Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:52:31 (3281)

1997-02-11 13:52:31# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:52]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta er mjög undarleg umræða um þessi mál. Hér er mjög stórt mál á ferðinni sem á að ráða til lykta fyrir opnum tjöldum, ekki á bak við lokuð tjöld og ég tek afstöðu til þessa frv. en ekki til einhverra leyniplagga sem ekki má ræða í þinginu.

Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir breytingum sem mun hækka rafmagnsverð til almennings um 500--700 millj. kr. á ári. Það eru peningar sem eiga að renna til eigendanna, í ríkissjóð, borgarsjóð og bæjarsjóð Akureyrar. Heildarsala á raforku til almennings nam á síðasta ári um 5,5 milljörðum kr. Hér er því um að ræða um það bil 10% aukaskatt á alla raforkunotendur í landinu. Þessi skattur leggst hlutfallslega þyngst á þá sem borga hæst orkuverð fyrir. Þjóðin hefur í sameiningu byggt upp virkjanakerfið í landinu og í sameiningu á hún að njóta ávaxtanna af því. Verði frv. samþykkt er stigið skref í þá átt að brjóta niður verðjöfnunarstefnu í orkumálum og það sem meira er, þetta mun leiða til þess að Landsvirkjun verður bútuð upp og þegar til lengri tíma er litið mun skapast af því mikið óhagræði fyrir þjóðina alla.

Á þinginu hafa verið haldnar margar góðar og fróðlegar ræður um þetta mál og augu fólks, almennings í landinu eru að opnast fyrir þessu máli. (Forseti hringir.) Það skýrir eflaust hvers vegna ríkisstjórnin og sérstaklega Framsfl. knýr á um afgreiðslu þessa máls því að þetta þolir ekki dagsljósið, sú mótsögn sem kemur fram í þessu frv. og þeirri stefnu sem Framsfl. hefur boðað. Ég segi já við því að frv. verði tekið aftur til afgreiðslu í ríkisstjórn.