Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:36:10 (3538)

1997-02-17 16:36:10# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Málið um brýrnar verður tekið upp í nefndinni og er þá gert ráð fyrir að í tillögum Vegagerðarinnar verði 62 millj., sem hér eru kallaðar öryggisaðgerðir, varið til að fækka einbreiðum brúm og reynt að tengja það framkvæmdum sem falla undir brýr í undirtölulið 2.3.1. og 2. Þar er samtals um 140 millj. að ræða.

Í sambandi við almenn verkefni og bundin slitlög sem hv. þm. vék að áðan þá hef ég ekki þá tölu nákvæmlega og veit ekki um það satt að segja, hef ekkert séð um hvort um lægra hlutfall sé að ræða en áður en vil benda á að 40% af framkvæmdaátaki, sem eru 517 millj., fer til almennra verkefna, 250 millj., sem er Skeiðarársandur, fer líka til almennrar vegagerðar og svo auðvitað sú vegagerð sem tengist Hvalfjarðargöngum og kemur ekki beint inn á vegáætlun þannig að það fer svona eftir því hvernig á þessi mál er litið hver niðurstaðan verður. Auðvitað er Skeiðarársandur ekki ný vegagerð í þeim skilningi. Við höfðum búist við að þurfa ekki að sinna þeim vegi heldur er um viðgerðir að ræða, endurbyggingu og hlýtur að draga frá öðru vegafé. Það er spurning um hvernig dæmið er reiknað og hvaða tölum við viljum halda til haga en aðalatriðið er, held ég, að ef við tökum tillit til viðbótarfjár Skeiðarársands 1997--1998 og tengingarinnar við Hvalfjarðargöng þá séu umsvif í vegagerð svipuð og undanfarin ár eða í samræmi við það sem vera átti í samkvæmt við gildandi vegáætlun frá 1995.