Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:35:46 (3031)

1997-02-03 17:35:46# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:35]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við erum að tala um mjög viðkvæmt og erfitt mál. Hv. þm. heldur því fram að búið sé að ákveða eitthvað. Það er ekki rétt. Hins vegar eru tölur settar á blað til þess að tala út frá. Þannig eru vinnubrögðin varðandi þetta mál að hugmyndir eru settar niður, síðan eru þær kynntar viðkomandi stofnunum og þeim gefið tækifæri til þess að svara þeim og koma með sitt álit á þeim. Það er sú vinna sem er í gangi. Mér er hins vegar mjög vel kunnugt um að margir forsvarsmenn þessara stofnana telja að þetta samráð hafi ekki verið nægilega gott og mér þykir það miður.