Póstminjasafn Íslands

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:51:40 (3617)

1997-02-17 19:51:40# 121. lþ. 71.15 fundur 242. mál: #A Póstminjasafn Íslands# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:51]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Um síðustu áramót tók Póstur og sími hf. við rekstri póst- og símaþjónustu af Póst- og símamálastofnun í samræmi við nýsamþykkt lög. Hlutafélagið tekur þá við þeim skuldbindingum og eignum sem rekstrinum eru nauðsynlegar en ekki þeim stjórnsýsluverkefnum sem stofnunin hafði annast, en sú starfsemi flyst að mestu til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Frá því í janúar 1987 hefur Póst- og símamálastofnun rekið póst- og símaminjasafn í gömlu símstöðinni að Austurgötu 11 í Hafnarfirði. Safnið geymir mikið úrval muna og tækja og hvers kyns búnaðar úr langri sögu póst- og símaþjónustunnar á Íslandi. Safninu stýrir þriggja manna stjórn, en safnvörður hefur daglega umsjón og vörslu þess. Safnið er opið almenningi til sýnis og er aðgangur ókeypis. Stofnunin hefur kostað rekstur safnsins.

Auk þess er í vörslu Póst- og símamálastofnunar í Landssímahúsinu í Reykjavík safn frímerkja og annarra póstminja, svo sem póststimplar, prentmót gamalla frímerkja, skissur og teikningar, svo og aðrar minjar um hönnun og gerð frímerkja. Frímerkjum sem þar eru varðveitt er nánar lýst í almennum athugasemdum frv. og vísast til þeirra. Framangreind söfn eru ekki nauðsynleg rekstri Pósts og síma hf. en hafa auk gífurlegs verðmætis, mælt í krónum, ómetanlegt minjagildi sem skylt er að varðveita sem þjóðareign.

Með frv. þessu er lagt til að stofnað verði Póstminjasafn Íslands sem verði sjálfstæð vörslustofnun frímerkja og annarra póstminja í eigu íslenska ríkisins og verði aðsetur þess í Reykjavík. Þá er lagt til að samgrn. fari með yfirstjórn safnsins og að samgrh. setji eða skipi forstöðumann safnsins að fenginni tillögu safnráðs sem ráðherra skipar til þriggja ára í senn. Safnráð skal skipað sex mönnum og skulu tveir ráðsmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu stjórnar þess fyrirtækis eða lögaðila sem veitt hefur verið umboð eða heimild til þess að fara með einkarétt ríkisins til frímerkjaútgáfu, einn ráðsmaður samkvæmt tilnefningu Landssambands ísl. frímerkjasafnara, einn samkvæmt tilnefningu Póst- og fjarskiptastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu þjóðminjaráðs og einn ráðsmann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins.

Hlutverki safnsins er nánar lýst í 4. gr. frv. Það skal vera upplýsinga- og fræðslustofnun á sviði frímerkja, fræða og póstsögu. Þessu markmiði skal m.a. náð með föstum sýningum í húsakynnum safnsins og með hvers konar kynningu á eigum þess og starfsemi. Það skal opið almenningi á auglýstum tíma. Tekið er fram í greininni að safnið og starfsemi þess skuli sérstaklega kynnt nemendum í samráði við skólayfirvöld.

Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir að sá póstrekandi sem fer með einkarétt ríkisins til frímerkjaútgáfu samkvæmt póstlögum kosti rekstur safnsins.

Ég hef í stuttu máli farið yfir efni frv. Það er kannski ástæða til að benda á að í 5. gr. er ákvæði svo hljóðandi:

,,Frímerki þau, sem Póstminjasafn Íslands eignast skv. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna, og sambærileg merki, sem safnið tekur við skv. 3. mgr. sömu greinar, skulu ævinlega vera eign safnsins. Þeim ber að koma í örugga geymslu í fjárhirslum Seðlabanka Íslands jafnskjótt og safnið hefur fengið formlega vörslu þeirra.``

Það var talið nauðsynlegt að hafa þennan hátt á. Það er bæði praktískt, gott og ódýrt og á að tryggja góða vörslu þessara frímerkja.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.