Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:03:31 (3765)

1997-02-20 12:03:31# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir ágæta ræðu og þarf kannski ekki að gera það vegna þess að ég hafði rómað hana í fyrri ræðu minni og hennar vit á þessum málum.

Það var hins vegar einkennilegt að heyra að þetta mál allt saman tengdist sem sagt á engan hátt því klandri sem heilbrrh. hefur verið sett í eða komið sér í vegna niðurskurðar hennar á landsbyggðarsjúkrahúsunum því að einhverjir eldar blossuðu undir. Allt í einu var hinn prúði og fagri hv. 4. þm. Reykn. orðinn eins og púðurtunna gagnvart hv. þm. Hjálmari Jónssyni sem hafði leyft sér að fara út af sporinu og skrifa grein í blað, fjallað þar um veðrið á Siglufirði og málefni sjúkrahúsanna á Norðurl. v. sem eru að ég held ansi mörg og voru byggð í tilefni af ýmsum atburðum, m.a. stjórnarmyndunum og öðru. Þetta er auðvitað þannig að Hjálmar Jónsson hljóp frá og það eru hinir sex þingmenn Sjálfstfl. að gera, hlaupa frá stjórnarstefnunni í málinu og hlaupa frá Framsfl. Það er auðvitað aðalmálið. Ég vona að framsóknarmenn sjái það hér hvað er að gerast. Þeir eru sem sé að koma heilbrrh. fyrst í klandur, hlaupa svo frá því og ætla að veifa tillögunni sinni heima í héraði þegar á það verður minnst.

En það eru auðvitað fleiri sem iðka þennan leik. Það gera framsóknarmenn sjálfir líka. Þeir eru á hröðum flótta úti um öll héruð. Og það verður að segja um ríkisstjórnina með orðum Þórbergs Þórðarsonar um Tummakukku að lægst komst hennar lukka er lagðist hún með Kristófer, að það má segja að þegar hæstv. ráðherra Páll Pétursson sem hér í bænum gegnir hlutverki félmrh. og samstarfsmanns hæstv. heilbrrh. fór að taka undir gagnrýni á heilbrrh. og klandur hennar með því að vera kjördæmaþingmaður á Norðurl. v.