Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:35:59 (3094)

1997-02-04 20:35:59# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:35]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að við erum sammála um öll þessi meginatriði. Við erum sammála um að Ríkisendurskoðun skuli hafa aðgang, eins og ég tel að hún eigi að hafa að þessum eignarhlutum ríkisins þó í sameignarfélagi sé. Það kom auðvitað fram hjá hv. þm. að Ríkisendurskoðun hefur ekki, þrátt fyrir þetta ákvæði, haft þennan aðgang og yfir því hefur verið kvartað. Ég tel að í ákvæðinu í 6. gr. frv. um Ríkisendurskoðun sé verið að tryggja að það nái fram að ganga. Varðandi Samkeppnisstofnun þá er ég tilbúinn til að skoða það en ég tel þó að ákvæði 2. gr. í samkeppnislögunum nái til þessa eftirlitshlutverks Samkeppnisstofnunar. Ég mun skoða það milli umræðna hvort það sé ekki nægjanlega tryggt og ef það er mat þeirra sem gerst til þekkja í þeim efnum að svo sé ekki, þá er ég alveg tilbúinn til að skoða þá breytingu. Við erum sammála um að Ríkisendurskoðun á að hafa eftirlitshlutverkið og Samkeppnisstofnun á að hafa þetta eftirlitshlutverk líka.