Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:51:34 (3979)

1997-02-26 14:51:34# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHelg (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:51]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Um orðaskipti okkar hv. þm. má lesa í þingtíðindum og þarf ekki að fara mörg ár til baka. En það er ánægjulegt að menn hafa nú áhyggjur af þessum málum og veit ég þá ekki um hvað við deildum, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og ég, því að hann virtist vera ósammála mér um þá hluti þegar umræður um þessi mál fóru fram um útflöggun á skipum og þau fjögur skip Eimskipafélagsins t.d. sem eftir eru undir íslenskum fána.

Það hlýtur þá að hafa verið sú ástæðan ein að menn geta ekki tekið undir sjálfsögð mál pólitískra andstæðinga sinna og verður þá að hafa það. En vilji menn kynna sér þessa umræðu, því að nú er það auðvelt, þarf ekki nema að biðja um að fletta upp orðinu hentifáni til þess að skrifstofa þingsins skili umræðum um þau mál. Ég bið þá hv. þingmenn að gera það sem vilja kynna sér þau orðaskipti sem fram fóru.