Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:55:42 (4040)

1997-02-27 13:55:42# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Aldraðir hafa á undanförnum mánuðum margir hverjir orðið fyrir umtalsverðri tekjuskerðingu venga lækkunar á tekjutryggingu, niðurfellingar á lyfjauppbót og að afnotagjald útvarps og sjónvarps hefur verið lagt á fjölmarga sem áður greiddu ekki slíkt gjald. Til að bæta um betur ákvað ríkisstjórnin að hækka elli- og örorkulífeyri aðeins um 2% við afgreiðslu síðustu fjárlaga þegar meira að segja ríkisstjórninni sjálfri er það ljóst að laun á vinnumarkaði munu hækka miklu meira. Það er ljóst að stjórnvöld telja sig hafa fundið þau hin breiðu bökin í þjóðfélaginu meðal þeirra sem eru á eftirlaunum og telur að þau geti nú farið að borga stærri skerf í fjárlagahallanum en þau hafa áður gert.

Þetta skýtur nokkuð skökku við því að það er einmitt þetta fólk sem hefur á undanförnum áratugum byggt upp það velferðarþjóðfélag sem við búum við í dag. Einnig vil ég vekja athygli á því að okkur sem höfum starfað í samninganefndum á vegum samtaka launamanna á undanförnum árum er ljóst að sú ofuráhersla sem hefur verið lögð á það, t.d. af samninganefnd ríkisins og Vinnuveitendasambandsins, að halda niðri umsömdum grunnlaunum en bjóða í staðinn alls kyns sporslur og aukagreiðslur af ýmsu tagi, er ekki hvað síst gert til að halda niðri eftirlaunum. Eftirlaunin eru einmitt prósentur af umsömdum grunnlaunum. Mörgum hefur verið ljóst lengi að þessi aðför að þeim réttindum sem fólk hefur unnið sér inn á langri ævi er með öllu ósæmandi og tekur þó steininn úr þegar stjórnvöld leggja sérstakan krók á hala sinn til að skerða réttindi þessa sama hóps með óréttlátum jaðarsköttum eins og hér er gert að umtalsefni.

Ég vil minna á frv. um jaðarskatta sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram á sl. hausti sem mundi draga mjög úr þessu óréttlæti ef samþykkt yrði en hefur hingað til ekki hlotið afgreiðslu á hinu háa Alþingi.