Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:16:22 (3747)

1997-02-20 11:16:22# 121. lþ. 75.5 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:16]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var göfug ræða og góð hjá hv. þm. Ragnari Arnalds eins og hans er vandi og ég ætla ekkert að hvekkja hann né aðra hér með umfjöllun um þá ræðu. Ég tek undir flest það sem þar var sagt. Það verður hins vegar að leiðrétta þann misskilning bara af sagnfræðilegum ástæðum að aldrei hafi í stefnuskrá Alþb. verið lögð áhersla á þjóðnýtingu. Það er nefnilega svo að í stefnuskrá sem í gildi var í 20 ár í Alþb. allt fram til miðstjórnarfundar á Akureyri að ég held vorið 1989 var kveðið á um þjóðnýtingu alls atvinnulífs á Íslandi nema, að mig minnir, á opnum þilfarsbátum sem máttu vera í einkaeign. Og við stóðum fyrir því nokkrir meðan ég var í sama flokki og hv. þm. sem hér talaði áðan að koma þessari stefnuskrá fyrir kattarnef og vakti ekki mikla hylli á sínum tíma þannig að hv. þm. skipti ekki um þjóðnýtingarskoðun sína fyrir sumarið 1989 þó að hann sé nú orðinn sinnaður blönduðu hagkerfi.