Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:31:23 (3305)

1997-02-11 14:31:23# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), StG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:31]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegur forseti. Auðvitað er það rétt og við gætum sparað okkur tímann og rætt þetta mál og gerum það ítarlega í dag og þá sjálfsagt í kvöld og eitthvað fram eftir nóttu. Ég kann bara ekki við að liggja undir því að hér hafi verið farið eitthvað óþinglega með þetta mál. Ég mótmæli því mjög eindregið. Ég vil taka það skýrt fram og mótmæla því sem hv. þm. Svavar Gestsson segir að hér séu menn með eitthvert leyniplagg sem þingmenn megi ekki sjá. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon víkur að einhverjum samkomulagsfundum. Ég frábið mér slíkt. Við afhentum þetta skjal sem trúnaðarskjal. Það fór ítarleg umræða fram um málið í þingnefnd og það hefur komið fram hér að þetta mál var kynnt í öllum þingflokkunum. Það var kynnt í öllum þingflokkunum. Einhver hefur verið svo vinsamlegur að koma síðan þessu skjali, sem var útbýtt sem trúnaðarskjali, til fjölmiðla þjóðarinnar. Menn geta velt því fyrir sér hver það hefur verið. Mér sýnist málið hafa verið sæmilega opnað. Það hefur einhver gengið svo rækilega frá.