Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:58:49 (3865)

1997-02-24 16:58:49# 121. lþ. 76.14 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég fagna alveg sérstaklega að þetta mál er hér komið fram. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir að flytja málið. Það er eitt sem ég vil nefna strax í upphafi og það er að þetta frv. sker sig frá að því leyti að það er skrifað á óvanalega ríku og góðu máli. Það er unaður að lesa það. Ég veit ekki hver hefur skrifað greinargerðina, væntanlega hefur hæstv. ráðherra komið að henni síðastur manna en hann og nefndin og ráðuneytið eiga þökk skilið fyrir að skila svona góðu þingmáli. Það er auðvitað ekki hægt að ræða þetta mál öðruvísi en að þakka líka, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði rækilega, það frumkvæði sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sýndi í málinu. Hann flutti málið upphaflega þannig að eftir því var tekið. Í seinni búningi frv. þegar það var orðið að frv. til laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þá var sýnt á árinu 1994 að þingheimur vildi mjög gjarnan fá þessa stofnun. Og ég vænti þess að menn í hv. umhvn. þingsins gefi sér tíma til þess að fjalla um þetta frv. og samþykkja það á þessu þingi. Ég segi það fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna að við munum sannarlega leggja á okkur það sem þarf til þess. Ég verð reyndar að segja líka, herra forseti, að ég held að það þurfi ekki að kafa djúpt í þetta frv. Það er það vel úr garði gert að það ætti að vera hægt að samþykkja það lítt breytt.

Tilgangur stofnunarinnar eins og fram hefur komið er að efla samstarf um rannsóknir á norðurslóðum og það er auðvitað vel. Eins og frv. ber með sér er gert ráð fyrir því að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði í upphafi tiltölulega lítil og verkefni sem henni verði falin eru ekki mjög viðamikil. En ég fagna því að hæstv. umhvrh. sagði að hann stefndi að því að fela henni aukin verkefni í framtíðinni og ég vona að þeim vilja verði fylgt eftir með því að útvega aukið fjármagn til stofnunarinnar. Í upphafi er gert ráð fyrir því að tveir háskólamenntaðir sérfræðingar, þar af annar forstjóri, starfi innan vébanda stofnunarinnar. Hún á að samhæfa yfirlit um þær rannsóknir innlendar sem fara fram á ýmsum þeim þáttum sem tengjast málefnum norðurhjarans, ekki hvað síst rannsóknum á lífríki og rannsóknum á mengun, en jafnframt á hún að reyna að auka samstarf með innlendum og erlendum vísindamönnum.

Eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich benti á er öll áhersla frv. á hinu náttúrufræðilega sviði. Ég mótmæli því að sjálfsögðu ekki, herra forseti, ég er því hlynntur. En ég tel samt sem áður með vísan til þess manns sem stofnunin er kennd við að það hafi e.t.v. gleymst að íhuga einn þátt sem þessi stofnun þyrfti að taka til skoðunar og það eru rannsóknir sagnfræðilegs eðlis. Ég held að það væri vel við hæfi að ýmiss konar rannsóknir sem vantar á sögu Íslendinga færu fram undir forustu þessarar stofnunar. Ég nefni sérstaklega, herra forseti, að Ísland hefur þá sérstöðu í hinum byggilega heimi að við búum við þann vágest sem hafísinn er og hefur frá aldaöðli komið hingað og verið vágestur mikill. Hann hefur fært með sér hættur og ógnir. En Íslendingar hafa lært að lifa með honum. Hafísinn er þáttur af okkar sögu og það vantar rannsóknir á því hvernig Íslendingar hafa lifað í gegnum sögu sína í nábýli við þennan forna fjanda landsins.

Árið 1968 var haldin ráðstefna um hafísinn. Þar flutti m.a. Þórhallur Vilmundarson gagnmerkt erindi og benti á að árið 1968 ættu Íslendingar eftir að skrifa árferðissögu sína, skrifa sögu veðurfars Íslands frá því að landið byggðist. Það er að vísu svo að Þorvaldur Thoroddsen tók það saman og gerði ágæt skil í bók sem hann skrifaði fyrir tæpri öld og þó að hún væri á þriðja hundrað síður þá kallaði hann bókina sjálfur safndyngju. Þar tók hann til allar þær heimildir sem hann hafði aðgang að um árferði á Íslandi. En það á eftir að beita heimildir sem fyrir liggja gagnrýnum vinnubrögðum og taka inn í ýmsar aðrar upplýsingar sem fram hafa komið. Ég nefni sérstaklega þær merku upplýsingar sem liggja nú fyrir í kjölfar rannsókna á borkjörnum úr Grænlandsjökli sem segja okkur mjög mikið um árferðissögu Íslands. Þarna finnst mér að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar gæti haft visst frumkvæði í framtíðinni. Ég held líka að það væri hægt af hennar hálfu að leita til ungra fræðimanna, námsmanna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, sem eru að ljúka sínum lokaverkefnum t.d. á sviði sagnfræði, fornleifafræði eða mannfræði og reyna að örva þá til þess að taka sem lokaverkefni ýmiss konar verk á sviði sögu okkar sem tengjast verksviði þessarar stofnunar sem við erum að ræða hérna. Ég held að það gæti orðið mikilvægt framlag. Nú hefur engin sérstök stofnun hag af því að hvetja til slíkra rannsókna en ég hygg að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar gæti og ætti auðvitað að verða það tæki sem dugar til slíks.

Ég minni líka á það, herra forseti, að nú nálgast árið 2000. Á þeim tímamótum er ekkert vafamál að menn munu í ríkari mæli taka upp og minnast landafundanna sem Íslendingar stóðu fyrir í kringum árið 1000. Það fer tiltölulega hljótt hversu mikið hlutverk Íslendingar, bæði búsettir hér á landi og á Grænlandi, áttu í því að finna nýja heiminn svokallaða. Það var hlutskipti Norðmanna, manna á borð við Helge Ingstad sem nú er enn á lífi 97 ára gamall í Noregi, að sýna fram á sannleiksgildi þeirra staðhæfinga sem koma fram í Íslendingasögunum um þessar ferðir Íslendinga. Það var hann og Norðmenn sem fyrst og fremst sinntu rannsóknum á mannvistarleifum á Nýfundnalandi sem augljóslega voru frá tímum vesturferða Íslendinganna. Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að taka þetta upp, rifja upp þessi gömlu minni og sýna fram á hvers við vorum megnug á þessum árdögum Íslandsbyggðar.

Ég nefni þetta hér ekki síst í tilefni af orðum hv. þm. Tómasar Inga Olrich sem sagði að æskilegt væri að þessi stofnun reyndi með einhverjum hætti að samhæfa vinnu á öðrum sviðum, skyldum þessum en sem koma þó ekki fyrir í greinargerðinni. Hann nefndi mannfræði og fornleifafræði. Ég vil bæta við sagnfræði og sérstaklega tel ég, herra forseti, að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar ætti í framtíðinni að hasla sér völl á þeim sviðum sagnfræðinnar sem tengjast árferðissögu og sögu landafundanna sem íslenskir landnámsmenn stóðu fyrir fyrir réttum þúsund árum.