Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:52:09 (4251)

1997-03-11 13:52:09# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:52]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir samúðarkveðjur til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna hörmulegra sjóslysa að undanförnu.

Herra forseti. Á landi hefur lögreglan fullt vald til að grípa inn í atburðarás t.d. ef drukkinn ökumaður er á ferð. Lögreglunni er veitt þetta vald til að verja líf og limi borgaranna og til að koma í veg fyrir eignatjón og afstýra hættuástandi. Því skyldu ekki sömu lög gilda á sjó? Í mínum huga er enginn vafi á því að við Þjórsárósa trufluðu ólíkir hagsmunir eðlilega framvindu mála. Ég sé skipstjórann fyrir mér standandi með byssuhlaup í bakið undir þrýstingi þýskra eigenda og tryggingafélagsins sem vildu komast hjá björgunarlaunum. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að auka valdsvið skipstjórnarmanna Landhelgisgæslunnar svo unnt sé að grípa inn í þegar nauðsyn krefur hvað sem líður alþjóðasamþykktum.

Í öðru lagi er vitað að ítrekað hefur það gerst við skipstrand eða óhapp að útgerðir og skipstjórar hafa veigrað sér við að kalla á eða þiggja aðstoð Landhelgisgæslunnar vegna ákvæða um björgunarlaun og þau ákvæði hafa dregið úr því að þeir sem í háska eru taki ákvörðun um að þiggja aðstoð. Ef útgerðin, í þessu tilviki ríkið sjálft, gerir slíka kvöð til björgunarlauna að hlutverk Gæslunnar er ekki virt, þá er ástæða til endurskoðunar. Þannig má spyrja: Hvaða gjöld vildi Gæslan fá fyrir þjónustu sína við ósa Þjórsár og á grundvelli hvaða laga var sú krafa byggð?

Í þriðja lagi nefni ég, herra forseti, að það hlýtur að vekja margar spurningar sú staðreynd að flestir úr áhöfn Víkartinds, nota bene flestir Filippseyingar, voru sendir pappírslausir úr landi þegar rannsókn á slysinu var rétt að hefjast. Hvað lá á og hverjar eru skýringar á því?

Að lokum, herra forseti, ítreka ég aðdáun mína á stórkostlegum störfum þyrlusveitar og sjómanna Landhelgisgæslunnar.