Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:27:11 (2968)

1997-01-30 17:27:11# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:27]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þær umræður sem hafa farið hér fram í dag eru um margt athygli verðar og hafa um flest verið málefnalegar. Það eru einkanlega tvö atriði og álitaefni sem standa upp úr eftir þessa umræðu. Annað þeirra er lögfræðilegt en hitt er hreint pólitískt álitaefni.

Það atriði sem er lögfræðilegt er sú fullyrðing sem hér hefur komið fram hjá þó nokkrum þingmönnum að ákvæði frv. um að takmarka framsal á aflaheimildum við tiltekin skilyrði feli í sér að 1. gr. frv. um stjórn fiskveiða veikist og eignarréttur útgerðarmanna á aflaheimildum styrkist. Þeim sem komu með þennan málflutning hefur ekki tekist að sýna fram á neitt rökrænt samhengi hér á milli. Það hefur engum hv. þm. tekist að sýna fram á að takmörkun á framsali aflaheimilda veiki 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Fyrir þá sök falla fullyrðingar af þessu tagi dauðar niður, a.m.k. að svo stöddu meðan rökin eru ekki færð fram. En þessi gagnrýni hefur einvörðungu byggst á því ákvæði frv. að takmarka framsalið. Ég hygg að flestir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að takmörkun á framsali getur ekki falið í sér að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna veikist. Þetta er það lögfræðilega álitaefni sem við höfum staðið frammi fyrir og menn eru ekki á eitt sáttir um eftir þessa umræðu, en mér sýnist að niðurstaðan sé mjög skýr ef menn vilja beita málefnalegum rökum í umræðunni.

Hitt atriðið sem er pólitískt lýtur að því hvort skynsamlegt sé eða rétt að tryggja öryggi í viðskiptum í sjávarútvegi með sama hætti og í öðrum atvinnugreinum. Ég skil auðvitað að um það geta verið skiptar skoðanir. Hér hafa menn sagt: Það á ekki að verja stöðu bankanna í þessu falli. Það er eðlilegt að verja stöðu bankanna gagnvart lánum til allra annarra, en það á ekki að gera það gagnvart sjávarútveginum. Auðvitað geta menn haft þessa pólitísku skoðun og fært fyrir henni ákveðin rök. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að gilda jafnræði í þessu efni. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að veita þjónustugreinunum og iðnaðinum forréttindi í viðskiptalífinu með því að tryggja þeim ákveðið öryggi en ekki sjávarútveginum. Ég er þeirrar skoðunar að koma eigi höndum á braskara í sjávarútvegi eins og í öðrum atvinnugreinum. Það eigi ekki að leyfa þeim að ganga lausum í sjávarútvegi en taka á þeim í öðrum atvinnugreinum. En forustumenn samfylkingar jafnaðarmanna sem hér hafa talað hafa lýst þeirri skoðun sinni að það eigi að mismuna í þessu efni, taka eigi á bröskurum í þjónustugreinunum og iðnaðinum en leyfa þeim að ganga lausum í sjávarútveginum. Og forustumenn samfylkingar jafnaðarmanna hafa lýst því yfir að minna öryggi í lánveitingum eigi að vera til sjávarútvegs en til iðnaðar- og þjónustugreinanna sem eru fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðin.

[17:30]

Afleiðingin af þessu er sú, eins og hér hefur komið fram og hv. 15. þm. Reykv. vakti réttilega athygli á, --- hann flytur yfirleitt málefnalegar ræður og er einn af þingmönnum samfylkingar jafnaðarmanna sem gerir sér grein fyrir afleiðingunni af þessari stefnumörkum og hún er sú að bankar munu síður lána til sjávarútvegsfyrirtækja. Í þeim tilvikum sem það er gert munu vextirnir hækka af því að áhættan er meiri. Þetta mun veikja sjávarútveginn gagnvart þjónustugreinunum. Kannski er þessi pólitíska afstaða tekin af því að atkvæðamarkaðurinn er stærri á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekkert um það. Ég get ekki sagt neitt til um það. Það gæti verið ein skýringin að samfylking jafnaðarmanna vildi gera þetta af því að atkvæðamarkaðurinn er stærri þar sem þjónustugreinarnar eru.

Það liggur líka ljóst fyrir að þetta mundi leiða til þess að landsbyggðin stæði verr að vígi af því að sjávarútvegurinn er ein aðaluppistaðan í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Eins og hv. 15. þm. Reykv. benti réttilega á eiga stóru fyrirtækin í sjávarútveginum hægar um vik að verða sér úti um fjármagn með útboði á skuldabréfum og með útboði á hlutafé. Minni fyrirtækin þurfa meira á bönkunum að halda og þau eru síður þekkt í bönkunum. Bankarnir þekkja stóru fyrirtækin og þeir þekkja síður einstaklingana sem gera út minni bátana og trillukarlana og verða þess vegna frekar að fá veð hjá þeim til þess að tryggja öryggi sparifjáreigendanna. Þessir aðilar verða undir. Það er auðvitað athyglisvert að í því pólitíska álitaefni sem uppi er skuli samfylking jafnaðarmanna reyna að skapa þjónustugreinunum forréttindi og láta halla á sjávarútveginn og landsbyggðaratvinnuvegina. Það kemur mér að vísu ekki alveg á óvart af því að það er mjög í samræmi við stefnumörkun samfylkingarinnar á öðrum sviðum sem einnig hefur þessi sömu áhrif. En þetta er auðvitað kjarninn í þeim pólitíska hluta deilumálsins sem hér stendur uppi og er auðvitað mjög athyglisvert á hvern veg forustumenn samfylkingarinnar tala í þessu efni, ef undan eru skildir hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 15. þm. Reykv., sem greinilega hafa kynnt sér þetta mál betur og gera sér betri grein fyrir því hver afleiðing þessarar stefnumörkunar er, ef þetta næði fram að ganga, þeirra hugmyndir sem hér hafa verið settar fram.

Herra forseti. Ég hef þá vikið að þeim tveimur stóru atriðum sem hafa staðið upp úr sem ágreiningsatriði í þessari umræðu. Annað er lögfræðilegt, hitt er pólitískt. Það liggur alveg skýrt fyrir hver eru hin pólitísku markmið hinnar nýju samfylkingar og hvaða afleiðingar sú pólitíska stefna hefur fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og atvinnustarfsemina á landsbyggðinni. (Gripið fram í.) Það má vel vera að eðlilegar skýringar séu á því að samfylkingin geti réttlætt það fyrir sjálfri sér að skapa þjónustugreinunum meiri forréttindi og veikja sjávarútveginn. Það getur vel verið að það sé einmitt vegna þess að þeir telja að atkvæðamarkaðurinn sé stærri þar sem þjónustugeirinn er. En burt séð frá því tel ég óeðlilegt að gera slíka mismunun á milli atvinnugreina og ég tel óeðlilegt að setja löggjöf sem felur í sér að taka eigi á skúrkum í einni atvinnugrein en leyfa þeim að ganga lausum í annarri. Og hér eru bara skiptar pólitískar skoðanir. Þetta er mín pólitíska skoðun. Ég virði það auðvitað að aðrir hv. þingmenn hafa gagnstæð sjónarmið en menn verða að gera sér fulla grein fyrir því hverjar afleiðingarnar mundu verða ef þær fengju brautargengi og meiri hluta á Alþingi.