Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:06:17 (3371)

1997-02-11 23:06:17# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sá ótti sem kom fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni sé algerlega ástæðulaus. Samkomulag er auðvitað samkomulag og eins og kom fram í máli hv. þm. þá er það liður í hinni sameiginlegu bókun að ákvörðun um arðgreiðslu verður tekin af stjórn Landsvirkjunar og hliðsjón verður höfð af afkomu fyrirtækisins. En út af því sem hv. þm. sagði um orð borgarstjórans í fréttum í kvöld, þá vill svo til að viðtalið hefur þegar verið lesið upp í heild. Mér þykir þó rétt að ítreka það sem þar kemur fram af hálfu borgarstjórans.

Hún bendir á að með þessum lögum verði endurskoðendur skipaðir og Landsvirkjun muni lúta samkeppnislögum og telur það ágætt vegna þess að þá sé líklegra að víðtækari sátt náist um málið. En hið eina sem hún segir um arðgreiðslur og arðgjafarmarkmiðið er að borgin reiknar með því að fá arð af Landsvirkjun. Það er það sem hluti þessa máls gengur út á og hún segir einfaldlega: ,,Ég er ekki tilbúin til þess að víkja arðgjafarmarkmiðinu til hliðar.`` Í þessu felst engin atlaga að samkomulaginu og enn síður því ákvæði samkomulagsins sem hv. þm. var að vísa til. Það er alveg ljóst.