Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:44:36 (3525)

1997-02-17 15:44:36# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Tillaga sú að vegáætlun sem hér liggur fyrir fjallar um fjáröflun og framkvæmdir á árunum 1997--2000. Tillögunni var dreift á Alþingi í janúar og eru niðurstöðutölur hennar fyrir árið 1997 í samræmi við það sem ákveðið er í fjárlögum. Tillagan er með hefðbundnu sniði, þ.e. að í henni er að finna áætlun um fjáröflun næstu fjögur ár, svo og skiptingu útgjalda á helstu liði. Þá er í tillögunni að finna skrá um þjóðvegi og flokkun þeirra. Í athugasemdum koma fram skýringar á einstökum liðum auk ýmissa upplýsinga um vegakerfið. Rétt er að geta þess í upphafi að allar tölur eru settar fram á sama verðlagi, þ.e. áætluðu verðlagi þessa árs þannig að tölur eru sambærilegar milli ára. Gert er ráð fyrir að verðlag áranna 1998--2000 verði hækkað við meðferð málsins á Alþingi. Verður nú vikið að helstu þáttum tillögunnar og byrjað á fjáröfluninni.

Markaðar tekjur standa mest undir framkvæmdum í vegamálum sem jafnan áður. Bensíngjaldið er stærst hinna mörkuðu tekjustofna, gefur rúmlega 60% af heildartekjunum. Bensíngjald var hækkað 1. febrúar árið 1996. Ekki hefur orðið hækkun síðan og ekki er gert ráð fyrir hækkun bensíngjalds nema þá til verðlags á seinni árum tímabilsins. Bensíngjald er nú 25,51 kr. á lítra og er það um 87% af því sem það má vera lögum samkvæmt um fjáröflun til vegagerðar. Sú breyting varð á bensínsölu sl. ár að olíufélögin hættu sölu á blýbensíni, en sala á blýbensíni hafði numið um 12% af heildarsölu bensíns. Bensíngjald af blýbensíni var nokkru hærra en bensíngjald af blýlausu bensíni. Ákvörðun olíufélaganna olli því nokkrum tekjumissi hjá Vegasjóði. Á móti kom að bensínsalan 1996 var í heild nokkru meiri en áætlanir sögðu til um og urðu tekjur af bensíngjaldi á sl. ári aðeins meiri en áætlað var. Samkvæmt umferðarspá Vegagerðarinar er árleg aukning umferðar metin á 1,5% á ári á vegáætlunartímabilinu. Er reiknað með að bensínsala aukist í svipuðum mæli.

Þungaskattur er af tvennum toga, kílómetragjald og árgjald en það er innheimt af flestum smærri dísilbifreiðum. Undanfarin ár hefur eftirlit með skilum þungaskatts verið aukið. Með lagabreytingu snemma árs 1996 var tilhögun álagningar og innheimtu breytt og viðurlög við brotum voru hert. Árangur hefur orðið umtalsverður og kemur fram með tvennum hætti. Tekjur Vegasjóðs hafa aukist af þessum sökum og greiðendur þungaskattsins búa nú við meira jafnræði en áður.

Þungaskattur hækkaði í ársbyrjun 1996. Hann hefur ekki hækkað síðan og er ekki gert ráð fyrir hækkun hans í tillögunni nema þá til verðlags síðar á tímabilinu eins og nefnt var áður varðandi bensíngjaldið. Á hinn bóginn er reiknað með að akstur dísilbifreiða aukist í samræmi við umferðarspá og hækka tekjurnar sem því nemur á seinni árum áætlunarinnar. Alþingi hefur samþykkt lög um að taka upp olíugjald í stað þungaskatts. Upphaflega áttu þau lög að taka gildi í ársbyrjun 1996 en gildistökunni var síðan frestað til 1. janúar 1998. Ein af forsendum laganna var sú að olíugjald gæfi sömu tekjur til Vegagerðarinnar og þungaskatturinn. Í samræmi við það er reiknað með tekjum af þungaskatti öll árin og þær tekjur eiga að standast þó að olíugjaldi verði komið á.

Í tillöguni er gert ráð fyrir að töluvert fé sé millifært í ríkissjóð. Millifærslan er mest á þessu ári en fer síðan lækkandi þegar líður á tímabilið. Hluti þessa fjár fer til að endurgreiða lánsfé sem aflað var vegna þess hluta framkvæmdaátaks í atvinnumálum 1993 og 1994 sem rann til Vegagerðar. Samkvæmt tillögunni verður þessari endurgreiðslu að fullu lokið 1998.

Ríkisstjórnin beitti sér fyrir framkvæmdaátaki í vegamálum haustið 1994 og var átakið tekið inn í vegáætlun 1995--1998. Fjáröflun skyldi vera 700 millj. kr. á ári í fimm ár, 1995--1999. Helmingur fjárins átti að koma af mörkuðum tekjustofnum en helmingur með sérstöku framlagi úr ríkissjóði. Vegna atvinnuástands var ákveðið að framkvæmdir tækju einungis fjögur ár og væru mestar fyrstu árin. Lánsfjár væri aflað til að brúa bilið milli fjáröflunar og fjárnotkunar. Í tillögunni sem hér liggur fyrir er haldið við fyrri áætlun um fjáröflun. Framlag kemur úr ríkissjóði, 350 millj. kr. á ári til og með 1999. Hluti fjármagnsins árin 1997--1999 fer til að endurgreiða lánsfé sem aflað var 1995. Framkvæmdaátakið heldur síðan áfram árið 2000, en þá er það alfarið fjármagnað af mörkuðum tekjustofnum.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að afla 100 millj. kr. lánsfjár til endurbyggingar og viðgerða mannvirkja á Skeiðarársandi. Lánið á að endurgreiðast 1999. Um fjármögnun framkvæmda á Skeiðarársandi má að öðru leyti segja að brýrnar eru tryggðar hjá Viðlagatryggingu. Er reiknað með að kostnaður við endurbyggingu brúnna verði greiddar af henni. Mat á brúarkostnaði var 500 millj. kr. Endurbygging brúnna fer fram 1997 og 1998. Munu hrein útgjöld til vegagerðar á þessum árum hækka sem nemur bótagreiðslum frá Viðlagatryggingu. Ekki er venja að taka slíkt inn á vegáætlun og verður því ekki fjallað um það í tillögunni. Kostnaður við viðgerð vega og garða auk bráðabirgðalausa og þess háttar var metinn á aðrar 500 millj. kr.

Í fjáraukalögum 1996 voru veittar 150 millj. kr. til verkefnisins auk lánsfjárins sem áður var nefnt, þ.e. 150 millj. kr. fjárveiting í ár og 100 millj. kr. 1998. Þær fjárveitingar eru fengnar með lækkun útgjalda til annarra nýbygginga. Enn er ógetið um fjármögnun tenginga við Hvalfjarðargöng. Kostnaður við þær er áætlaður 800 millj. kr. Helming fjárins, 400 millj. kr., lánar Spölur hf. að fenginni ríkisábyrgð og á sá hluti að endurgreiðast af veggjaldi. Um 200 millj. kr. af þessu láni var tekið 1996 og eftirstöðvarnar komu í ár. Ríkissjóður mun afla lánsfjár 1998 fyrir hinum helmingi fjárins og er miðað við að það lán verði endurgreitt af vegáætlun á árunum 1993--2003. Fjármögnun þessa verkefnis er ekki tekin með í tillögunni eins og hún liggur nú fyrir, en rétt er að beina því til samgn. að hún taki málið upp við vinnu sína við tillöguna.

Næst er að víkja að gjaldahlið áætlunarinnar. Uppsetning tillögu um útgjöld og gjaldaliði eru með sama sniði og var í vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Fyrst kemur að liðnum stjórn og undirbúningur. Lagt er til að á árunum 1997 og 1998 verði fjárveiting í samræmi við það sem vegáætlun 1995--1998 gerir ráð fyrir. Ljóst er að með þeim fjárveitingum er mjög kreppt að þessum málaflokki þar sem verkefnin verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og þarfnast samráðs og umsagnar fleiri aðila en áður. Einnig er í mörgum tilfellum krafist meiri grunnrannsókna en áður en slíkt eykur mjög vinnu og kostnað. Þá eru kröfur um upplýsingaþjónustu stöðugt vaxandi. Því er lögð til nokkur hækkun á þessum lið á tveimur síðustu árum áætlunarinnar. Lagt er til að fjárveitingar til almennrar þjónustu verði svipaðar og gert er ráð fyrir í síðust vegáætlun og fari lítið eitt vaxandi, enda fara kröfur um þjónustu á vegakerfinu stöðugt vaxandi. Gert er ráð fyrir að þjónusta á þeim hluta landsvega sem opinn er allri almennri umferð falli undir þennan lið auk þjónustu á stofnvegum og tengivegum. Fjárveitingar til vetrarþjónustu taka mið af meðalkostnaði við þann lið undanfarin tíu ár, en jafnframt er gert ráð fyrir að reglur um vetrarþjónustu verði rýmkaðar nokkuð frá því sem nú er. Þá er einnig veruleg nauðsyn á auknum hálkuvörnum. Lagt er til að fjárveitingar til viðhalds á árunum 1997 og 1998 verði óbreyttar frá fyrri áætlun en hækki síðan lítið eitt á seinni tveimur árum áætlunarinnar. Ljóst er að verulega vantar á að þessi liður fái það fjármagn sem þyrfti. Viðhaldsþörf vegakerfisins fer ört vaxandi með aukinni umferð og aukinni þyngd bifreiða.

Fjárveitingu til þéttbýlisvega er varið til að greiða kostnað við viðhald, almenna þjónustu og vetrarþjónustu á vegum innan þéttbýla. Í flestum tilfellum hefur verið samið við viðkomandi sveitarfélag um að þau annist slíka þjónustu. Í þessum samningum hefur komið í ljós að fjárþörf til þessara liða er nokkru meiri en áður var áætlað og því lagt til að fjárveitingar verði hækkaðar nokkuð. Þau verkefni sem falla undir þennan lið eru í eðli sínu þau sömu og í almennri þjónustu, vetrarþjónustu og viðhaldi sem fjallað var um hér á undan. Kemur því sterklega til álita að skipta þessum lið upp og fella niður þá liði.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að haldið verði hinum hefðbundnu framkvæmdaliðum, almennum verkefnum, stórverkefnum o.s.frv. Eðlilegast er að samgn. fjalli um skiptingu fjármagns milli kjördæma og skiptingu fjárveitinga til einstakra stórverkefna eins og venja hefur verið. Auk hinna hefðbundnu liða er nú bætt við einum nýjum lið, Skeiðarársandi, þar sem fram koma nauðsynlegar fjárveitingar vegna viðgerða þar, að svo miklu leyti sem þær viðgerðir eru greiddar af vegafé eins og vikið var að hér að framan. Gert er ráð fyrir að halda áfram því sérstaka framkvæmdaátaki í vegagerð sem hófst 1995. Hér á undan var gerð nokkur grein fyrir breytingum varðandi fjáröflun til átaksins. Að öðru leyti er miðað við að það haldi áfram út tímabilið.

Eins og í fyrri vegáætlun var höfuðborgarsvæðið sérstakur liður og þá við það miðað að svæðið nái frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar þó í tveimur kjördæmum sé. Lagt er til að fjárveitingar til tengivegar hækki nokkuð á seinni árum áætlunarinnar, en fjárveitingar til þessara vega hafa að undanförnu verið langt undir því sem vera þyrfti. Það sama má segja um fjárveitingar til brúa en mikil þörf er orðin á að auka fjármagn til þess liðar, bæði vegna þess að margar brýr á aðalleiðum þola ekki þá umferð sem um þær fer og einnig vegna þess að mikil þörf er á að breikka eða endurbyggja einbreiðar brýr til að auka umferðaröryggi. Eins og áður var drepið á er gert ráð fyrir að kostnaður við viðhald og almenna þjónustu þeirra landsvega sem opnir eru fyrir allri umferð verði greiddur af liðnum Almenn þjónusta og viðhald. Við það minnkar fjárþörf til landsvega nokkuð en þó er ljóst að mikil þörf er á endurbótum á mörgum þeirra vega sem tilheyra þessum vegflokki.

Útgjöld ríkisins á ríkisstyrktum ferjum hafa verið greidd af vegáætlun síðan 1993. Undanfarin ár hafa útgjöldin verið um 450 millj. kr. á ári. Þar af er kostnaður vegna rekstrar um 190 millj. kr. en það sem eftir er fer til greiðslu afborgana og vaxta af lánum sem tekin hafa verið vegna smíða eða kaupa á ferjum. Ríkið á tvær ferjur, Vestmannaeyjaferjuna Herjólf og Grímseyjarferjuna Sæfara. Aðrar ferjur eru í eigu þeirra sem reka þær. Í báðum tilvikum greiðast afborganir og vextir af lánunum. Rekstrarsamningar hafa verið gerðir um allar ferjuleiðir og greitt fyrir reksturinn samkvæmt þeim. Í tillögunni er fjárveiting til ferja hækkuð um 222 millj. kr. á þessu ári. Þessi hækkun er þannig til komin að fjárveitingar til nýrra þjóðvega voru lækkaðar um þessa upphæð til að sporna við þenslu í framkvæmdum. Þetta viðbótarfé á ferjuliðnum skyldi notað til að greiða hraðar niður lán en ella væri. Þau eru að mestu erlend og greiðslur hafa því ekki áhrif á atvinnumarkaðinn innan lands. Upphæðin verður endurgreidd 1999 en þá lækka framlög til ferjuliðarins og hækka að sama skapi til nýframkvæmda. Í raun er því um frestun framkvæmda að ræða.

Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess að dæmi eru um að sveitarfélög óski eftir að framkvæmdir á vegum ríkisins haldist en bjóðist til að fresta framkvæmdum hjá sér í staðinn til þess að draga úr þenslunni. Slík ósk hefur komið fram frá Reykjavíkurborg og er nú til athugunar hjá ríkisstjórninni. Það mun skýrast á næstu dögum hvort orðið verður við ósk borgarinnar, en ef niðurstaðan verður sú að Reykjavíkurborg fresti framkvæmdum en í staðinn komi inn vegaframkvæmdir, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir, mun það koma til meðferðar í þinginu.

Í þáltill. eru vegir flokkaðir eftir 8. gr. vegalaga. Gerðar eru tillögur um nokkrar breytingar frá fyrri vegáætlun. Gert er ráð fyrir að samgn. og þingmönnum einstakra kjördæma verði gerð nánari grein fyrir vegflokkuninni og brtt. við áframhaldandi vinnu við tillöguna.

Ég legg svo til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og samgn. og er það von mín að þingmenn bregðist skjótt við og eigi gott samstarf við Vegagerðina um að vinna úr þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.