Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 15:15:14 (3632)

1997-02-18 15:15:14# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[15:15]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því þegar ég tók til máls þegar málið var fyrst á dagskrá að kostnaðaráætlunin gerði ekki ráð fyrir því að þetta frv. yrði að lögum. Mér sýnist að það sé í raun staðfest því að það er gjörsamlega útilokað, þó kaflinn um réttindi veikra barna sé stuttur og ekki ítarlega útfærður, þá segja þau atriði sem þar eru, og þau ein, að það er gjörsamlega vonlaust að framkvæma markmið frv. ef ekki verður um byggingu barnaspítala að ræða eða verulegar breytingar á því húsnæði sem er til staðar í dag. Hér hefur hv. þm. sagt okkur að kostnaðaráætlun, lausleg þó, sé um 800 millj. en fjmrn. segir mjög skýrt í sinni áætlun þegar búið er að fjalla um kennslu barna á sjúkrahúsum sem ekki hafi kostað neitt: ,,Ekki verður séð að önnur atriði frv. hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem nú er og þá er gengið út frá því að lögin hafi ekki áhrif á reglur um sjúkratryggða á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum.``

Þó að þarna sé um að ræða útgjöld sem koma til á nokkrum árum, sem hefur auðvitað komið fyrir áður þegar kostnaðarmat fylgir frv., þá er eins og ríkisstjórnin geri ekki ráð fyrir, eða þeir sem vinna á hennar vegum, að lögin verði nokkurn tíma framkvæmd verði þau samþykkt.