Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:17:23 (3330)

1997-02-11 18:17:23# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:17]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að svara því sem spurt var um þó ég komist ekki yfir allt.

Í sambandi við Ríkisendurskoðun, þá er hv. þm. það ljóst að sú brtt. sem hér er gerð á því máli er í fullkomnu samráði og sátt við ríkisendurskoðanda. Það kom margsinnis fram á nefndarfundi með okkur.

Það sem hv. þm. er enn að tala um er sú bókun sem gerð er 10. febr. hjá eigendum þessa fyrirtækis, Landsvirkjunar. Þar stendur svart á hvítu:

,,Sammæli um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.`` Og samkomulagið gerir ráð fyrir því að orkuverðið eigi að lækka um 2--3% á ári á árunum 2001--2010. Síðan segir hv. þm., og ég vil einmitt taka undir það sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði: ,,Í borgarráði er mikil andstaða við lækkun orkuverðs.`` Og hann segir að það hafi forgang fram yfir arðgreiðslur. Það væri fróðlegt að fá að vita það hér hverjir það eru í borgarráði sem eru á móti því að lækka orkuverð. Hv. þm. Svavar Gestsson virðist í málflutningi sínum bæði vera á móti því að lækka orkuverð og greiða arð og það er fróðlegt fyrir okkur að fá að vita hverjir það eru í borgarráði Reykjavíkur sem eru andsnúnir því að lækka orkuverð hér á landi.

Hv. þm. hefur áhyggjur af því að það sé mikil sundrung í liði stjórnarsinna í þessu máli. Hvað sýndu atkvæðagreiðslur hér í dag, hv. þm. Svavar Gestsson? Hvað sýndu þær þegar allar tillögur hv. þm. voru felldar með milli 30--40 atkvæðum gegn átta atkvæðum eða svo? Ég sé ekki að það sé mikill brestur í stjórnarliðinu, hv. þm.