Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:52:55 (4039)

1997-02-27 13:52:55# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:52]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Aldrað fólk er ungt fólk fram eftir öllum aldri sé heilsan góð. Aldrað fólk á sínar vonir og þrár ekkert síður en þeir sem yngri eru. Því er það mikilvægt verkefni stjórnmálamanna að tryggja jafnræði og ásættanlega afkomu þessa þjóðfélagshóps. Margur eldri borgari býr við kröpp kjör, aðrir hafa það gott, sem betur fer, og eiga að viðurkenna það.

Það á að vera aðalsmerki ríkis og sveitarfélaga að búa öldruðum og sjúkum öryggi. Við eigum að breyta lífeyrissjóðakerfinu. Það ræður nú yfir 350 milljörðum kr. en greiðir í mörgum tilfellum smánarellilífeyri. Við eigum að stofna skattfrjálsa séreignarsjóði launþega við hliðina á þessu kerfi til að létta af okkur áhyggjum þegar hlutfall aldraðra hækkar á næstu öld.

Ég vil hér, hæstv. forseti, þar sem hæstv. heilbrrh. er með veikindaforföll í dag, minnast á nokkur atriði sem unnið er að.

Í fyrsta lagi hefur hæstv. heilbrrh. lýst yfir þeirri skoðun sinni að jaðarskattanefnd og ríkisstjórnin verði að taka til skoðunar jaðaráhrif tekna lífeyrisþega á bætur almannatrygginga um leið og jaðarskattar á barnafólk eru teknir til endurskoðunar. Innan ráðuneytisins og í samstarfi við fjmrn. er verið að skoða sérstaklega samspil bóta frá félagsmálastofnunum við bætur almannatrygginga og skattkerfið. Lífeyris- og sjúkrasjóðir hafa hingað til verið allt að því ósnertanlegir vegna áfalla sem félagar þeirra hafa orðið fyrir, við veikindi og fleira. En það sem er langmikilvægast í mínum huga sem nú er unnið að er að sérstök nefnd, sem samtök aldraðra og öryrkja eiga aðild að, er nú að fara yfir áhrif reglugerðar um frekari uppbót vegna 75 þús. kr. tekjumarksins og hugsanlega hækkun þess.

Vegna þess sem kom fram í umræðunni vil ég taka fram að ellilífeyrisþegar hafa ekki tapað hingað til vegna aftengingar bóta við laun. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin passað upp á að lífeyrisgreiðslur hækki í takt við lágmarkslaunin. Við eigum að standa saman um málefni aldraðra og að þetta fólk megi búa við öryggi. Ég trúi því að þessi ríkisstjórn muni ná samstöðu um það.