Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:27:25 (3933)

1997-02-25 18:27:25# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:27]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi vinnumarkaðsmál eiga sér langa sögu eins og hér hefur komið fram í dag. Á sínum tíma var samið um atvinnuleysisbæturnar eftir hart verkfall 1955. En vinnulöggjöfin, sem deildum hvað harðast um í fyrra, var sett 1938, þrátt fyrir mikla gagnrýni ákveðins hluta verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma. Síðar kom í ljós að margt í henni reyndist vel. Samt sem áður er það mín grundvallarskoðun að það eigi að vera samkomulag um grundvallaratriði eins og t.d. leikreglur vinnumarkaðarins og það hljóti að vera öllum til hagsbóta að það ríki samkomulag um það og að löggjafinn sé ekki að setja reglur í blóra við vilja mikils meiri hluta. Það gilti í því máli að augljóst var að það mundi hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar, og hefur að mínum dómi haft nokkrar afleiðingar hvernig að þeim málum var staðið. Hins vegar er það mín skoðun, eins og ég sagði áðan, að ég tek afstöðu til einstakra mála eftir efni þeirra. Og að hlaupa alltaf eftir vilja verkalýðshreyfingarinnar í hverju einasta máli er bara algjörlega út í bláinn. Það á að meta málefnin út af fyrir sig. Verkalýðshreyfingin hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, það er svo langt í frá. Hér gildir að sveitarfélögin eru á annarri skoðun en verkalýðshreyfingin.

Það er kannski óþarfi að eyða mörgum orðum um þessi kerfi en þá minni ég á það sem ég tók dæmi af fyrr í dag með skipulag Akureyrar. Ég fæ ekki betur séð en ef þeir eiga að lúta þessum lögum, þá verði þeir að raska sínu heildstæða skipulagi sem þeir hafa sett upp. Þeir verða að setja stjórn yfir þá deild sem fjallar um atvinnumálin og væntanlega taka þar út verndaða vinnustaði og það sem snýr að málefnum fatlaðra því þetta kemur ekki heim og saman. En þetta er atriði sem þyrfti að skoða betur.