Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 15:16:55 (4175)

1997-03-04 15:16:55# 121. lþ. 83.7 fundur 284. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[15:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að samskipti stjórnmálaflokka og stuðningsmanna þeirra eigi að vera þeirra samband, að það eigi að vera trúnaðarsamband á milli stuðningsaðila stjórnmálaflokka og stjórnmálaflokksins. Ég tel ekki að það gefist neitt tilefni til þess hér á landi að gera slíka hluti tortryggilega.

Sennilega er það nú tiltölulega sjaldgæft að framlög til stjórnmálaflokka nemi hærri upphæðum en þessi sem hv. þm. nefndi. Ég kannast a.m.k. ekki við mjög mörg dæmi þess að framlög til stjórnmálaflokka, árleg framlög býst ég við að þingmaðurinn sé að nefna eða fyrir kosningar, séu hærri en sem þessari upphæð nemur. Oftast nær eru þetta miklu minni framlög.

Ég verð að tala út frá mínum flokki sem hefur að vísu mikla sérstöðu vegna þess að hann er almenningsflokkur, ekki svona fámennisklúbbur eins og sumir flokkar eru. Það eru 35 þúsund meðlimir í þessum flokki sem greiða félagsgjöld og auðvitað safnast mjög mikið saman þegar svo margir koma saman og leggja í púkk.