Málefni Silfurlax

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:30:54 (3522)

1997-02-17 15:30:54# 121. lþ. 71.1 fundur 195#B málefni Silfurlax# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:30]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjmrh. og það er að gefnu tilefni vegna orðaskipta okkar við fjárlagaumræðu fyrir árið 1996 og árið 1997. Það var um fyrirtækið Silfurlax. Sú stöð hefur skapað mikilsverð störf í Stykkishólmi og Grundarfirði en deilur hafa verið milli laxveiðibænda og rekstraraðila um tökuaðferð og áhrif á laxagengd í Dalaám. Hæstv. fjmrh. reyndi að sannfæra mig um að ekki kæmi til þess að sú ábyrgð, sem var veitt við fjárlagaafgreiðslu árið 1995 og var upp á 50 millj. kr., félli á ríkissjóð. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig er staða mála núna? Hefur stöðin verið seld? Hvert var söluverðið? Og er ríkissjóður enn í ábyrgð vegna Silfurlax?