Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:05:40 (3008)

1997-02-03 16:05:40# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur vakið athygli undanfarið að núverandi ríkisstjórn neitar að viðurkenna þá staðreynd að það er fátækt í landinu. Auðvitað er til hópur sem hefur búið við vaxandi kaupmátt en hann er líka stór hópurinn sem býr við hreina fátækt. Og jafnvel hefur hæstv. forsrh. sagt við þá sem vekja athygli á þessari staðreynd að þeir fari þar með órökstutt mál. En staðreyndirnar tala nú sínu máli og þúsundir manna búa við mjög vond kjör, lág laun, vaxandi skuldir, háa jaðarskatta, langan vinnudag og síauknar álögur í formi þjónustugjalda. Þjónustugjöld hafa aukist um tvo milljarða króna frá árinu 1991 í tíð þessarar og síðustu ríkisstjórnar. Efnahagsstefna ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. hefur ekki falið í sér nein fyrirheit fyrir láglaunafólkið í aðdraganda kjarasamninga. Þvert á móti er stefna ríkisstjórnarinnar sú að stjórnendur stofnana noti mátt sinn og megin á tímum atvinnuleysis til að brjóta niður samtakamátt launafólks með því að mismuna því í launagreiðslum. Að mati ríkisstjórnarinnar eiga laun starfsstétta ekki að vera sameiginlegt baráttumál heldur á hver að hugsa um sig, laun hvers einstaklings eiga að vera hans einkamál. Stefnt er að því að brjóta niður samkennd stétta á vinnumarkaðinum en auka á samkeppni og sundrung. Og ástandið er ekkert betra hjá hinu opinbera en það er á almenna vinnumarkaðinum þar sem ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gera beinlínis ráð fyrir því að brjóta niður samkennd og samtakamátt starfsmanna ríkis og bæja og forustumönnum þessara stofnana er með lögum uppálagt að mismuna starfsfólki í launum, jafnvel innan sömu stétta. Rök Sjálfstfl. og Framsfl. og atvinnurekenda fyrir þessari breytingu eru þau að allar þeirra aðgerðir miði að hagkvæmni í rekstri, betri afkomu fyrirtækja og stofnana. Allri samkennd og samstöðu launafólks á og má fórna á altari hagstjórnarfulltrúa frjálshyggjunnar.

Afleiðingar þessarar stefnu hafa ekki látið á sér standa. Launabilið hefur vaxið, fátækt og atvinnuleysi hefur aukist og staða þeirra sem minna mega sín er veikari nú en hún hefur verið um áratugi. Í þessu samfélagi samkeppninnar er varla gert ráð fyrir fólki sem býr við skerta starfsorku vegna veikinda og/eða fötlunar. Og það launafólk sem hefur fulla starfsgetu og vinnur myrkranna á milli til þess að framfleyta sér og sínum lendir í gífurlega háum jaðarsköttum þannig að ráðstöfunartekjurnar eru í engu samræmi við vinnutímann.

Ríkisstjórnin hrósar sér af stöðugleika og jákvæðri þróun efnahagslífsins. Stöðugleika sem felur í sér misrétti, ójöfnuð, vaxandi fátækt, vaxandi spennu á vinnumarkaðinum, vaxandi ólgu í þjóðfélaginu sem m.a. hefur í för með sér aukið ofbeldi og aukna neyslu hvers konar vímuefna. Stöðugleika sem felur í sér að skuldir heimilanna vaxa og stöðugleika sem felur í sér að æ fleiri fjölskyldur og einstaklingar þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda þrátt fyrir allar fullyrðingar um kaupmáttaraukingu. Þetta er sá veruleiki sem launafólk stendur frammi fyrir nú við gerð kjarasamninga. Í þjóðarsáttarsamningunum sem voru gerðir 1990 þar sem fulltrúar ríkis, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sameinuðust um lausnir sem leiða mættu til batnandi efnahags þjóðarinnar, skuldbundu aðilar sig til ákveðinna verka til að ná settu marki. Enginn gaf jafnmikið eftir í þeim samningum og launafólkið sjálft með því skilyrði þó að þegar betur áraði kæmi það fram í auknum launagreiðslum til þeirra hópa sem að samningunum stóðu.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja hefur lagast verulega frá því að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir. Það sést vel þegar ársreikningar fyrirtækja eru skoðaðir, þ.e. hjá þeim fyrirtækjum þar sem reikningar eru á annað borð opinberir. En mikið skortir á að eðilegar og sjálfsagðar upplýsingar liggi fyrir hvað varðar rekstur fyrirtækja hér á landi. Talsmenn atvinnurekenda halda því gjarnan fram að framleiðni og afkoma íslenskra fyrirtækja sé að meðaltali frekar slök og því beri atvinnulífið ekki miklar launahækkanir. Það má til sanns vegar færa að íslenska hagkerfið einkennist af meðaltali lítillar framleiðni og litlum virðisauka. Fyrirtækin eru mörg og smá og óhagkvæmar rekstrareiningar og það er ljóst að þarna verður að taka til hendinni, endurskipuleggja og búa til hagkvæmari einingar. Að þessu hefur ekki verið unnið sem skyldi og það má þá velta fyrir sér hvort að það þjóni ekki áróðri atvinnurekenda og stefnu þessarar ríkisstjórnar að viðhalda ákveðnum fjölda óhagkvæmra rekstrareininga í þeim tilgangi að halda niðri meðaltali framleiðni og virðisauka, meðaltali heildarafkomu atvinnulífsins og nota það sem vopn í baráttunni við verkalýðshreyfinguna. Staðreyndin er engu að síður sú að hagur velflestra fyrirtækja hefur batnað verulega en sá bati hefur ekki skilað sér til launafólks og manni virðist að stefnan sé sú að enn skuli launafólkið bíða.

Á undanförnum árum hefur bilið milli þeirra sem búa við lægstu launin og þeirra sem mest hafa breikkað verulega. Gögn Þjóðhagsstofnunar sýna glöggt hversu stórt launabilið er og það er í raun fámennur hópur sem hirðir megnið af þeim heildarlaunum sem greidd eru. Þannig taka rúmlega fimm þúsund manns í hópi þeirra hæstlaunuðu til sín tekjur sem um 54 þúsund manns í lægstu hópunum þurfa að skipta á milli sín. Og hvor skyldi nú hafa grætt meira á kaupmáttaraukningunni? Þetta er óþolandi ójöfnuður sem ríkisstjórnin ýtir kröftuglega undir með stefnu sinni og þetta gerist þó að fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna verði tíðrætt um stöðugleika og góðæri og þeir neita að horfast í augu við að vandamálin blasa við.

Atvinnuleysið er mikið og því vandamáli ætlar ríksstjórnin að mæta með því að skerða kjör atvinnulausra verulega frá því sem nú er. Þær skerðingar sem framkvæmdar hafa verið á síðustu árum á kjörum atvinnulausra og þær skerðingar sem hafa verið boðaðar eru fyrir neðan allt velsæmi og byggja að miklu leyti á hæpnum kenningum sem eru skrumskældar ákvarðanir annarra þjóða. Þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnulausa bitna sérstaklega harkalega á ungu fólki og konum. Þetta eru ákvarðanir sem byggja á þeim skilningi ríkisstjórnarinnar og hennar fylgifiska að það séu þeir atvinnulausu sem eru vandamálið en ekki atvinnuleysið sjálft.

Kjör aldraðra, öryrkja og sjúklinga hafa verið skert verulega með lækkun bóta, hækkun lyfjakostnaðar, með skertri þjónustu heilbrigðis- og tryggingakerfis og með óréttlátri tekjutengingu bóta þar sem viðmiðunarmörkin varðandi skerðinguna eru svívirðilega lág. Það má með sanni segja að enginn hópur hafi orðið eins illa úti í tíð þessarar ríkisstjórnar og aldraðir og öryrkjar. Aldraðir, öryrkjar og sjúklingar eiga enga aðild að því þegar vélað er um kaup þeirra og kjör. Hagsmunasamtök þessara hópa eru sjaldnast kölluð til þegar ákvarðanir er þá snerta eru teknar þó engir hafi búið við eins tíðar breytingar á kjörum sínum á síðustu árum. Það er því fyllilega eðlileg krafa að fulltrúar þessara samtaka komi að samningum um kaup sitt og kjör rétt eins og fulltrúar annarra samtaka launafólks. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Er hann tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að svo megi verða? Við höfum engan rétt til að ráðskast með kjör þessa launafólks eins og gert hefur verið.

Það eru fleiri hópar sem liggja utan garðs hjá þessari ríkisstjórn en aldraðir og öryrkjar. Það óréttláta skattkerfi sem hér er við líði bitnar af fullri hörku á ungu fjölskyldufólki sem er að koma undir sig fótunum og eignast húsnæði. Hér er um að ræða aukna skattbyrði vegna fyrirkomulags tekjuskatta, barnabóta og húsnæðis- og vaxtabóta sem hefur breyst mjög launafólki í óhag frá því að núgildandi skattkerfi var tekið upp. Hækkun tekjuskatts og lækkun barnabóta hefur rýrt kaupmátt hjóna með tvö börn um 5% frá árinu 1988 fram til dagsins í dag. Jaðarskattar hjóna með tvö börn, meðaltekjur og 3 millj. kr. húsnæðislán hafa hækkað úr 48% á árinu 1988 upp í rúmlega 57% í dag.

Þá samþykkti Alþingi við fjárlagaafgreiðslu fyrir síðustu áramót að halda persónuafslætti óbreyttum sem þýðir aukna skattbyrði, en það sem sparaðist átti þó að nota til þess að lagfæra þessa stöðu með jaðarskattana. Þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs hafi á síðustu tveimur árum aukist um 10 milljarða kr. var ekki svigrúm til þess að lækka jaðarskattana. Á sama tíma samþykkti Alþingi líka ýmsar breytingar á skattamálum fyrirtækja sem t.d. tengjast meðferð á tapi, sem þýddi að fyrirtækin þurfa að skila mun minni sköttum en ella til samfélagsins. Þetta dæmi sýnir vel á hve rangri braut ríkisstjórnin er. Á tímum þegar rekstur fyrirtækja í landinu gengur yfirleitt vel og hlutabréfavísitölur æða upp úr öllu valdi kýs ríkisstjórnin að hækka skattbyrði á almennt launafólk og lækka skattbyrði fyrirtækjanna. Þetta var áramótakveðjan sem ríkisstjórnin sendi launafólki í aðdraganda kjarasamninga.

[16:15]

Annað svið sem stjórnvöld hafa notað til að skerða kaupmátt launafólks eru heilbrigðismálin. Þátttaka sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði samfélagsins hefur aukist úr 20% frá árinu 1990 upp í 35% nú. Útgjöld sjúklinga vegna lyfjakaupa hafa aukist um 158% frá árinu 1990 og útgjöld sjúklinga vegna læknishjálpar hafa hækkað um 340% frá árinu 1988. Þessar tölur sýna einnig vel á hvaða leið samfélagið er. Á síðustu árum hefur samhjálp og samtrygging í heilbrigðismálum minnkað verulega. Þetta er allt framkvæmt í nafni erfiðleika í ríkisfjármálum og menn loka augunum fyrir því hvernig tekjur ríkissjóðs eru nýttar.

Breytingar á vinnulöggjöfinni sem keyrðar voru í gegn á Alþingi liðið vor voru augljóslega liður í þeirri stefnu stjórnvalda að draga úr mætti verkalýðshreyfingarinnar og styrkja stöðu samtaka atvinnurekenda. Breytingarnar voru settar fram í því ljósi að verið væri að auka rétt almennra félagsmanna verkalýðshreyfinganna á kostnað þeirra sem kosnir hefðu verið til forustu. Fátt er í raun fjær raunveruleikanum. Breytingarnar á vinnulöggjöfinni og sú reynsla sem af þeim hefur hlotist sýnir svo að ekki verður um villst vanþekkingu þeirra sem lögin sömdu og ræddu á þeim tíma um stöðu íslensks verkafólks.

Alþb. hefur í öllum sínum málflutningi lagt höfuðáherslu á að fyrstu aðgerðir til lífskjarajöfnunar verði hækkun lægstu launa og það var það sem ég vildi heyra hæstv. forsrh. segja hér áðan. Við tökum undir þær hugmyndir sem komið hafa fram um verulega hækkun á grunntöxtum launafólks, m.a. með því að færa aukagreiðslur af ýmsu tagi inn í grunnlaun og hækka lægstu launin verulega. Alþb. hafnar launakerfum sem byggja á persónulegum samningum í stofnunum og fyrirtækjum og leggur áherslu á að um öll kjör verði samið á félagslegum grunni í kjarasamningum. Það er nauðsynlegt að sátt náist um lausn kjarasamninga á þennan hátt þar sem lægstu launin hækki sérstaklega til að draga úr óheyrilegum launamun. Hátekjufólki ber að sýna biðlund og virða tilraun til að draga úr kjaramisréttinu. Ríkisstjórnin verður að breyta um stefnu og leggja sitt af mörkum til að þessi niðurstaða fáist.