Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:47:20 (2951)

1997-01-30 16:47:20# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:47]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér ofbauð málflutningur síðasta ræðumanns, hv. þm. Tómasar Inga Olrich. Hann sagði réttilega að auðlindin væri ekki auðlind eða væri ekki nýtt nema til kæmu skip og útgerðarmenn. En það þarf líka sjómenn og aflinn kæmist ekki á land ef þeir væru ekki við vinnu. Við heyrum að sægreifunum sé farið að líða illa undir þeim málflutningi sem er í þjóðfélaginu. En er það nokkuð skrýtið þegar þeir eru að verða, ekki bara milljónamæringar heldur milljarðamæringar. Hér er ég t.d. með blað sem greinir frá því að einn eignaðist 105 milljónir bara á því að selja frá sér síldarkvóta sem hann fékk úthlutað þó hann hafi ekki stundað síldveiðar liðin ár. Já, þessum sægreifum hlýtur að líða illa. Og er það nokkuð skrýtið? Þeir borga 200 millj. kr. í tekjuskatt. Ríkið greiðir 1,5 milljarða í laun til sjómanna vegna sjómannaafsláttar. Þeir afskrifa kvótakaup á fimm árum þó það megi færa rök fyrir því að kvótinn vaxi í verði. Þeir láta sjómenn greiða kvótann en hirða svo arðinn sjálfir þegar þeir selja hann. Þessir útgerðarmenn svífast einskis og stökkva jafnvel frá borði og selja kvótann frá heilu byggðarlögunum. Þó að miðað sé við veiðireynslu þá eiga auðvitað sjómenn og byggðirnar að koma þar að líka. Frv. festir í sessi þetta fáránlega kerfi sægreifa og ég held að þeim mundi líða best sjálfum ef þessu kerfi yrði breytt. Það mun aldrei nást sátt um það. Þetta frv. er skref í þá átt að festa núverandi lög um stjórn fiskveiða í sessi og þess vegna verður að breyta 3. gr. þess.