Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:17:29 (2897)

1997-01-30 12:17:29# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að það orkar tvímælis að það þjóni upplýsandi eða fræðandi tilgangi að halda þessari rökræðu áfram, sérstaklega við hv. framsóknarmenn. Mér finnst einhvern veginn hálfpartinn eins og þeir framsóknarmenn hafi ákveðið að jörðin sé flöt og þegar þeim er bent á ýmis rök fyrir því að hún sé ekki flöt, þá segja þeir bara: Jú, víst. Það er bannað að veðsetja kvóta, segja hv. þm. Framsfl. og þegar þeim er bent á að í reynd þýði þetta altæka veðsetningu aflaveiðiheimilda á skipum, sem lánað er út á, þá segja þeir: Jú, víst. Það er víst bannað. Þetta er þannig málflutningur. Og auðvitað er stórbrotið að Reykjanesdeild Framsfl., sem mótaði sér sína eigin sjávarútvegsstefnu og ætlaði að færa heilmikið af veiðiheimildum yfir á báta, ef ég man rétt, af öðrum skipum, er svo á móti veðsetningu kvóta --- er það ekki rétt munað að Reykjanesdeildin hafi sérstaklega verið á móti veðsetningu kvóta? --- komi svo hér og hrósi sigri. Sigurinn í málinu er sá að þetta er bæði leyft og bannað eða bannað og leyft, í þeirri röð. Auðvitað er þetta alveg ótrúlegur orðaleikur, herra forseti.

Hvað er veðsetning í eðli sínu? Hvað þýðir veðsetning á húsi? Hún þýðir í reynd það sama og hér, að það er bannað að selja húsið nema með samþykki veðhafans eða að veðið fylgi. Í reynd er venjuleg veðsetning eins og hún gengur fyrir sig úti í þjóðfélaginu ígildi nákvæmlega hins sama og þetta frv. er að færa yfir í sjávarútveginn, ekkert annað í reynd. Það verkar þannig. Menn geta endalaust skotið sér á bak við einhver orð á pappír og farið í orðaleiki eins og hv. þm., sérstaklega Framsfl., gera hér. Hæstv. sjútvrh. snýr út úr þessu á annan hátt með því að draga framsalið inn í þetta mál. Þetta er sem sagt svona, herra forseti. Það er í raun algjörlega verið að lögvernda stöðu lánveitendanna með þessari útfærslu. Það verður því ekkert um það deilt að þetta er á allan hátt ígildi þess að heimila beina veðsetningu á kvóta.