Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:36:07 (3135)

1997-02-05 15:36:07# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er dálítið sérstakt í umræðu sem þessari þegar bornar eru fram fyrirspurnir til hæstv. iðnrh., að þá kýs hæstv. ráðherra að svara þeim ekki í fyrri ræðu sinni heldur geyma þær til loka. Það finnst mér mjög einkennilegt og ósmekklegt af hæstv. ráðherra því að þá er tækifæri mitt til þess að víkja að því ekki mikið.

Spurningin sem við erum að ræða snýst um það hvers konar atvinnustefnu við viljum sjá í þessu landi, hvers konar atvinnuuppbyggingu og hvers konar samskipti við náttúru landsins. Það er kjarni þessa máls sem við erum að ræða og ef menn halda að það sé stóriðja, gamaldags stóriðja sem verið er að reka á dyr í mörgum löndum af ýmsum ástæðum, sem eigi að vera inntakið í atvinnuuppbyggingu á Íslandi þá er ég ekki með á þeim nótum.

Hv. þm. Geir Haarde var að rifja upp mín störf í iðnrn. nálægt 1980. Ég er ekkert feiminn við að ræða það mál og ég get nú hrakið eitt og annað af því sem þar er haldið fram. En það er alveg rétt að ég stóð fast á því að það væri ekki verið að sleppa forræði Íslendinga í atvinnumálum eins og nú er orðin tískan og leiðarljós að sé gert.

Því miður er það svo, virðulegur forseti, að hér standa menn ekki vörð um umhverfið þegar verið er að semja við fyrirtæki sem eðli málsins samkvæmt eru mjög varasöm. Það geta menn kynnt sér sem skoða þau drög sem nú liggja fyrir varðandi álbræðslu á Grundartanga. Það lá fyrir þegar álbræðslan í Straumsvík var stækkuð. Það er verið að gera hér samninga á kostnað umhverfisins (Forseti hringir.) og sú starfsemi sem rekin er eins og ég hef rakið --- það kemur fram í kynningarbæklingi nefndrar markaðsskrifstofu --- er ekki til þess fallin að hvetja til árvekni í þeim efnum eða gefa þeim sem banka hér á dyr til kynna að (Forseti hringir.) hér sé haldið eðlilega á umhverfisvernd. Og það er heldur ekki gert í síðari bæklingum eins og hægt væri að draga fram, þ.e. þeir sem nenna að lesa það sem hæstv. ráðherra var að vitna hér til. Þar eru endurtekin sömu leiðarljósin og ég held að það væri ástæða fyrir hv. alþingismenn (Forseti hringir.) að skoða þessi mál af fyllstu alvöru og aðgæslu í sambandi við þá ferð sem þarna er verið að efna til.