við og hv. þm. Ragnar Arnalds og þeir flm. sem honum fylgja afskaplega nærri hver öðrum. Það er ekki hægt að segja að þarna sé grundvallar\-ágreiningur á milli flokkanna. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hv. þm. Árni M. Mathiesen segir: Kemur ef til vill fram í þessu frv. það sem getur sameinað jafnaðarmenn? Já. Það sem ég geri hins vegar greinarmun á við flm. er nákvæmlega sama atriði og hv. þm. Árni M. Mathiesen festi sinn krók hvað kirfilegast í, þ.e. sá málsliður 2. mgr. 1. gr. frv., þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, er ekki skylt að taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni`` o.s.frv.

Ég er algerlega ósammála þessu. Þarna er ég sammála hv. þm. Árna M. Mathiesen. Ég vek líka eftirtekt hv. þm. Ragnars Arnalds á því að ég tel það algerlega óframkvæmanlegt að hafa í gildi lög sem orðast svona: ,,...er ekki skylt ...`` Hvað þýðir það? Þýðir það að í einu sveitarfélagi borga menn hæstu bætur en í öðrum ekki? Þetta er ónákvæmt orðalag sem gengur ekki í verklegri framkvæmd.

Ég bendi hv. þm. á að það er ýmislegt fleira sem ég hef um þetta frv. að segja en ég ætla ekki að gera það að svo stöddu vegna þess að ég hef fallist á það við forseta að stytta mál mitt til að hér megi koma fram atkvæðagreiðslu. En í grundvallaratriðum segi ég að hin stóru efni þessa frv. eru mér afskaplega hugnanleg.