Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:17:17 (4275)

1997-03-11 16:17:17# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:17]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að koma upp í andsvar eftir ræðu hv. þm. til þess, herra forseti, að leiðrétta annars vegar rangfærslur og hins vegar þau ósannindi sem hv. þm. fór með í ræðu sinni. Hv. þm. sagði að ég hefði lýst því yfir að það ætti að lækka laun bankastjóra. Það er rangt. Ég hef hins vegar lýst því að ég tel að laun bankastjóra eigi að segja til um það hvaða störfum þeir eru að sinna og að inn í þeirri heildartölu eigi líka að vera þóknanir fyrir setu í stjórnarstörfum fyrir viðkomandi stofnanir. Síðan sagði hv. þm. að ég hefði lýst því yfir á ársfundi Landsbankans að það bæri ekki að lækka laun bankastjóra. Það eru hrein ósannindi vegna þess að umræða um launakjör bankastjóra kom ekki til umræðu á ársfundi Landsbankans í síðustu viku. Í þriðja lagi er það líka rangt sem hv. þm. heldur hér fram varðandi hvernig var staðið að ráðningu síðasta bankastjóra eða síðustu ráðningu bankastjóra Landsbankans. Þar fluttu tveir fulltrúar í bankaráðinu tillögu um að ráða skyldi þann bankastjóra til fimm ára með sex mánaða uppsagnarfresti. Sex mánaða uppsagnarfrestur í þessu tilfelli er efnislega einskisverður og ástæðulaus. Sú tillaga féll á jöfnum atkvæðum. Hins vegar stóðu þessir sömu tveir bankaráðsmen síðan ekki að því, sátu hjá við atkvæðagreiðslu, að ráða viðkomandi einstakling í stöðu bankastjóra.