Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:32:55 (3782)

1997-02-20 12:32:55# 121. lþ. 75.8 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:32]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni kom ég inn á það að þar sem þarna er um að ræða mjög dýrt verkefni og mjög metnaðarfullt þá kynni að vera að foreldrar væru til í að taka undir með átakinu og flýta því jafnvel með því að kaupa sjálfir tölvur. Þetta er þegar farið að gerast í einstaka skóla, þ.e. að foreldrafélög standa að kaupum á tölvum þannig að vilji foreldranna er vissulega til staðar að þeirra börn fái eins góða menntun og hægt er.

Ég gat þess líka að menn skyldu skoða hvort ekki mætti fresta einsetningu í skóla þar sem ég get séð fyrir mér, kannski ekki allir aðrir, að kennsluhættir munu gjörbreytast með tilkomu slíkrar tölvuvæðingar þannig að hin hefðbundna skólastofa yrði úrelt og það þarf að byggja skóla allt öðruvísi.

En ég tek undir með hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur að vandamálið er jafnréttið. Það er alveg með ólíkindum hvað stúlkur eru seinar til að tileinka sér tölvunotkun og ég get engan veginn skilið það og ég vona að þetta átak hvetji þær til að tileinka sér tölvurnar til jafns við drengi. Ég held að það sem þær eigi við að glíma séu eigin fordómar og fordómar foreldra þeirra.