Magnesíumverksmiðja

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 13:48:51 (3390)

1997-02-12 13:48:51# 121. lþ. 68.2 fundur 306. mál: #A magnesíumverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[13:48]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Vegna þess sem hér hefur komið til tals verð ég að viðurkenna að mér þóttu upplýsingar í svari hæstv. umhvrh. um þetta verkefni því miður slæmar, þær voru gamlar og þær voru villandi. Nýjar upplýsingar hefði verið auðvelt að fá og ég hygg að þær séu fyrir hendi hjá skipulagsstjóra ríkisins. Þær eru á þann veg að losun koltvísýringsefna eða lofttegunda frá þessari fyrirhuguðu verksmiðju verður miklum mun minni en kom fram í fyrrnefndu svari. Mestur hluti þess, eða a.m.k. tveir þriðju hlutar, eru teknir úr iðrum jarðar og verður dælt þangað aftur í hringrás jarðarinnar en ekki út í andrúmsloftið. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram. Auk þess hefur stjórn undirbúningsfélags sett sér tiltekin markmið um þetta efni, um lofttegundir sem fara út í andrúmsloftið. Það er ekkert sem bendir til annars en að þau markmið muni nást og þá mun þessi útblástur aðeins verða einn tíundi af því sem rætt var um í fyrrnefndu svari en það var rangt um tvo þriðju hluta.