Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 17:26:17 (3918)

1997-02-25 17:26:17# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[17:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á vandamál fanga. Ég get hjartanlega tekið undir með það. Það er í rauninni óskiljanlegt að fólk skuli geta unnið og fengið laun og að ekki skuli vera greidd af þeim launatengd gjöld eins og lög gera ráð fyrir. Það kom fram á fundi félmn. að menn töldu sig ekki hafa efni á þeirri miklu vinnu sem fylgir því að standa skil á þessum sköttum og skyldum. Hvað má þá hinn venjulegi atvinnurekandi segja þegar opinber fyrirtæki hafa ekki efni á þessu? Mér finnst það algjörlega út í hött að ekki sé borgað af þessum launum. Fram kom í máli hv. þm. að fangar eiga rétt á vinnu og því má jafnvel álykta þannig að ef þeir eiga rétt á vinnu þá eiga þeir að fá vinnu og þá eiga þeir að vera tryggðir. Þannig að það má rökstyðja út frá því að þeir eigi í rauninni að fá réttindi út á þann tíma sem þeir hafa verið í fangelsi.

Varðandi umræðuna um ríkisumsvifin og því sem beint er til okkar hv. þm. Sjálfstfl., þá er ekki verið að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, það er augljóst, það er verið að færa þau öfugt. En það er verið að færa verkefni til þeirra sem borga. Það er verið að færa ákvörðunarvaldið frá sveitarfélögunum sem áður tóku ákvörðun en greiddu ekki og frá stéttarfélögunum sem greiddu út fyrir hönd Atvinnuleysistryggingasjóðs en borguðu ekki sjálf. Það er verið að flytja ákvörðunina og framkvæmdina til þess aðila sem greiðir. Og það er verið að koma hér upp mikilli áætlun um starfsleitar\-áætlanir. Það kostar peninga, en það mun hins vegar líka spara fé vegna þess að það mun minnka atvinnuleysið. Það er alla vega von þeirra sem að þessu frv. standa að þessi tilhögun starfsleitaráætlunarinnar með samræmdar reglur um allt land muni minnka atvinnuleysið og þar sparast ómælt fé.