Sláturkostnaður

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:49:10 (4329)

1997-03-12 13:49:10# 121. lþ. 88.2 fundur 379. mál: #A sláturkostnaður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Mín fyrirspurn er skyld fyrirspurn hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Það er vitað að bændur á Íslandi hafa öðrum fremur tekið á sig kjaraskerðingar á undanförnum árum. Það er fyrst til þess að taka að stuðningur ríkisins hefur dregist saman um 40% á nokkrum árum eða 43% frá 1991--1995. Á sama tíma hefur verð til neytenda lækkað. Hagnaður búanna hefur því farið verulega minnkandi og tekjur sauðfjárbænda eru svo litlar að til vandræða horfir eins og fram hefur komið að undanförnu og síðast núna í umræðunni. Því hlýtur það að brenna á öllum þeim sem að hyggja hvernig þessari þróun verði snúið við.

Margt bændafólk er láglaunafólk þar sem meðaltekjur af allgóðu sauðfjárbúi, svona 400--600 ærgilda búi, eru ekki nema rétt tæpar 1.500 þús. kr. en meðaltekjur hjóna á Íslandi eru um 3 millj. eða 2,9 millj. á ári. Hvorar tveggja eru tölur miðaðar við 1995.

Eitt af því sem bent hefur verið á er að bóndinn fái of lítinn hlut af söluverði dilkakjöts. Einkum hefur verið bent á að sláturkostnaður á dilkakjöti sé hár, a.m.k. tvöfaldur á við stórgripasláturkostnað. Í Bændablaðinu 4. mars sl. er vitnað í forstjóra Sláturfélags Suðurlands sem telur að lækka megi sláturkostnað um a.m.k. 30 kr. á kg með hagræðingu, úr tæpum 100 kr. á kg í 65--70 kr. Sé hægt að lækka þannig sláturkostnaðinn um þriðjung, þá mundi það auka tekjur sauðfjárbænda um 20--25%. Hér er því athyglisvert mál á ferðinni til kjarabóta fyrir sauðfjárbændur og á þessu stigi nauðsynlegt að fá fram sundurliðun á sláturkostnaðinum til þess að auðvelda þá vinnu sem væntanlega er fram undan. Ég beini því fyrirspurn til hæstv. landbrh. svohljóðandi, með leyfi forseta:

Hver er sláturkostnaður á hvert kíló af dilkakjöti? Hvernig greinist hann í:

1. vinnulaun,

2. sjóðgjöld, og hvert renna þau,

3. dýralækniskostnað,

4. annað, hvað?