Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:34:37 (3559)

1997-02-17 17:34:37# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, mig misminnti, það stóð til að stöðva framkvæmdir í Ártúnsbrekku en það varð ekki sem betur fer. Það var m.a. vegna þrýstings frá þingmönnum og ákvarðana borgarstjórnar. Niðurstaðan varð sú að haldið var áfram við framkvæmdir. En þær tölur sem ég nefndi, 1.300 millj. kr., komu einmitt fram á þessum fundi í Hlégarði, sem ég átti einnig sæti á. Ég hef einnig fengið þá tölu staðfesta frá borgarverkfræðingi. Það er því ekki misminni. Reyndar hafa tölurnar verið nokkuð á reiki um þörfina. Þær hafa verið frá 1 milljarði til 1.200 millj. og allt upp í að vera 1.300 millj. kr. Þetta eru tölur sem ég fékk og komu bæði fram á fundi með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins í lok október sl. og einnig í gögnum sem ég hef undir höndum frá borgarverkfræðingi, þannig að það er ekki misminni.

Mér finnst ástæðulaust að vera að taka til þess hvort borgarsjórinn í Reykjavík hafi tekið til máls um vegamál eða ekki þegar hún sat á þingi. Það er aukaatriði. Menn ræða um þau mál sem heyra undir þær nefndir sem þeir sitja í. Ég geri ráð fyrir að borgarstjórinn í Reykjavík hafi ekki átt sæti í samgn. En engu að síðar varðar borgarstjórann nú mjög samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og hefur látið til sín taka í þeim málum. Hef ég einmitt vitnað í það í máli mínu.