Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:10:31 (3899)

1997-02-25 14:10:31# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:10]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Mikilvægi menntunar er ótvírætt eins og fram er komið í máli allra hv. þm. sem hér tala. Í þjóðfélaginu er hins vegar unnið að gerð kjarasamninga um þessar mundir og þar er krafan þessi: Að hækka lægstu laun og gæta þess að launamunur vaxi ekki. Ég er samþykkur þeirri stefnu. Ég vil að allir fylgist að á leiðinni fram til betri lífskjara.

Þegar rætt er hér um samanburð og samkeppnishæfni okkar á Evrópska efnahagssvæðinu eins og kom fram í máli hv. málshefjanda þá er rétt að gæta að einu: Hverjum bjóðast betri kjör erlendis en hér heima? Það er yfirleitt menntafólk sem fer til starfa í þeim löndum þar sem launamunur er meiri en á Íslandi. Ef við ætlum að keppa um hvern og einn einstakling sem býðst hátt launað starf erlendis þá er hætt við að launamunur hér á landi mundi vaxa hröðum skrefum. Ég fæ því ekki séð hvernig það tvennt fer saman að vinna bug á fátækt á Íslandi og um leið að hækka verulega laun til þeirra sem þjóðin hefur menntað og sérhæft en kjósa þrátt fyrir þjóðerni sitt að starfa á öðrum velmegunarsvæðum heimsins vegna betri launa sem þar eru greidd vissum þjóðfélagshópum en ekki öðrum.