Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:07:56 (3056)

1997-02-04 15:07:56# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:07]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek ekkert mark á fyrirheitum þessarar ríkisstjórnar í þessu máli. Vegna þess að þau eru ekki pappírsins virði meðan þau hafa ekki verið fest í lög eða öðruvísi bundin þannig niður að ekki sé hægt að komast fram hjá þeim. Þau eru ekki pappírsins virði meðan þau eru bara í ræðum hæstv. iðnrh. Þau eru ekki pappírsins virði meðan þau eru bara í nál. frá hv. meiri hluta iðnn. Það er veruleikinn. Þannig að það er alveg nauðsynlegt að hv. þm. sýni fram á að þetta verði örugglega tryggt og að hann hafi ekki látið hafa sig, með leyfi forseta, að ginningarfífli í þessu máli. Vegna þess að ég óttast að hæstv. iðnrh. og aðrir forustumenn stjórnarflokkanna séu í þessu máli að blekkja, að reyna að blekkja til fylgilags við sig hv. þm. Stefán Guðmundsson og fleiri ágæta þingmenn stjórnarflokkanna utan af landi sem sannarlega vilja vel í þessu máli. Og ég skora á þá að nota núna tækifærið til að láta reyna á hinn raunverulega vilja. Því það verður of seint þegar atkvæði hafa verið greidd í þessu máli. Núna, áður en atkvæði hafa verið greidd, hafa þeir vald. Þegar atkvæðagreiðslum er lokið mun vald þeirra verða lítið.