Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:58:06 (3283)

1997-02-11 13:58:06# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er því miður óhjákvæmilegt að skoða afgreiðsluna á þessari grein í ljósi atkvæðagreiðslunnar sem fór fram áðan þegar felld var brtt. frá 2. minni hluta iðnn. um að skilyrða útgreiðslur á arði því að raforkuverðið hefði lækkað eins og samkomulagið gerir ráð fyrir. Það er niðurstaðan í þeirri atkvæðagreiðslu sem gildir en ekki einhverjar leynibókanir úti í bæ eða eitthvert blaður um að það vaki fyrir mönnum göfug markmið um að lækka raforkuverðið. Menn eru nýbúnir, herra forseti, að fella það í atkvæðagreiðslu hér að binda í lög að þannig skuli hlutirnir vera. Það segir allt sem segja þarf um þá hræsni sem hér er í gangi. Og það er alveg yfirgengilegt hvernig menn eru að afgreiða og ganga frá þessu máli. Þessi sérstaka árás Framsfl. á þann hluta landsmanna sem borgar hæsta raforkuverðið verður að mínu mati lengi í minnum höfð. Þetta er ekkert annað en sérstök árás undir forustu Framsfl. á íbúa köldu svæðanna. Þetta er ekkert annað. Þetta er alveg yfirgengileg niðurstaða, herra forseti, og ég mótmæli þessu harðlega.

Í ljósi þessa er ekkert annað að gera en að fella 2. gr. frv. Í ljósi þess hvernig atkvæðagreiðslan fór áðan, um að skilyrða arðgreiðslurnar við það að raforkuverðið hefði lækkað, þá er skásti kosturinn að fella þessa grein og auðvitað frv. í heild sinni og síðan ríkisstjórnina eins fljótt og mögulegt er.