Öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:56:37 (3954)

1997-02-26 13:56:37# 121. lþ. 78.2 fundur 279. mál: #A öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja máls á þessu og enn fremur hæstv. forsrh. fyrir að upplýsa okkur um að þarna sé verið að grípa til ráðstafana. Það er ljóst að ferðamannastraumur á þetta svæði mun aukast verulega í sumar og næstu ár. Fjöldi erlendra ferðamanna og vísindamanna kemur gagngert frá útlöndum til þess að skoða þau náttúruundur sem þarna er að sjá á sandinum.

Staðan er hins vegar þannig að við höfum reynslu fyrir því að jakar sem þarna hafa borist fram verpast sandi og þeir bráðna í tímans rás og þarna myndast sanddý. Þegar maður les gamla annála er hægt að sjá allnokkur dæmi, t.d. frá 18. öldinni, um það að stórgripir hafi farist í slíkum dýjum, en það eru líka dæmi um mannskaða. Það eru dæmi um það að nokkrir menn hafi tapað lífi vegna þess að þeir hafi fallið í slíkar gryfjur. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. vekur máls á þessu og enn fremur að menn hlutast til um það að reyna að setja fram leiðbeiningar um það hvernig beri að forðast þær hættur sem á sandinum eru.