Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:48:14 (3019)

1997-02-03 16:48:14# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. verður að skýra það hvers vegna hann telur að menn séu að tala sig í verkföll. Þarna finnst mér hæstv. forsrh. stilla sér sérstaklega með Vinnuveitendasambandinu sem hefur ekki léð máls á öðru en 10 kr. hækkun á tímakaup verkafólks. Er það það sem hæstv. forsrh. meinti þegar hann aftur og aftur á þjóðarsáttartímanum biðlaði til þjóðarinnar um biðlund og þegar tími efnahagsbata rynni upp þá yrði hluti þeirra 10 kr. hækkun á launatöxtum? Er það gjaldið sem greiða á launafólki fyrir þann mikla fórnarkostnað sem launafólk hefur tekið á sig á þjóðarsáttatímanum, og með hverju? Jú, með gífurlegum skattatilfærslum frá fyrirtækjum til launafólks, með miklum niðurskurði á velferðarkerfinu og skerðingu á bótum lífeyrisþega, með hærri þjónustugjöldum, með litlum sem engum launahækkunum og með gífurlegum vexti á skuldum heimilanna sem hafa hækkað um nálægt 50 milljarða í tíð þessarar ríkisstjórnar. Því hefur fullum fetum verið haldið fram af vinnuveitendum að kröfur verkalýðshreyfingarinnar mundu splundra þjóðfélaginu og setja efnahagslífið á hvolf og leiða til óðaverðbólgu. Hæstv. forsrh. verður að viðurkenna að eitthvað er að ef sú meginkrafa sem nú er uppi að hækka lægst launaða fólkið, sem er með 50--55 þús. kr. á mánuði í 70 þús. kr., setji allt á annan endann í þjóðfélaginu. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hver er afstaða hans til þess að hækka lægstu taxtana í 70 þús. kr.?

Mér finnst það alvarlegt þegar vinnuveitendur með stuðningi hæstv. forsrh. eru að magna upp tortryggni gegn hógværum kröfum verkalýðshreyfingarinnar og gefa allt aðra mynd af kröfunum og áhrifum þeirra á efnahagsstarfið en raunin er. Vinnuveitendur hafa komist upp með að halda því blákalt fram að kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu á bilinu 30--50% launahækkun og verðbólgan fari í 40--50%. Hver eru svo áhrifin á laun, kaupmátt og verðbólgu vegna þessara krafna verkalýðshreyfingarinnar? ASÍ hefur metið að launakostnaðaráhrifin af hækkun lágmarkslauna umfram almenna launahækkun yrði aðeins um 0,3% og heildarhækkun þegar 10 þús. kr. launahækkunin er einnig metin, þá yrði launabreytingin rúm 11% á samningstímanum og verðbólga í kjölfar slíkra samninga er síðan metin að verði á bilinu 2,3--2,5%. Ég tel því, herra forseti, að umræðan um áhrifin af kröfugerðinni sem Vinnuveitendasambandið hefur magnað upp sé úr takt við allan raunveruleika og til þess eins gerð að draga kjarkinn úr launafólki og gera kröfur verkalýðshreyfingarinnar tortryggilegar. Það ásamt miðstýrðu alræðisvaldi þriggja til fimm einstaklinga í Garðastræti sem koma í veg fyrir alla málefnalega umræðu hvað svo sem fyrirtækin sjálf vilja gera til að koma til móts við sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar er orðið með öllu óþolandi. Miðstýringin í Garðastrætinu hefur átt mestan þátt í að skekkja allt launakerfið og ýta undir misskiptingu og óréttlæti í tekjuskiptingunni.

Þessi skoðun mín er einmitt studd í norrænni samanburðarrannsókn um þróun fátæktar á Norðurlöndum, en þar kemur fram að þróun á atvinnumarkaðnum á Íslandi sé eflaust einn stærsti skýringarþátturinn á auknu misrétti og aukinni fátækt í íslensku þjóðfélagi.

Ég tel líka að málið í hnotskurn sé það að vinnuveitendur eru að kynda undir að veikja svo bakland verkalýðshreyfingarinnar með áróðri og blekkingum þannig að öruggt sé að ólög hæstv. félmrh. og verkfallsákvæði vinnustaðalöggjafarinnar komi í veg fyrir að hægt sé að þrýsta á með raunhæfum hætti um raunhæfa niðurstöðu í þessum kjarasamningum.

Herra forseti. Tíkallinn sem VSÍ býður er blaut tuska framan í launafólk. Áform þeirra um fyrirtækjasamninga eru gersamlega ónothæf. Ef vinnustaðasamningar eiga að byggja á trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum, eins og gerist t.d. í Danmörku, þá verður að gerbreyta leikreglunum því að núverandi trúnaðarmannakerfi er gersamlega vanbúið til þess. Tillögur þær sem Vinnuveitendasambandið hefur nú sett fram eru allsendis óásættanlegar enda sniðnar í einu og öllu að hagsmunum fyrirtækja en ekki launafólks. Aðstæður hér eru líka allt aðrar en víða þar sem kjarabætur hafa náðst fram gegnum trúnaðarmannakerfi í fyrirtækjasamningum. 92% fyrirtækja á Íslandi eru smáfyrirtæki með fimm starfsmenn eða færri sem ekki hafa neinn skilgreindan rétt til að hafa trúnaðarmann á sínum vinnustað. Það þarf því að setja lög um rétt trúnaðarmanna eða semja um að skylda sé að þeir séu á hverjum vinnustað, hversu litlir sem þeir eru. Einnig þarf að endurskoða trúnaðarmannakerfið frá grunni og þar á ég við skyldu fyrirtækja til að veita trúnaðarmönnum upplýsingar um rekstur og afkomu fyrirtækja, réttindi varðandi samráð, t.d. við sitt stéttarfélag og aðgang þar að nauðsynlegri, faglegri aðstoð og síðan að tryggja réttarstöðu trúnaðarmanna gagnvart fyrirtækinu og þeir fái fræðslu og menntun til að takast á við nýtt hlutverk. Ljóst er því að gerbreyta þarf öllu trúnaðarmannakerfi verkalýðsfélaganna og styrkja það á margvíslegan hátt ef fyrirtækjasamningar byggðir á trúnaðarmannakerfi eiga að skila einhverjum árangri. Ef raunhæft á að vera að tala um þá í þessari samningslotu verða menn að útbúa nýjar leikreglur hvort sem það eru leikreglur sem settar eru með lögum frá Alþingi eða aðilar semji um þær. Það vantar leikreglur sem eru á jafnréttisgrundvelli fyrir báða aðila til að hægt sé að koma á fyrirtækjasamningum sem skila eiga raunverulegum kjarabótum. Ég spyr hæstv. forsrh. um afstöðu hans til fyrirtækjasamninga og hvort hann sé ekki sammála mér um það að leikreglur á jafnréttisgrundvelli vanti á milli aðila til að þær séu raunhæfar.

Herra forseti. Ef ekki tekst að lyfta verulega lágmarkslaununum í þessum kjarasamningum, sem eru orðin hrein þjóðarskömm eins og allir vita, þá verður Alþingi að grípa í taumana og lögfesta verulega hækkun lágmarkslauna eins og við jafnaðarmenn höfum lagt til.