Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:53:27 (3342)

1997-02-11 18:53:27# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:53]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að við hv. þm. erum sammála um þetta þannig að ekki þarf að ræða það í sjálfu sér frekar.

Aðeins um annað atriði sem kom fram í máli hv. þm. áðan, þ.e. hvað sé víkjandi, hvort það sé arðurinn eða verðlækkunin. Sú sameiginlega bókun og þeir þrír liðir í sameiginlegri bókun um arðgreiðslu og gjaldskrármarkmið sem fulltrúar eigendanna hafa orðið sammála um eru í mínum huga alveg skýr. Í þessu felst þar sem segir:

,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.``

Síðan er sagt í næsta lið að ekki verði greiddur arður úr fyrirtækinu nema það sé hagnaður. Þetta þýðir að þegar menn horfa á afkomu fyrirtækisins þá meta þeir fyrst: Getur verðið lækkað? Ef það getur lækkað þá lækka menn verðið. Ef enn er afgangur þá ákveða menn að greiða út arðinn. En við skulum líka hafa það alveg klárt að hvorki verður um það að ræða að raforkuverð verði lækkað eða arður greiddur út ef ekki eru forsendur í fyrirtækinu til að gera það. Það getur enginn stjórandi fyrirtækis eða eigandi fyrirtækis borið ábyrgð á því að lækka verð á sínum afurðum ef fyrirtækið er að tapa, eða greiða út arð þegar fyrirtækið er að tapa. Þetta samkomulag segir: Fyrsta skrefið er arðurinn. Síðan athugum við hvort við höfum peninga til að greiða út arðinn. Ef þeir peningar eru til staðar þá verður arðurin greiddur út. Ef ekki eru forsendur í fyrirtækinu fyrir þessu af því að afkoman er þannig og það er tap á því, þá verður verð hvorki lækkað né arður greiddur út.