Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:08:38 (3833)

1997-02-24 15:08:38# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir athugasemdir hv. 5. þm. Suðurl. og segja frá því að þingflokki Alþb. finnst þessi skil ráðherrans fullkomlega óeðlileg og algjörlega ófullnægjandi. Þingið hefur samþykkt þessa skýrslubeiðni og þar með samþykkt að fela ráðherranum að svara þeim spurningum sem fram eru bornar. Ráðherrann svarar engri af þeim fjórum meginspurningum sem beðið var um svar við. Ég kalla það ekki svar, herra forseti, þó það standi á einum stað í þessari skýrslu eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Með þreytu er átt við tímabundna minnkun á getunni til að vinna, ástand sem auðveldlega gengur til baka ...``

Þetta eru náttúrlega engin svör, herra forseti, við alvarlegri fyrirspurn um alvarlegt málefni sem hrjáir stóran hluta íslensku þjóðarinnar, þ.e. að svara svona.