Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:29:00 (3122)

1997-02-05 14:29:00# 121. lþ. 62.5 fundur 282. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vil jafnframt þakka þá viðleitni sem uppi er til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laga að þessu leyti. Það er vissulega viðleitni, sem ber að þakka, að sérstakur fulltrúi er að störfum til þess að hafa þarna eftirlit auk þess sem sýslumenn hafa verið aðvaraðir með bréfum. Ég hygg þó að til þess að ná árangri og sporna gegn þeirri tilhneigingu sem er mjög víða að verki og þrátt fyrir að ekki liggi fyrir tölulegar upplýsingar eða kannanir, þá held ég að það sé almenn tilfinning þeirra manna sem fylgjast með þessum málum að það sé mjög rík tilhneiging til að fara yfir þessi mörk og fara í óbeinar a.m.k. ef ekki beinlínis beinar auglýsingaaðgerðir af þessu tagi. Til þess að ná árangri þarf að fá fleiri aðila til samstarfs um þessi mál, að sjálfsögðu lögregluna sem hefur sitt lögbundna hlutverk á þessu sviði en mér sýnist að aðilar eins og til að mynda fjölmiðlar og auglýsingastofur vera á ansi þunnum ís á köflum hvað það varðar að búa til eða birta óbeinar auglýsingar sem eru augljóslega ekkert annað en áfengisauglýsingar.

Hvað er það t.d. þegar í útvarpi birtast auglýsingar um það að nú þurfi ekki að deila um hver sé besta ölstofan í bænum og hvort menn hafi heyrt um verðið, að hálfur lítri kosti nú ekki nema þetta eða lítill þetta og stór þetta. Hvað er verið að auglýsa annað en áfengan bjór og verðið á honum á einum tilgreindum vínveitingastað? Svo að ég nefni hér dæmi án þess að nefna nöfn, þá hygg ég að fleiri en ég hafi heyrt þetta á undanförnum vikum og fjölmörg önnur slík mætti tilgreina þar sem ekkert annað en óbeinar og næstum að segja beinar áfengisauglýsingar eru í gangi. Auðvitað hlýtur ábyrgð fjölmiðla sem birta slíkt og þeirra sem framleiða slíkar auglýsingar líka að vera mikil. Og til þess að reyna að ná árangri í þessum efnum verða yfirvöld að reyna að fá sem allra flesta til samstarfs um að virða þessi ákvæði. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort eigi að banna áfengisauglýsingar eða ekki en meðan skýlaus lagaákvæði banna þær, þá á að framfylgja þeim lögum.

[14:30]