Vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 18:46:02 (4016)

1997-02-26 18:46:02# 121. lþ. 79.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem hér er fjallað um er að skilgreina allt landið í skilningi þessara laga sem eitt vinnusvæði. Hin hliðin á því máli er sú að menn geta þá átt á hættu að missa atvinnuleysisbótarétt ef þeir hafna vinnu, jafnvel þó á fjarlægi landshorni sé. Núgildandi ákvæði eru í þessu sambandi nógu erfið viðureignar og bjóða upp á túlkun sem getur orðið býsna vandasöm, svo sem þegar meta þarf hvort að heimilisaðstæður viðkomandi séu þess eðlis að þær komi í veg fyrir að hann geti með auðveldlega sótt vinnu um langan veg þó ekki bætist nú við að það þurfi að fara að meta hvort í slíkum tilvikum eigi að svipta menn bótum þó þeir jafnvel vilji ekki flytjast landshornanna á milli. Nú þegar hefur komið til árekstra vegna þess að t.d. mæður með börn í skólum hafa misst atvinnuleysisbótarétt þegar þær hafa neitað að sækja vinnu í fjarlæg byggðarlög af þeim ástæðum. Ég held að væri nær að taka á þeim vandamálum sem uppi eru í lagaframkvæmdinni heldur en að breyta þeim í þessa átt og búa sér til enn þá erfiðari vandamál og meiri hættur í sambandi við það að fólk verði af eðlilegum bótarétti vegna lagaframkvæmdarinnar. Þetta ákvæði er stórgallað og því þarf að breyta.